Þriðjudagur 16. júlí, 2024
9.8 C
Reykjavik

Rigningin er góð

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ferðalag um Ísland býður upp á ýmis skemmtilegheit sem felast í síbreytilegu veðri. Sjaldnast er hægt að sjá fyrir veðrabrigðin með löngum fyrirvara þótt það sé misjafnt eftir landshlutum. Við Íslendingar höfum löngum verið sólþyrstir eftir kalda og gustasama vetur. Þessi þrá okkar eftir hinu eilífa sólskini brýst gjarnan fram í því að fjöldi landsmanna leggur upp á sólarströnd til að tana og velta sér í sandi og sól. En þessi viðhorf um að sólskinið sé öllu öðru mikilvægara hafa verið að breytast smám saman. Útivistarfólk gerir sér margt grein fyrir því að veður er öðrum þræði hugarástand. Fjallganga í rigningu eða þoku getur verið allt eins gefandi og þegar sólin skín sem skærast. Göngumaðurinn upplifir dulúðina í þokunni. Kynjamyndir sem spretta fram og örva hugmyndaflugið. Regnið skaðar ekki til lengri tíma. Enginn er verri þótt hann vökni. Það felst í því tilbreyting að stunda útiveru við breytilegar aðstæður. Til samanburðar má nefna að landið hjúpað snjó er með allt öðrum blæ en gerist þegar það er í sumarskrúða.

Erlendir ferðamenn á Íslandi kunna margir að meta kulda og slagviðri. Þeim er sama um sólskinið, en sækjast eftir frískandi og súrefnisríku lofti. Sumir hverjir koma frá löndum þar sem nánast alltaf er sól og veðrabrigði lítil sem engin. Slíkt býður ekki upp á fjölbreytni og er leiðinlegt til lengdar. Svo eru það hitabylgjurnar sem ganga reglulega yfir með tilheyrandi skógareldum og ófögnuði.

Kuldinn er auðlind

Ítalskir ferðamenn á Ströndum voru svo „óheppnir“ að vera í þoku og sudda í nokkra daga. Spurðir um líðan sína sögðust þeir vera alsælir. Á heimaslóðum var hitabylgja sem veldur vanlíðan og óáran. Í sudda Strandanna fengu þeir upplifun og önduðu að sér súrefnisríku loftinu. Kuldinn er auðlind, var boðskapurinn.

Auðvitað má öllu ofgera og slagviðri til lengri tíma getur verið íþyngjandi. En það er vert að muna þau fleygu orð Rose Kennedy að eftir storminn syngja fuglarnir. Flestir þekkja þá sælutilfinningu sem fylgir því þegar sólin brýst fram eftir rigningatíð. Þá er gaman. Það er þessi fjölbreytni sem Ísland býður upp á sem er svo gefandi. Aðalatriðið er að lifa og njóta í núinu. Þegar rignir þá einfaldlega klæðum við af okkur vætuna og skemmtum okkur eins og börnin við að stappa í polla og vaða yfir læki. Munum að rigningin er góð, eins og segir í þekktu dægurlagi. Vatnið er undirstaða alls lífs á jörðinni.

Ísland er eitt af fallegustu löndum heims með alla sína duttlunga, hættur og fjölbreytileika. Við megum ekki vanmeta þá fegurð sem er við hvert fótmál í óbyggðum. Njótum landsins okkar og verum meðvituð um þá heppni að vera ekki dæmd til að skrælna upp í endalausu sólskini.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -