Fimmtudagur 18. apríl, 2024
1.1 C
Reykjavik

Algjörlega óáhugaverðir hópar slá í gegn á Facebook – þingmenn meðal virkustu meðlima

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Margir myndu ætla að óáhugaverðir Facebook-hópar væru ávísun á fámenni. Raunin er önnur og sumir vinsælustu og virkustu Facebook-hópar Íslands gera bókstaflega út á hið óáhugaverða og kenna sig við það.

Fyrst ber að nefna hópinn „Algjörlega óáhugaverðar fótboltaupplýsingar,“ hópinn sem kom æðinu af stað og er ennþá langstærstur – telur nú tæplega 6500 manns, já, nærri tvö prósent þjóðarinnar þyrstir í óáhugaverðar fótboltaupplýsingar. Síðuhaldarar segja að þarna sitji djarfur hópur „misskemmtilegra manna og kvenna, og rýnum í öll leiðinlegustu atriði fótbolta til að íþróttin geti orðið skemmtileg fyrir börnin okkar sem vilja helst bara hanga heima og lesa ljóð. / Gerum hið óáhugaverða intressant. Gerum fótbolta skemmtilegan fyrir börnin okkar!“

En lífið er óáhugavert á svo fjölbreyttan hátt og því spruttu fljótlega upp álíka óáhugaverðar síður, eins og „Algjörlega óáhugaverðar stjórnmálaupplýsingar,“ „Algjörlega óáhugaverðar götuheitaupplýsingar,“ „Algjörlega óáhugaverðar körfuboltaupplýsingar“ og „Algjörlega óáhugaverðar tónlistarupplýsingar.“ Þessir hópar telja allir hundruði manns og eru allir ágætlega virkir. En einnig má finna hópa sem hreinlega voru of óáhugaverðir til þess að afla sér meðlima, eins og „Algjörlega óáhugaverðar Eurovision-upplýsingar“ sem aðeins innihalda þrettán meðlimi og pósta að meðaltali einu sinni í mánuði.

Sem dæmi um pósta sem vekja lukku á síðum sem þessum má nefna nýjustu færsluna í „Algjörlega óáhugaverðar körfuboltaupplýsingar,“ þar sem Erlingur Grétar Einarsson fræðir okkur um að „Aðeins einn leikmaður í sögu NBA hingað til er fæddur í Alaska. Það er Mario Chalmers.“

Ef þú vilt fræðast um bolinn hennar Cher eða júgóslavnesk plötuumslög frá níunda áratugnum er „Algjörlega óáhugaverðar tónlistarupplýsingar“ hópurinn fyrir þig.

Ef þér finnst gaman að ljósmynda hversdagslega hluti er tilvalið að skoða „Algjörlega óáhugaverðar götuheitaupplýsingar,“ þar sem hefð hefur myndast fyrir því að mynda götuskilti með meirihluta færslna. Tilgangur síðunnar kristallast svo í aðfararorðum síðunnar: „Hvað er hversdagslegra og óáhugaverða en göturnar sem við búum á eða þvælumst um? Þessi síða er til heiðurs þeim.“ Myndin hér að ofan er tekin úr þessum hópi, þar sem eftirfarandi upplýsingar koma fram: „Á Bartolomějská var tékkneska öryggislögreglan til húsa og geymdi m.a. fanga í gömlu nunnuklaustri.“

- Auglýsing -

Algjörlega óáhugaverð aðkoma þingmanna VG

En þetta er ekki bara sakleysisleg dægradvöl – þessar síður teygja sig í efstu lög samfélagsins, enda tveir alþingismenn VG lykilmenn í þessari þróun. Fáir eru öflugri á síðunni „Algjörlega óáhugaverðar stjórnmálaupplýsingar“ en Andrés Ingi Jónsson, sem eru fæðingarár þingmanna sérlega hugleikinn. Þar fræðir hann okkur um að þingskjal 1959 þennan veturinn sé fyrirspurn Karls Gauta Hjaltasonar, þingmanns Miðflokksins, sem sé einmitt fæddur árið 1959. Ekki nóg með það, átján árum seinna fæddist Jón Þór Ólafsson Pírataþingmaður og var fyrirspurn hans tilefni þingskjals númer 1977.

Þá var kollegi Andrésar Í VG, Kolbeinn Óttarsson Proppé, maðurinn sem kom þessu öllu  saman af stað þegar hann stofnaði „Algjörlega óáhugaverðar fótboltaupplýsingar“ tæpum tveimur árum áður en hann varð þingmaður. Fljótlega eftir að síðan komst á flug skrifaði hann pistil í Fréttablaðið ásamt Jóni Erni Loðmfjörð ljóðskáldi og lýstu þeir mikilvægi hins óáhugaverða svo: „Rétturinn til að láta sér leiðast og eiga nógu mörg tækifæri til að vera leiðinlegur er rétturinn til lífs, að vera lifandi og að skilja lífið.“ Þeir bæta við að það sé ekkert að óttast. „Hættum að óttast það að vera leiðinleg. Hættum að óttast það að láta okkur leiðast.“

- Auglýsing -

Það má jafnvel líta á gjörninginn sem ákveðið uppgjör við hrunið. „Karnivalið er búið. Við keyrðum okkur út, í vinnustaðaleikjum, skemmtistaðasleikjum, í skrílslátum við flippskúnkana í svörtu maríu og núna loks í einhverju gríni á Feisbúkk. Það er enginn brandari að hefjast hér og það sem sagt verður næst og næst og næst er ekki pönslæn. Þetta er leiðinlegt. Óáhugavert. Njótið þess án þess að hörfa.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -