Anton Kristinn Þórarinsson athafnamaður hefur gegnt uppljóstrarhlutverki hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2006 og samkvæmt framburði lögreglumanna var hann ekki þvingaður til þess. Dæmin sanna að hann hafði sjálfur upplýsingar um lögregluaðgerðir. Eitt slíkt er þegar hann veifaði í njósmyndavél lögreglu og fjarlægði hana síðar meir.
Þessi er meðal þess sem finna má í skjölum Héraðssaksóknara sem lekið var á Bland.is. Um er að ræða gríðarlegan gagnaleka. Nú er búið að eyða skjölunum þar sem til þeirra hefur náðst. Mannlíf hefur þau þó undir höndum. Skjölin þykja það viðkvæm að yfirvöld meta hvort grípa þurfi til einhverra aðgerða til að stöðva uppljóstranirnar. Gögnin eru hluti af rannsókn á hendur Steindóri Inga Erlingssyni, lögreglufulltrúa við fíkniefnadeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, en hann lá undir grun um spillingu. Hann var síðar sýknaður.
Sá sem átti að hafa spillt honum er Anton sem vísað er í hér að ofan. Hann er iðulega kallaður Toni og hefur lengi verið umtalaður vegna tengsla við fíkniefnamarkað á Íslandi. Skjölin gefa til kynna að Toni hafi verið uppljóstrari lögreglunnar frá árinu 2006.
Það voru átta lögreglumenn sem tilkynntu grunsemdir sínar til yfirstjórnar lögreglunnar um að Toni hafi notið sérstakrar friðhelgi af hálfu lögreglunnar við brotastarfsemi sína og það um allnokkurt skeið. Í skjölum Héraðssaksóknara segir svo frá: „Sögusagnir hafa heyrst að [Steindór] hafi þegið peningagreiðslu eða -greiðslur frá Antoni gegn því að fá upplýsingar um fyrirhugaðar aðgerðir lögreglu gegn brotastarfsemi hans sem og með því að stöðva framgang lögregluaðgerða þegar spjótin beinast gegn honum. Þar að auki hafi borgari, sem nú er látinn, sagt lögreglumönnum að hann hafi orðið vitni að því þegar kærði veitti viðtöku 350.000 greiðslu frá Antoni. Fullyrt er af hálfu lögreglumanna að rannsóknir stórra fíkniefnamála hafi verið afvegaleiddar að undirlagi [Steindórs]. Sá háttur hafði verið hafður á að upplýsingum var dælt til rannsóknara mála sem voru á skjön við aðrar upplýsingar. Þá sögðu lögregumenn að framgangur nokkurra mála hafi ekki verið með eðlilegum hætti. Þannig hafi aðgerðir lögreglunnar í fíkniefnamálum verið blásnar af þegar böndin fóru að berast að Antoni.“
Í uppljóstrararskýrslunum er meðal annars fjallað um rannsókn fíkniefnadeildarinnar á meintri kannabisræktun að Viðarhöfða 1 í Reykjavík. Lögreglu hafði borist upplýsingar um að verið væri að setja upp mjög stóra ræktun þar og hluti aðgerðarinnar var að setja upp falda myndavél í nágrenninu sem sýndi aðalinngang hússins. „Á einhverjum tímapunkti hafi lögregla áttað sig á að búið var að taka búnaðinn niður og greinilega flytja út um bakdyr. Þá hafi mátt sjá Anton Kristinn ganga framhjá myndavélinni og veifa og hann þannig greinilega vitað af henni,“ segir í skýrslu Héraðssaksóknara.
Innanhúsrannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á meintri spillingu innan fíkniefnadeildarinnar lauk 15. desember 2015 þegar rannsóknargögnin voru sent ríkissaksóknara. Þann sama dag setti lögmaðurinn Húnbogi J. Anderssen, fyrrverandi lögreglumaður, sig í samband við lögregluna og fullyrti að umbjóðandi hans byggi yfir upplýsingum um brot lögreglumanna í starfi og að hann hefði greitt lögreglumönnum fyrir upplýsingar. Sá umbjóðandi var Toni sjálfur en hann var ekki reiðubúinn til að segja frá nema með skriflegu loforði um að verða ekki saksóttur eða kærður fyrir refsiverð brot sín. Húnbogi fullyrti við saksóknara að Steindór hefði þegið milljónir frá Antoni fyrir upplýsingar en á endanum hafi upplýsingar lekið í báðar áttir.
Mannlíf mun halda áfram að fjalla um skjölin sem varpa ljósi á innri átök lögreglunnar sem staðið hafa um árabil.