Fimmtudagur 20. júní, 2024
8.8 C
Reykjavik

Átta stunda vinnudagur og helgarfrí eru samofinn sögu 1. maí

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Árið 1923 var fyrst gengin kröfuganga á 1. maí á Íslandi. Dagurinn varð lögskipaður frídagur árið 1966 á fimmtíu ára afmæli ASÍ. Alþjóðlegur baráttudagur verkalýðsins er samofinn baráttu verkafólks fyrir styttingu vinnutíma og helgarfríi.

Alþýðusambandið hefur tekið fram upplýsingar um hátíðarhöld víða um land. Á dagskrársíðu ASÍ má finna skipulag dagskráa í meira en 30 sveitarfélögum.

Vökulögin á 1. maí
Saga 1. maí um allan heim er nátengd baráttunni fyrir styttingu vinnutímans; átta tíma vinnudag og helgarfríi. Þann 1. maí árið 1886 gengu 300 þúsund starfsmenn 13000 bandarískra fyrirtækja frá störfum og fylktu liði í nafni verkalýðs, sósíalisma og bættra kjara. Mánuðum saman höfðu verkalýðsfélög í Bandaríkjunum, einkum í Chicago borg háð erfiða baráttu fyrir bættum kjörum og átta stunda vinnudag.

Hér á Íslandi sækir dagurinn uppruna sinn einnig í það baráttumál. Árið 1921 voru vökulögin, sem tryggðu íslenskum sjómönnum sex tíma hvíld á sólarhring, eru eitt fyrsta dæmið hér á landi um réttindi sem áunnist hafa vegna verkalýðsbaráttu. „Hér skal orðtakið það: Fylgjumst einhuga að!“ segir í auglýsingu á Kröfugöngunefndar á forsíðu Alþýðublaðsins 1. maí árið 1923.

Fjallað var um hátíðarhöldin í blaðinu daginn eftir 2. maí 1923 og þeim lýst sem vinnandi fólki til sóma. „Kröfugangan í gær varð alþýðunni til sóma og heppnaðist fullkomlega eins vel og menn höfðu gert sér vonir um, þar sem þetta var í fyrsta skiptið, sem slíkt fer fram hér.“ Þá segir blaðið að hvarvetna í fylkingunni hafi mátt sjá fána jafnaðarmanna borna. Meðal þeirra krafa sem göngumenn báru í Reykjavík var krafan um átta tíma vinnu og átta tíma hvíld og slagorðið fátækt er enginn glæpur og vinnan ein skapar auðinn. Hefð er fyrir því að launafólk gangi undir rauðum fána og leikinn er alþjóðasöngur verkalýðsins, Internasjónalinn, sem einnig kallast Nallinn.

Forsíða Alþýðublaðsins þiðjudaginn 1. maí áið 1923

1. maí er ekki frídagur í Bandaríkjunum þótt landið spili lykilhlutverk í sögu hans.

Aðalkrafa mótmælanna þann 1. maí árið 1886 var átta stunda vinnudagur. Krafa sem hafði verið að gerjast meðal verkalýðsfélaga um heim allan frá miðri 19. öld. Í Chicago, þar sem baráttan var afar hörð eftir langvarandi verkföll var gangan að auki upphaf nokkurra daga aðgerða til stuðnings starfsmönnum McCormick Harvesting Machine Company sem höðu þá verið í verkfalli frá því í byrjun febrúar sama ár.

- Auglýsing -

Það kann að koma spánskt fyrir sjónir að Bandaríkin spili svo stóra rullu í sögu 1. maí. Dagurinn er ekki frídagur í Bandaríkjunum og raunar þekkja fáir í landinu uppruna dagsins. Það á sér þó sögulegar og pólitískar skýringar. Dagurinn á sér sósíalískar og anarkískar rætur. Andúð auðvalds og yfirvalda á deginum varð til þess að í gegnum áratugina var háð einskonar menningarstríð gegn því að dagurinn festi rætur. Bandarísk yfirvöld gerðu þrjár tilraunir til að breyta deginum úr degi andófs og baráttu verkalýðs í fögnuð lög og reglu, amerísks stolts og tryggð. Þá var kommúnistaandúðin og hræðslan við sósíalisma á tímum kalda stríðsins til þess að draga verulega úr þátttöku á deginum. Þrátt fyrir það er talsvert um dýrðir og fögnuð hjá stéttar og verkalýðsfélögum í Bandaríkjunum á þessum degi en lögformlegur frídagur verkalýðsins er fyrsti mánudagur í september.

Það á sér langa sögu í Bandaríkjunum að fagna verkalýðsbaráttunni í byrjun september eða allt frá því í kringum 1894. Þá þegar vildu verkalýðsfélög í Bandaríkjunum að dagurinn yrði fyrsta maí en september varð fyrir valinu meðal annars vegna ríks vilja til að minna ekki um of á blóðuga sögu maí mótmælanna í Chicago og pólitískra réttarhalda sem á eftir fylgdu og vöktu heimsathygli og hneykslun.

Saga 1. maí er saga stórra sigra og samfélag réttlætis en hún er um leið blóði drifin. Hvorki helgin né átta stunda vinnuvika var afhent almenningi án baráttu.

- Auglýsing -

Minningardagur fyrir verkafólk sem lést í Chicago mótmælunum

Árið 1889 hittust fulltrúar alþjóðasamtaka kommúnista á þingi evrópskra verkalýðsfélaga í París. Þar var samþykkt tillaga frá Frökkum um að 1. maí skyldi verða alþjóðlegur frídagur verkafólks og baráttudagur hreyfingarinnar. Valið á þessum degi styðst við rótgróna hefð í sunnanverðri Evrópu þar sem menn tóku sér oft frí þennan dag. Í heiðnum sið var hann táknrænn fyrir endalok vetrarins og upphaf sumarsins. Á Norðurlöndunum var 1. maí fyrsti dagur sumars. Í Rómarveldi var 1. maí vetrarlokahátíð og hátíð frjósemi og vaxtar. Frakkar lögðu til að verkafólk notaði daginn til fjöldafunda til að fylgja eftir kröfum um 8 stunda vinnudag og aðrar umbætur á kjörum sínum. Þingið kallaði eftir því að hátíðarhöldin um allan heim yrðu haldin í minningu verkamannanna sem létust í Chicago 4. maí árið 1886 þegar lögreglan hóf að skjóta inn í hóp mótmælenda.

Mótmælin höfðu farið friðsamlega fram og voru raunar farin að síga á seinni part þegar sprengju var kastað í hóp lögreglumanna sem svöruðu með því að skjóta á verkamennina. Enn þann dag í dag er ekki vitað hver kastaði sprengjunni.

Fréttateikning frá réttarhöldunum yfir Haymarket átta.

Haymarket átta: Réttarmorðið sem vakti heimsathygli
Í kjölfarið voru átta anarkistar sóttir til saka fyrir morðin. Aðeins þrír þeirra voru á staðnum þegar blóðbaðið átti sér stað. Réttarhöldin vöktu athygli og hneykslun um allan heim. Kviðdómurinn var handvalinn, dómarinn lýsti margsinnis yfir andúð sinni á sakborningum og þrátt fyrir að ákæran væri fyrir morð lýstu yfirvöld og saksóknarar því ítrekað yfir að hér væri réttað yfir anarkisma. Réttarhöldin væru réttarhöld samfélags laga og reglu yfir hugmyndafræði stjórnleysis. Mennirnir átta voru allir fundir sekir og sjö þeirra voru dæmdir til dauða.

Í nóvember árið 1887 voru fjórir mannana hengdir en einn hafði framið sjálfsmorð daginn áður. Á meðan á réttarhöldunum stóð höfðu 100 þúsund skrifað undir áskorun til yfirvalda um að sýna mönnum vægð.

Réttarhöldin gengu svo nærri siðferðiskennd fólks um allan heim að rithöfundar og ljóðskáld heimshorna á milli fjölluðu um réttarhöldin. Þar á meðal Oscar Wilde og George Bernard Shaw. Árið 1893 voru þrír mannanna náðaðir af John Peter Altgeld, fylkisstjóra Illinois.

Kröfuganga í New York á Union Square árið 1912

Mótaði sögu dagsins

Það er ekki svo einfalt að 1. maí sé haldinn eingöngu vegna mótmælanna í Chicago heldur mótaði áfallið sögu dagsins og alþjóðlega baráttu verkalýðsins. Hörmulegar aðstæður verkafólks í Evrópu urðu til þess að mikill fjöldi þeirra leitaði til Bandaríkjanna í von um betra líf. Í Chicago var stórt samfélag þýskra, írskra og skandinavískra innflytjenda sem fluttu með sér evrópskar hefðir og 1. maí.

Í sögu ASÍ kemur fram að þingið í París árið 1889 á 100 ára afmæli frönsku byltingarinnar hafi verið var ákveðið að gera kröfuna um átta stunda vinnudag að helstu kröfu verkafólks á alþjóðlegum baráttudegi, 1. maí. „Þegar árið eftir voru haldnar kröfugöngur 1. maí víða í Evrópu og Norður-Ameríku til þess að leggja áherslu á kröfuna um átta stunda vinnudag. Árið 1889 var einnig ákveðið á þingi Annars alþjóðasambandsins að rauði fáninn skyldi verða tákn fyrir baráttu verkamanna og sameiningarmerki þeirra, en rauði fáninn hafði einmitt verið tákn byltingarsinna í febrúarbyltingunni í Frakklandi árið 1848 og síðar tákn Parísarkommúnunnar 1871. Á fyrri hluta þriðja áratugarins var farið að nota rauða fánann á fundum Alþýðusambandsins og þá varð einnig til fáni og merki sambandsins, rauður fáni með þremur örvum sem voru tákn frelsis, jafnréttis og bræðralags.“

Á Íslandi, eins og áður segir, var dagurinn haldinn hátíðlegur árið 1923. „Hátíðahöldin í Reykjavík voru skipulögð af nefnd á vegum fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna. Formælendur þess munu m.a. hafa verið Ólafur Friðriksson og Hendrik Ottósson og voru þeir félagar skipaðir í undirbúningsnefnd auk Þuríðar Friðriksdóttur og fleiri félaga. Við ramman reip var að draga því að 1. maí 1923 var virkur dagur og fólk þurfti að taka sér frí úr vinnu ef það vildi taka þátt. Hendrik skrifaði brýningargrein í Alþýðublaðið og erindrekar fóru um til þess að safna saman fólki; tókst það „furðanlega … þrátt fyrir hótanir og illyrði sumra verkstjóra. … Nokkrir danskir og sænskir smiðir, sem unnu í Hamri neituðu afdráttarlaust að vinna 1. maí. Það væri ekki siður í löndum þeirra“. Einn „erindrekanna“ sem stóð í að fá fólk í gönguna var móðir Hendriks, Carolíne Siemsen, en hún fór um og skoraði á meðlimi verkakvennafélagsins að hætta að vinna á hádegi og taka þátt í kröfugöngunni.“ Þess má geta að árið 1923 var 1. maí einnig fagnað í fyrsta sinn í Indlandi.

Kröfuganga 1. maí í Búkarest, Rúmeníu.

Sovíetríkin tóku upp tákn verkalýðsins
Einhverjir hugsa kannski um Sovétríkin sálugu og alræðisvald kommúnistastjórna þegar þeir sjá fánann og heyra sönginn, en upprunaleg merking þessara tákna er fyrst og fremst krafa um breytingar og réttlátara þjóðfélag. Rauði liturinn táknar uppreisn gegn óréttlæti. Hann þýðir að nú sé nóg komið og er um leið tákn nýrra tíma. Barátta verka- og launafólks og táknin sem hreyfingin notar á sér langa sögu og í gegnum alla þá sögu hafa yfirvöld, stjórnmálahreyfingar og fjármagn gert tilraunir til að tala baráttuna niður eða baða sig merkjum hennar.

Í um hundrað löndum er 1. maí hátíðisdagur verkalýðsins og opinber frídagur. Þá er honum víðast hvar fagnað af stéttarfélögum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -