Íbúar Reykjanesbæjar vilja gjarnan að gerðar séu úrbætur á útliti bæjarins, ef marka má umræðu sem sköpuðust á Facebook hópi bæjarfélagsins.
„Sjávarhlið Keflavíkur hvar fjöldi fólks fer um og safnast saman til hátíðarhalda eins og Ljósanótt. Er ekki kominn tími til að bæta úr, bæði eigendur og bær?“ skrifar Johan nokkur og deilir myndum af húsum og umhverfi í miður góðu ástandi.
„Betur má ef duga skal. Hefur mikið lagast. Á árunum milli 1970 til 1980 var þessi ásýnd eins og maður væri kominn í fátækrahverfi í Afríku. Þá var bara máluð framhlið sem snéri að Hafnargötu,“ skrifar Sævar nokkur.
Mörgum þykir löngu orðið tímabært að bæta ásýnd þessa parts bæjarins, að því er virðist.
„Jú það er svo sannarlega kominn tími til. Nýi miðbærinn á Selfossi gefur manni líka mikla hvatningu!“ Skrifar Laufey nokkur. En nú fyrr í sumar var opnaður glæsilegur nýr miðbær í hjarta Selfoss, sem fáir hafa líklegast farið varhluta af.
„Þessi hlið bæjarins hefur alltaf verið til skammar,“ skrifar einn. Og segir Ingunn nokkur löngu kominn tími til að gera eitthvað í þessu.
Einum íbúa þykir bærinn í heild sinni þurfa á yfirhalningu að halda.
„Það hefur nú loðað við Reykjanesbæ að vera ljótur og sóðalegur. Það ætti að vera vilji hjá bæjarstjórn og íbúum að gera eitthvað í þessu.“
En ekki eru allir sammála.
„Ljótur og sóðalegur? Bara ekki sammála þér en auðvitað má gera betur þarna við sjávarsíðuna. Bærinn hefur tekið stakkaskiptum síðustu ár og er bara nokkuð fallegur. Reyndar hvergi betra að búa en í Reykjanesbæ.“
„Það er búið að vinna grettistak í umhverfismálum, sjáðu í sambandi við sjávarsíðuna, smábáta höfnina, og allt er varðar gatnakerfis ásamt uppbyggingunni í Innri Njarðvík, ásamt því sem er að gerast á Ásbrú, ég er fæddur og uppalinn í Keflavík, mikið er ég ánægður með þróunina í Reykjanesbæ!“ Skrifar Einar.
„Er bakhlið húsanna ekki á ábyrgð eigendanna ? ég bíð eftir að bætt verði úr framhliðum þessara húsa. Það eru mörg húsin við Hafnargötuna farin að láta á sjá og mættu eigendur taka til hendinni í þeim efnum. En sjávarsíðan er orðin mjög falleg og göngustígurinn meðfram sjónum nýtur mikilla vinsælda. Það sem er í höndum bæjarins er í góðum málum og alltaf verið að bæta úr þar á bæ,“ vill Guðrún nokkur meina.