Miðvikudagur 13. nóvember, 2024
7.2 C
Reykjavik

„Betra að hafa elskað og misst en aldrei elskað“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leiðari úr 25. tölublaði Vikunnar 2019.

Fyrirsögn þessa pistils er upprunalega línur úr ljóði eftir Alfred Tennyson en hann þekkti sannarlega bæði ást og missi. Fjölskylda hans átti í miklum erfiðleikum einkum vegna þunglyndis og drykkjuskapar föður hans og þrír bræður Alfreds stríddu einnig við andleg veikindi. Ungur missti Alfred besta vin sinn og stuðningsmann, Arthur Hallam, og var eftir það mjög brotinn. Hann varð ástfanginn af Emily Sellwood en faðir hennar taldi bóhemískan lífsstíl skáldsins ekki sæmandi dóttur sinni svo elskendurnir skrifuðust á í leyni árum saman. Þau fengu loks að giftast og hjónabandið varð hamingjuríkt. Ljóðið In Memoriam þar sem þessar línur koma fyrir er ort í minningu Arthurs og þessi orð hans urðu strax fleyg. Skiljanlega því þau tala beint inn í hjörtu allra þeirra sem hafa misst ástvin og syrgja.

Huggunin í djúpri sorg felst alltaf í minningunum, í krafti þeirra tilfinninga sem manneskjan bar í brjósti. Anna Lilja Flosadóttir grípur einmitt til þeirra í forsíðuviðtali við Vikuna. Hún missti mann sinn, Eirík Inga Grétarsson, ótímabært úr ósæðaflysjun, sjaldgæfum sjúkdómi sem læknar hér hefðu átt að greina en gerðu ekki.

Lát hans var ekki síður sorglegt vegna þess að þau höfðu gengið í gegnum mikla fjárhagsörðugleika vegna vanefnda annarrar manneskju og ekki bætti hrunið úr skák. Þau misstu í raun allt sitt. Þótt vissulega sé ekki hægt að bera saman hluti og fólk er samt gríðarlegt áfall að fara úr efnahagslegu öryggi og velgengni til fátæktar á örfáum mánuðum. Það er óskaplega slítandi og erfitt að vita ekki hvað morgundagurinn ber í skauti sér og hafa ekki hugmynd um hvort maður nái að mæta nauðþurftum sínum. Allt þetta hafði ekki góð áhrif á heilsu Eiríks. Læknarnir töldu að um magabólgur væri að ræða og sendu hann því ekki í frekari rannsóknir eins og hefði þurft.

Eftir mikið basl og erfiðleika ákváðu hann og Anna Lilja að flytja til Spánar. Þar væri ódýrara að lifa og þau sáu fram á streituminna líf. Fjórum dögum eftir að þau lentu var Eiríkur allur. Kona hans sneri allslaus aftur heim og er enn að vinna úr áfallinu. Að sögn hefur hún notið velvildar og styrks frá mörgum en íslenskt velferðar- og heilbrigðiskerfi brást bæði seint og illa við. Hún er þó loks komin með öruggt húsaskjól og það er vissulega framför. Landlæknir hefur fjallað um mál Eiríks og það er hans mat að læknarnir hafi átt að senda hann áfram til frekari greiningar fremur en skrifa einkennin á meltingartruflanir. Kannski er ekki undarlegt þótt Anna Lilja sé reið og finnist að hefði mátt koma í veg fyrir lát manns hennar. En það er engu að síður staðreynd og hennar bíður það verkefni að sætta sig við orðinn hlut og leita huggunar í að hafa upplifað heita ást.

Sjá einnig: Draumurinn varð að martröð

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -