Föstudagur 19. apríl, 2024
0.1 C
Reykjavik

Bílabóndinn á Garðsstöðum keypti skip: „Fullir menn á fínum bílum í vanda“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég var 12 ára Þegar ég eignaðist fyrsta bílinn, það var Moskvitch 1964. Fékk hann 1979 og síðan hef ég safnað. Eignaðist allnokkra Mossa, svo varð flóran smátt og smátt fjölbreyttari. Nú er ég með eitthvað nálægt 600 bílum hérna á túninu,“ segir Þorbjörn Steingrímsson bílabóndi á Garðsstöðum í Ísafjarðardjúpi. Bílasafnið á Garðsstöðum hefur vakið mikla athygli og hermt er að það komi greinilega fram á gervitunglamyndum utan úr geimnum. Þorbjörn er ævinlega kallaður Bjössi skrúfa fyrir vestan og mun skrúfunafnið hafa fest við hann strax í skóla. Þar gerði hann við ótrúlegustu hluti og sýndi strax að hann úrræðagóður að fást við hluti sem ekki vildu þýðast öðrum.
Mikið hefur verið um að fólk leiti aðstoðar á Garðsstöðum þegar eitthvað ber út af á ferðum þess um Djúpið. Bjössi var innan við fermingu þegar hann var byrjaður að aðstoða fólk með bilaða bíla.

Bílabreiðan á Garðsstöðum vekur athygli.

„Það var mikið um að fólk var að koma hérna með sprungin dekk enda vegirnir verri þá og dekkin lakari. Fólk efaðist um að ég, barnið gæti gert þetta. Það voru oft kallar að sunnan að veiða hérna innfrá og áttu til að lenda í vandræðum þegar þeir fóru að keyra mjög drukknir á fínu bílunum sínum. Man eftir einum þjóðþekktum sem kom eftir að hafa ekið drukkinn á stein og skemmt felgu og dekk. Hann kom hérna og bankaði uppá, hann hafði enga trú á að ég gæti bjargað honum en ég lagaði dekkið og rétti felguna og hann komst suður á Range Rovernum sínum“.
Þegar ekið er inn í Ögurvíkina blasir bílabreiðan við fólki og vekur jafnan forvitni vegfarenda. Margir stoppa og taka myndir, ganga jafnvel upp í hlíðina ofan við bæinn til að filma.
„Það er alltaf eitthvað af fólki sem kemur við til að skoða, ef ég er hérna innfrá leyfi ég fólki gjarnan að labba um svæðið og margir hafa gaman af því.“

Báturinn Eiður er nýjasta viðbótin á Garðsstöðum. Hugmyndavinna er nú á fullu um nýtingu skipsins. Mynd: Guðmundur Sigurðsson.

Þorbjörn hefur oft komist í fréttir vegna bílasafnsins sem svo mörgum finnst svo heillandi. Í vetur bættist við nokkuð stór stálbátur sem dregin var inneftir og settur í fjöruna. Eiður ÍS skemmdist í snjóflóðinu á Flateyri í fyrra og stóð til að rífa hann en Bjössi festi kaup á honum og kom honum fyrir í fjörunni sinni. Það er með bátinn eins og bílana, ferðafólk stoppar og tekur myndir. Samansafnið á Garðsstöðum er að verða segull fyrir forvitna ferðalanga.
„Það urðu læti þegar ég kom með bátinn hingað, en hann er á einkalandi eins og allt annað dót hérna og ekki fyrir neinum. Ég veit ekkert hvað ég geri við þennan bát, kannski geri ég úr honum bústað eða bara eitthvað allt annað. Kannski stilli ég honum betur upp Þarna og geri eitthvað skemmtilegt úr honum.
Það er getur alveg verið gaman fyrir fólk að rölta um og skoða bíla og báta og fá sér svo kaffi í Ögri á eftir ef það er heppið og hittir á að þar sé opið“.

Þorbjörn er á sína vísu listamaður og stórgaman að skoða sig um á hlaðinu. Nánast allt er notað. Olíur af bílunum eru notaðar til að kyndingar. Engin olía er á þeim bílum sem standa á túninu þannig að mengunarhætta er hverfandi. Bílarnir eru rifnir jafnt og þétt og varahlutum haganlega komið fyrir á lager. Nýtnin eru öllu öðru framar, sú var tíð að nýtni var kölluð dyggð.
„Fólk virðist ekki átta sig á að hlutir hætta ekkert að vera til að sjálfu sér. Þegar þú kaupir bíl hverfur hann ekkert þegar þú ert búinn að selja hann. Ég hef legið undir ámæli og nánast verið ofsóttur með þessa bíla síðustu tuttugu ár. Nágrannar mínir hafa beitt sér af mikilli hörku gegn mér en þeim kemur þetta ekkert við. Við eigum þetta land“.
Á hverju ári fara héðan allt að 400 tonnum af járni í endurvinnslu hjá Furu í Hafnarfirði. Þannig að fólk ætti bara að slaka aðeins á og hugsa um sinn garð en ekki minn“.

Búið er að gera stuttmynd um lífið á Garðsstöðum og einkum um Bjössa skrúfu, það er kvikmyndagerðarmaðurinn og fjöllistakonan Helga Rakel Rafnsdóttir sem gert hefur myndina sem ber heitið Góði hirðirinn.
Myndin hefur verið tilnefnd til verðlauna á erlendum hátíðum. Sýningar hefjast núna á fimmtudaginn 30. apríl í Bíó Paradís.
„Þetta er í fyrsta skipti sem ég er filmaður af einhverjum öðrum en nágrönnunum,“ segir Þorbjörn bílabóndi glettinn á brá.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -