Laugardagur 27. júlí, 2024
10.8 C
Reykjavik

Björn Steinbekk brjálaður út í borgina: „Þetta er algjörlega til skammar“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -
Athafnamaðurinn Björn Steinbekk er brjálaður út í Dag B. Eggertsson borgarstjóra og Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra. Hann er sannfærður um að hvorugt þeirra myndi sætta sig við sömu vinnuaðstöðu og börnin í Fossvogsskóla og leikskólanum Kvistaborg. Björn taggar þau bæði við skammarfærslu sína inn í hópi hverfisbúa Smáíbúðahverfisins á Facebook.

Neyðarástand ríkir í húsnæðismálum Fossvogsskóla. Myglu­skemmdir hafa haft á­hrif á skóla­starfið í Foss­vogs­skóla síðustu ár. Raka­skemmdir eru enn til staðar og þá fannst asbest í glugga­kistum í byggingunum. Að óbreyttu munu 2. til 4. bekkur tímabundið stunda nám í húsnæði íþróttafélagsins Víkings í Fossvogi, vegna myglunnar í Fossvogsskóla. Foreldrar nemenda við skólans eru álíka reiðir og Björn, eins og sjá má á yfirlýsingu foreldrafélags skólans sem finna má hér neðar.

Skóla­starf Fossvogsskóla mun í vetur fara fram í færan­legum kennslu­stofum og í Korpu­skóla. Bráða­birgða­skúr sem átti að taka á móti yngsta skóla­stiginu í Foss­vogi er hins vegar ekki til­búinn og því munu krakkarnir fá kennslu í Víkinni, fé­lags­heimili Víkings, þangað til.

Björn er afar ósáttur með stöðu mála og við skulum gefa honum orðið:

„Myndir þú sætta þig við sömu vinnuaðstöðu og börnin í Fossvogsskóla og Kvistaborg? Upp er komin mygla í enn og aftur og segir sagan, sem skólastjórnendur hvorki neita né játa, að þessir bekkir eigi að vera í útikennslu fyrstu vikurnar (svona svipað og þú mættir í vinnuna og yrði sagt að fara með tölvuna eða verkfærin þín í Húsdýragarðinn í 8 tíma). Já, enn heldur meirihlutinn í Reykjavík og embættismenn borgarinnar áfram að brjóta lög um skólahald og kennslu,“ segir Björn ákveðinn.
„Kvistaborg er svo enn ein hörmungin. Þar hefur ekki verið lyft hamar eða rökhugsun í allt sumar og börnin send um hvippinn og hvappinn (vona að þetta sé rétt stafað). Það er verið að brjóta lög sem eiga að tryggja börnum okkar viðunandi starfsumhverfi og menntun.“
Ljóst þykir að fjöldi hverfisbúa er afar ósáttur með stöðu mála í hverfinu þegar kemur að grunn- og leiksskólastarfinu. Ragnar nokkur er einn þeirra: „Þetta er algjörlega til skammar,“ segir Ragnar.
Foreldrafélag Fossvogsskóla hefur sent frá sér harðorða yfrlýsingu þar sem segir meðal annars að það húsnæði sem bjóða eigi börnunum sé með öllu óboðlegt og dómgreindarleysi borgaryfirvalda sé með eindæmum. Yfirlýsinguna má sjá í heild sinni hér að neðan.
Yfirlýsing frá stjórn foreldrafélags Fossvogsskóla
Komið er upp neyðarástand í húsnæðismálum 2.-4. bekkjar í Fossvogsskóla í byrjun skólaárs. Skólayfirvöld í Reykjavík hafa ákveðið að hola minnst 130 börnum í kjallara og anddyri íþróttahúss Víkings. Umrætt húsnæði er fullkomlega óboðlegt sem kennsluhúsnæði og lýsir valið á húsnæðinu dómgreindarleysi skólayfirvalda á þörfum barna og starfsfólks í námi og starfi. Mál er að linni. Við skorum á borgaryfirvöld að bregðast við og finna án tafar viðeigandi og heilsusamlegt húsnæði fyrir þessi 7, 8 og 9 ára gömlu börn og kennara þeirra. Ekki má fórna einum einasta skóladegi fyrir vandræðagang og vanhöld borgaryfirvalda í málinu.
Stjórn foreldrafélagsins lýsir furðu á seinagangi yfirvalda og úrræðaleysi þessa stærsta sveitarfélags landsins, þegar ljóst var fyrir mánuði síðan að færanlegar kennslustofur yrðu ekki tilbúnar í tæka tíð. Börn og starfsfólk Fossvogsskóla hafa verið á vergangi meira og minna í tæp þrjú ár og stærstan hluta þess tíma vegna aðgerðarleysis borgaryfirvalda. Starfsfólk og foreldrar hafa sýnt vanmætti yfirvalda langlundargeð, langt umfram það sem til má ætlast. Enn höggva borgaryfirvöld í sama knérunn og misbjóða umbjóðendum sínum. Kennarar og starfsfólk sem leitað hafa til okkar eru uppgefin og raunveruleg hætta er á að fleiri reynslumiklir starfsmenn yfirgefi skólann en gerðu síðastliðið vor. Foreldrar vilja stöðugleika og námsfrið fyrir börnin og sumir hverjir eru að leita hófanna í öðrum skólum af þeim sökum.
Jafnframt lýsir stjórn vonbrigðum með samskiptaleysi við foreldra og starfsfólk. Líkt og lög kveða á um starfar skólaráð við Fossvogsskóla og í því eiga foreldrar og starfsfólk fulltrúa. Lögboðið hlutverk skólaráðs felst m.a. í að vera umsagnaraðili um meiriháttar breytingar á skólastarfi og vaka yfir heilsu og vellíðan nemenda í hvívetna. Skólaráð hefur ekki verið virkjað á neinum tímapunkti í aðdraganda skólabyrjunar, þrátt fyrir augljósa þörf. Fulltrúar foreldra og starfsfólks frétta af málefnum skólans í gegnum fjölmiðla og klórþvegnar fréttatilkynningar skólayfirvalda og upplýsingafulltrúa borgarinnar. Samstarf við skólasamfélagið er hverfandi nú líkt og oft áður, þrátt fyrir loforð um bót og betrun úr ræðustóli borgarstjórnar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -