Föstudagur 14. júní, 2024
10.8 C
Reykjavik

Blómstra á nýjum vettvangi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þjóðþekktir Íslendingar sem hafa tekið U-beygju á starfsferlinum.

Eyjólfur Kristjánsson.

Úr tónlist í tannhvíttun
Eyjólfur Kristjánsson, betur þekktur sem Eyvi, er að heita má kanóna í íslensku tónlistarlífi því eftir hann liggja meira en 200 lög. Þ.á m. Eurovision-slagarinn Nína sem er fyrir löngu búinn að skipa sér sess með helstu dægurlagaperlum þjóðarinnar. Marga rak því í rogastans þegar meistarinn upplýsti í viðtali fyrr á árinu að hann hefði söðlað um og væri farinn að vinna við … tannhvíttun. Já, Eyvi hefur svissað úr söngnum yfir í snyrtibransann og ku þetta vera í fyrsta sinn í 30 ár sem kappinn er í fastri vinnu.

 

Friðrik Dór. Mynd / Kristinn Magnússon.

Snýr sér að innanhússhönnun
Söngvarinn Friðrik Dór hélt fyrir skömmu tónleika í Kaplakrika sem hann tilkynnti að yrðu síðustu tónleikar hans í bili. Hann ætlar nefnilega að söðla alveg um, láta gamlan draum rætast og flytja til Ítalíu með fjölskylduna. Ástæðan fyrir búferlaflutningunum er sú að Friðrik hyggst nema innanhússhönnun á Ítalíu enda segist hann hafa haft áhuga á hönnun frá níu ára aldri þegar hann fékk að mála herbergið sitt dökkblátt og eiturgrænt. Áhuginn jókst svo enn frekar við áhorf á Innlit-útlit og lestur Bo bedre frá tólf ára aldri. Það má sem sagt í rauninni kenna Völu Matt um hvarf söngvarans ástsæla af tónlistarsenunni. Mikil er ábyrgð hennar.

 

Sigurður Ingi Jóhannsson.

Dagfinnur dýralæknir
Alþingi hefur stundum verið líkt við dýragarð og því kannski við hæfi að þar skuli sitja menntaður dýralæknir. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra og formaður Framsóknarflokksins, er með embættispróf í dýralækningum frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn og starfaði lengi sem dýralæknir áður en leiðin lá í pólitíkina. Segja mætti að sú reynsla hafa nýst Sigurði Inga vel á þingi því gagnstætt forvera sínum í Framsókn, sem hafði einstakt lag á að strjúka köttum öfugt, þá þykir Sigurður Ingi yfirleitt nálgast pólitíska mótherja sína af mikilli yfirvegun og nærgætni. Þar kemur reynsla dýralæknisins af styggum skepnum eflaust að góðum notum.

 

- Auglýsing -
Ellý Ármanns. Mynd / Kristinn Magnússon

Náttúrutalent og núdisti
Ellý Ármanns sigraði hjörtu þjóðarinnar sem sjónvarpsþula á RÚV fyrir margt löngu og starfaði síðan árum saman sem blaðamaður á Vísi þar sem segja má að hún hafi rutt brautina fyrir vinsældir krassandi slúðurfrétta af fræga fólkinu. Nú er Ellý sjálf orðin viðfangsefni slúðurfréttanna, en vefmiðlar halda vart vatni yfir nýjustu framleiðslu hennar, nektarmyndum af erótískara taginu þar sem hún sjálf og unnusti hennar, Hlynur Jakobsson, eru talin vera fyrirmyndirnar. Ellý er þó leyndardómsfull þegar spurt er út í þá hlið málsins, en eitt er víst að hún er hvergi nærri hætt að kitla slúðurtaugar landans. Við bíðum spennt eftir næsta útspili frá henni.

 

Bergþór Pálsson. Mynd / Kristinn Magnússon

Óperusöngvari gerist áhrifavaldur
Óperusöngvarinn og sjarmatröllið Bergþór Pálsson sýndi að honum er meira til lista lagt en að þenja raddböndin þegar hann birtist landsmönnum í þættinum Allir geta dansað, vel greiddur og tanaður. Þátttökunni fylgdu miklir rykkir og hnykkir og kílóin fuku af Bergþóri. Síðan þá hefur söngvarinn síhressi farið hamförum á samfélagsmiðlum þar sem hann hefur lyft lóðum, farið í fallhlífarstökk, rifið sig úr að ofan og mært hreinsiefni (sem hlaut viðurnefnið „Bergþórssápan“) en rithöfundurinn Jónína Leósdóttir var ein þeirra sem ákvað að prófa ofurefnið og sagði á Facebook að það hefði verið hápunktur helgarinnar. Bergþór er því ekki lengur bara söngvari heldur áhrifavaldur og vinsæl samfélagsmiðlastjarna.

- Auglýsing -

 

Vigdís Grímsdóttir. Mynd / Stefán Karlsson

Aftur til upphafsins
Vigdís Grímsdóttir var löngu orðin einn dáðasti og virtasti rithöfundur þjóðarinnar þegar hún söðlaði alveg um fyrir nokkrum árum og réði sig sem kennara við Finnbogastaðaskóla í Árneshreppi á Ströndum. Mörgum kom þessi kúvending í opna skjöldu en Vigdís er lærður kennari og starfaði sem slíkur þegar fyrstu bækur hennar slógu í gegn. Það má því segja að hún hafi snúið aftur til róta sinna í fámenninu í Árneshreppi þar sem hún er engu minna elskuð og dáð af nemendum sínum en hún er elskuð og dáð af lesendum sínum um allt land. Til allrar hamingju fyrir okkur hefur hún þó haldið áfram að skrifa með fram kennslunni og ekki alveg snúið baki við rithöfundarferlinum.

 

Sölvi Blöndal. Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Rapparinn sem varð hagfræðingur ársins
Sölvi Blöndal, hagfræðingur hjá Gamma, var valinn hagfræðingur ársins 2017 af Félagi viðskipta- og hagfræðinga. Sölvi var áður einn af röppurunum í hljómsveitinni Quarashi sem naut gríðarlegra vinsælda fyrir áratug eða svo. Fáir hafa sennilega séð það fyrir sér að nokkrum árum síðar yrði honum hampað sem besta hagfræðingi þjóðarinnar. Enda sagði hann við móttöku verðlaunanna að hann hefði sjálfur aldrei trúað því fyrir 10 árum að hann myndi taka við verðlaunum sem hagfræðingur ársins þar sem öll þau verðlaun sem hann hefði tekið við fram að því hefðu verið vegna tónlistarinnar. Plötur Quarashi seldust í bílförmum, bæði á Íslandi og í Japan, og ekki ólíklegt að hagfræðiheili Sölva hafi verið driffjöðrin á bak við velheppnaða markaðsetningu platnanna.

 

Helga Vala Helgadóttir.

Nýtur sín á hinu pólitíska sviði
Helga Vala Helgadóttir lærði meðal annars leiklist áður en hún settist á þing fyrir Samfylkinguna og er óhætt að segja að þar fái leikrænir hæfileikar hennar að njóta sín til fulls. Þannig tóku flestir eftir þegar Helga Vala skundaði burt, full vandlætingar, af Þingvöllum þegar Pia Kjærsgaard, forseti danska þingsins og „fordómaseggur“, hélt hátíðarræðu á fullveldisafmælinu. Eða þegar Helga Vala húðskammaði Eyþór Arnalds fyrir að „hamast af öllu afli“ á Degi B. Eggerts í braggamálinu og spurði hvort ekkert væri „heilagt í pólitísku stríði?“ Pólitískir andstæðingar Helgu Völu hafa sakað hana um sýndarmennsku en þarna sannast einfaldlega sú fornkveðna vísa að stjórnmál eru leiksvið og þingkonan skelegga kann að nýta sér það.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -