Miðvikudagur 27. mars, 2024
-1.2 C
Reykjavik

Ellert óttaðist um son sinn: „Ég opna hurðina og kolsvartur reykjarmökkurinn kemur á móti mér“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -
„Að vakna upp um miðja nótt við það að heimili manns stendur í ljósum logum er skelfileg lífsreynsla. Eins og að vera fastur í hræðilegri martröð sem þú getur ekki vaknað upp af,“ skrifar Ellert Grétarsson, íbúi í Keflavík, sem vaknaði upp í fyrrinátt við það að íbúð hans stóð í ljósum logum.
Ellert, sem er þekktur ljósmyndari, skrifar sláandi færslu á Facebook um þessa lífsreynslu sína. Það var sem krafrtaverk hefði vakið hann.
„Það sem vakti mig var svefnherbergishurðin sem glamraði í hurðarfalsinu, líkt og hún gerði alltaf í jarðskjálftunum síðasta vetur því hún er örlítið laus í faginu. Þess vegna hélt ég í svefnrofanum að það hefði komið skjálfti. En glamrið varð að þungum höggum, ég hrökk upp og spratt fram úr rúminu. Þá fann ég brunalyktina. Ég opna hurðina og kolsvartur reykjarmökkurinn kemur á móti mér,“ skrifar Ellert.
Hann býr ásamt syni sínum. Fyrsta hugsunin var sú að að hann væri í lífsháska.

Hrópaði á son sinn

„Ég hrópa af öllum lífs og sálar kröftum á strákinn minn en fékk ekkert svar. Náði að komast inn í herbergið hans en hann var ekki í rúminu sínu. Þetta var það skelfilegasta af öllu – að vita ekki um hann,“ skrifar hann.
Ellert sá ekki handa sinna skil í kolsvörtu reykjarkófinu. Hann reyndi að halda niðrí í sér andanum og fetaði sig meðfram veggnum að útidyrahurðinni og náði að komast fram á stigagang.
„Ég hafði gripið með mér símann af náttborðinu til að geta hringt á hjálp. Stuttu síðar er slökkviliðið komið og Neyðarlínan slítur samtalinu. Ég hringi þá í strákinn minn og til allrar Guðs blessunar svaraði hann. Hann hafði ekki verið heima. Allir komust út úr húsinu heilir á húfi,“ skrifar Ellert.
Hann þakkar nágrönnum sínum fyrir þá hugulsemi að hlúa að sér þar sem hann stóð hálfnakinn fyrir utan heimili sitt.
Hrikaleg aðkoma í íbúðinni. Myndir: Ellert Grétarsson.
Íbúðin og innbúið eru gjörónýt, eins og sjá má af myndum. Eldsupptök munu hafa verið í fjöltengi í stofunni.
„Það dýrmætasta sem ég á var ekki það sem brann og eyðilagðist heldur fólkið mitt, fjölskylda og vinir sem hafa umvafið mig hlýju og kærleik og hjálpað mér að komast yfir versta áfallið. Þetta er ekki fyrsta áfallið sem ég tekst á við í lífinu og þá hefur fólkið mitt alltaf verið til staðar. Það er ómetanlegt að eiga góða að og það er alls ekki sjálfsagt. Ekkert er sjálfsagt í hverfugleika lífsins, hvort það sem eru ástvinir, heilsan eða bara lífið sjálft. Það er ekkert víst að það sem þú átt og hefur í dag verði á sínum stað á morgun. Það er engin trygging fyrir því. Verið þess vegna þakklát fyrir það sem þið hafið, hugsið minna um það sem þið teljið ykkur vanta. Ræktið þakklætið því þakklætið er nátengt hamingjunni,“ skrifar Ellert.
Hann segir í samtali við Mannlíf að nú sé hann að jafna sig eftir áfallið. Næsta vika fer svo í að huga að tryggingum vegna tjónsins og koma lífinu í fastar skorður.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -