„Nýja vínbúðin auglýsir eins og rófulaus hundur á Facebook. Þessar auglýsingar fara ekki fram hjá nokkrum sem þar er, né áfengisauglýsingar á netinu yfir höfuð. Eða í sjónvarpi þegar sent er frá erlendum viðburðum. En þó hún vildi þá má hún ekki auglýsa í íslenskum fjölmiðlum. Þá er fjölmiðlanefnd mætt með sektarmiða. Samt tala pólitíkusar um að nú sé hver og einn sinn eigin fjölmiðill (sic). Þetta stenst auðvitað ekki nokkra einustu skoðun,“ segir hinn skeleggi blaðamaður Jakob Bjarnar Grétarsson í færslu á samfélagsmiðli og heldur áfram:
„Eiginlega bara pínlegt. Af hverju eru íslenskir stjórnmálamenn svona miklar heybrækur? Er það af því að íslenskur almenningur er ginnkeyptur fyrir „skrumurum“ og „forræðishyggjudelikventum“ eða hvað er eiginlega málið?,“ spyr hann og fær svör:
Þórarinn Hjartarson segir að „þetta er eins og með allt annað í dag. Það þarf að banna hluti til þess að verja þá sem þurfa að lúta banninu. Ekki myndum við vilja að fólk hefði frelsi til þess að taka ákvarðanir um sitt eigið líf.“
Ritstjóri fotbolti.net, Hafliði Breiðfjörð leggur sitt til málanna og segir að hann hafi einmitt verið „að hugsa um þetta sama því á Facebook er allt vaðandi í áfengis- og veðmálaauglýsingum sem er stýrt inn á íslenskan markað. Ef sömu fyrirtæki fengju að kaupa af íslenskum miðlum þá gæti staða fjölmiðla breyst verulega. Facebook er að selja íslenskum fyrirtækjum auglýsingar stílaðar á íslenskan markað en á sama tíma eru strangar reglur um íslenska miðla.“
Hafliði segir að hann hafi „verið að forvitnast um þetta mál. Fjölmiðlanefnd segir þetta vera mál fyrir Neytendastofu. Neytendastofa segir það rangt, lögreglan sjái um þetta. Lögreglan segir eftir samtal við lögmann embættisins að þetta komi þeim ekkert við og vísar á Neytendastofu.
Þar með er ljóst að enginn sinnir eftirliti með auglýsingum á áfengi og veðmálum nema um sé að ræða skráða fjölmiðla. Þannig geta Facebook, Twitter, auglýsingaskilti og miðlar sem teljast ekki fjölmiðlar brotið þessi lög óáreitt enda bara eftir eftirlit með slíkum málum hjá skráðum fjölmiðlum hjá Fjölmiðlanefnd.“