Fimmtudagur 25. apríl, 2024
8.1 C
Reykjavik

Friðbjörn Haukur, ekkill Þórunnar Egilsdóttur: „Hún var frábær kona í alla staði“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Friðbjörn Haukur Guðmundsson, ekkill Þórunnar Egilsdóttur alþingismanns sem lést í júlí, tekur sæti hennar á lista Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi en Þórunn skipaði heiðurssæti listans.

„Stjórn kjördæmasambands Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi hafði fjallað um málið og samþykkt þessa breytingu að því gefnu að ég mundi vilja taka sætið. Formaður kjördæmasambandsins hringdi síðan í mig og spurði hvort ég vildi taka þetta sæti. Ég hugsaði þetta svo sem ekki mikið. Ég veit að Þórunn hefði ekkert verið á móti því úr því svona fór. Þetta er ekkert baráttusæti,“ segir Friðbjörn Haukur. Það að hann taki sæti Þórunnar segir hann aðspurður að það sé auðvitað fyrst og fremst talsverður heiður að hann skyldi vera beðinn að taka sæti hennar.

„Ef ég get gert eitthvað gagn mun ég best gera það með því að halda hennar merki á lofti og kannski minna þingmenn á þau mál sem hún hafði mikinn áhuga á yrðu að veruleika. Það er  svo sem ekkert annað og meira sem vakir fyrir mér þannig séð nema eins og ég hef alla tíð gert; stutt við þá sem eru í forystu fyrir flokkinn.“ Friðbjörn Haukur er bóndi á Hauksstöðum í Vopnafirði og segist hann aldrei hafa kosið annað en Framsóknarflokkinn.

Ef ég get gert eitthvað gagn mun ég best gera það með því að halda hennar merki á lofti .

Blaðamaður tók í janúar viðtal við Þórunni. Hún greindist með brjóstakrabbamein í ársbyrjun 2019 og virtist hafa unnið bug á meininu og kom það því öllum á óvart þegar hún í desember í fyrra greindist með 4. stigs krabbamein í lifur. Í viðtalinu sagði Þórunn:

„Ég held að sálin mín sé að verða svolítið sjóuð í að takast á við áföll. Ég hef aldrei brotnað alveg niður. Ég hef mínar leiðir til þess. Það er alltaf þannig að maður getur aldrei sagt neinum hvernig á að takast á við svona. Það verður hver að finna sína leið og ég fer mína leið eins og aðrir fara sína leið. Og það að ég hafi ekki brotnað niður segir ekkert um það að aðrir geri það ekki eða það sé ekki best fyrir þá.

Mér hefur einhvern veginn tekist að skrúfa hausinn rétt á mig; ég tala alltaf um að skrúfa hausinn rétt. Maður verður alltaf að horfa fram og alltaf upp. Og maður má aldrei missa vonina. Aldrei. Maður á alltaf að vera vongóður og bjartsýnn. Svo er mottó sem ég tileinkaði mér fyrir löngu síðan í lífinu og það er að glata ekki gleðinni. Af því að í hverri stöðu eru alltaf tækifæri. Það er eitthvað gott við allt; það er sama í hverju fólk lendir. Það er alltaf einhver lærdómur og alltaf eitthvað gott í öllu. Það er alltaf hægt að vera þakklátur fyrir eitthvað og ef maður nær að vera í þakklætinu og auðmýktinni þá held ég að maður komist svolítið langt.“

- Auglýsing -

 

Friðbjörn Haukur Guðmundsson

Friðbjörn Haukur segist takast á við sorgina í anda Þórunnar. „Ég reyni bara að lifa lífinu  í hennar anda. Eða eins og hún sagði svo oft „glata ekki gleðinni og vera  jákvæð“. Og þegar næg verkefni eru til staðar gengur þetta upp.

- Auglýsing -

Þórunn var framkvæmdamanneskja og hikaði ekki við að fara í framkvæmdir ef henni fannst þörf á. Í vetur fannst henni tími til kominn að breyta íbúðarhúsinu, skipta um eldhúsinnréttingu, hurðir og fleira. Þessu var því miður ekki öllu lokið þegar hún kvaddi okkur. En nú er verkefnið á lokastigi. Allt gert eins og hún hafði lagt upp með. En verst er að hún fékk ekki að njóta þessara breytinga sem heitið gat. Þessar breytingar þó verða góð minning um hvernig hún hugsaði og vildi hafa hlutina í lagi.“

 

Ég reyni bara að lifa lífinu  í hennar anda

Hvert sækir hann styrk í sorginni?

„Auðvitað trúir maður á það góða. Amma mín kenndi mér bænir þegar ég var barn. Þær hafa óspart verið notaðar síðustu mánuði og veita manni hugarró. Svo er mikill styrkur að eiga frábæra fjölskyldu sem hefur staðið eins og klettur með okkur í gegnum súrt og sætt. Og ekki má gleyma öllum vinum og vandamönnum sem hugsa  til manns.“ 

Þórunn var 56 ára þegar hún lést og var fjölskyldan bjartsýn þegar hún virtist hafa sigrast á brjóstakrabbameininu en svo kom seinni skellurinn í desember í fyrra. Friðbjörn Haukur hefur margt lært á þessum tíma.

„Maður lærir alltaf eitthvað á því að ganga í gegnum svona en við áttum ekki von á því að hún myndi greinast aftur. Það var ekkert sem benti til þess þegar hún fór í eftirlit í október 2020. Þetta greindist ekki fyrr en á síðustu stundu þarna í desember, á fjórða stigi. Maður lærir að það er ekkert öruggt í þessum heimi. Barátta við krabbameinið var í raun búin að standa frá byrjun árs 2019.“

Maður lærir að það er ekkert öruggt í þessum heimi.

Hann er beðinn um að lýsa Þórunni heitinni.

„Hún var frábær kona í alla staði. Það var svo margt sem heillaði mig við hana þegar ég kynntist henni. Alltaf  stutt í gleðina og húmorinn. Við vorum saman í 36 ár en gift í 34 ár.“

Í viðtalinu í janúar sagði Þórunn að augu Friðbjörns Hauks hafi heillað sig þegar hún kynntist honum.

Í því viðtali segir:

„Hún útskrifaðist frá Verslunarskóla Íslands árið 1984 og ákvað eftir útskrift að kenna í einn vetur á Vopnafirði. Þá kom kennaraverkfall og fór hún að vinna í sláturhúsinu í bænum. „Ég leit upp einn daginn þegar ég var þar í vinnu og sá Hauk,“ segir hún og á þá við eiginmann sinn, Friðbjörn Hauk Guðmundsson. „Ég hugsaði með mér að þarna væri maðurinn minn. Svo hristi ég hausinn og hugsaði með mér að þetta væri vitleysa; ég væri rétt tvítug og þetta væri kall uppi í sveit.“ Haukur er 18 árum eldri en hún. „En það varð þannig. Hann varð maðurinn minn. Ég sá það bara strax. Augun í honum heilluðu mig og hann er svo fallegur að innan og utan. Hann er góð manneskja. Ég fór svo um veturinn að spyrja hvar hægt væri að komast að sem kaupakona sumarið eftir og þá var mér bent á hann. Ég fór til hans í Hauksstaði og þá fórum við að vera saman.“ Þetta var sumarið 1985. Þau trúlofuðu sig ári síðar og giftu sig árið 1987.“

 

Friðbjörn Haukur Guðmundsson

Hjónin bjuggu allan sinn búskap á Hauksstöðum en Friðbjörn Haukur tók við búinu í kringum 1970 en þar ólst hann upp. Hann segir að það hafi aldrei neitt annað komið til greina en að verða bóndi. Bróðir hans, Baldur, var með sauðfjárbú á sömu jörð en hann lést árið 2017.

„Þessi sauðfjárbúskapur hefur gengið allavegana í gegnum tíðina. Hann hefur verið erfiður síðustu ár eftir að afurðaverð lækkaði verulega og lítið fékkst fyrir afurðirnar. Bændur hafa verið launalausir í mörg ár. En af því að maður er orðinn það fullorðinn og á engar skuldir þá gengur þetta en ég vildi ekki vera ungur bóndi í dag.“

Ætlar hann að bregða búi?

„Já, þetta er náttúrlega enginn búskapur þannig séð. Ég geri þetta meira að gamni mínu. Maður átti að vera hættur þessu fyrir löngu síðan. Það hefur ekkert verið upp úr þessu að hafa.“

Hann segir að framtíðin sé óráðin.

„Það kemur ekkert í ljós fyrr en í haust hvað maður gerir. Maður heldur áfram að lifa hérna. Það eru nokkrar kindur ennþá til en hvort þær verði látnar lifa eða ekki kemur í ljós.“

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -