Gunnar Smári Egilsson segir að það „skrítnasta á Internetinu í dag er að sjá og heyra formann Sjálfstæðisflokksins – sem setið hefur í ríkisstjórn í 26 af síðustu 30 árum – þykjast vera krossbit yfir að heilbrigðiskerfið sé komið að fótum fram.“
Hann segir að „það er eins og maðurinn sé að vakna úr dái; hafi misst af sveltistefnu nýfrjálshyggjunnar síðustu áratugina,“ og bætir við:
„En auðvitað er Bjarni bara að látast. Þetta er hinn svarti prins nýfrjálshyggjunnar að fagna erfiðleikunum, hann sér í þeim tækifæri til að innleiða enn frekar aðferðir nýfrjálshyggjunnar innan heilbrigðiskerfisins; markaðsvæða það, hlutafélagavæða og loks einkavæða.“
Gunnar Smári segir að „stærstu skref nýfrjálshyggjunnar hafa alls staðar verið stigin í krísum og frammi fyrir kreppum og óáran; góður þjónn auðvaldsins lætur slíkt happ ekki úr hendi sleppa.“
Og bætir við:
„Bjarni er ósvífinn; ástandið er nú læknum, hjúkrunarfræðingum, sjúkraliðum og þeim sem sinna hinum veiku að kenna. Hann og frekjurnar í Sjálfstæðisflokknum eru alveg stikkfrí.“
Gunnar Smári endar færslu sína á þessum orðum:
„Sjálfstæðisflokkurinn stefnir á hægri stjórn í haust, þar sem þeir fá að láta greipar sópa um heilbrigðiskerfið. Fyrir forystu flokksins er Cóvid eins og jólin.“