Landsliðsmiðvörðurinn Glódís Perla Viggósdóttir, sem er leikmaður þýska stórliðsins Bayern Munchen, er í áhugaverðu viðtali sem birtist á heimasíðu félagsins, en það er DV sem sagði fyrst frá.
Glódis ræðir meðal annars um rætur sínar á Íslandi; gott hugarfar Íslendinga og þá skemmtilegu staðreynd að þrár íslenskar knattspyrnukonur eru nú á samningi hjá Bayern Munchen.
Segir Glódís það afskaplega gott að geta talað íslenskuna hjá félagsliði sínu, en hún var á mála hjá sænska stórliðinu Rosengard í heil sex ár áður en hún gekk til liðs við Bayern Munchen:
„Ég talaði bara sænsku á tíma mínum hjá Rosengard og í hvert skipti sem ég kom heim til Íslands leiðréttu amma mín og afi mig ef ég notaði vitlausa málfræði. Ég notaði jafnvel orð sem voru ekki til í íslensku máli. Það er gott að geta talað íslensku daglega núna.“
Kemur fram að í viðtalinu var Glódís Perla spurð hvort hún viti hvaða Íslendingur hafi oftast ratað í fyrirsagnirnar hjá þýskum fjölmiðlum undanfarin ár.
Glódís var ekki lengi til svars: „Rúrik.“
Eins og flestir vita á hún auðvitað við um fyrrum knattspyrnumanninn og núverandi fyrirsætuna Rúrik Gíslason, sem vann stóran sigur í Dansað með stjörnunum í Þýskalandi.
Glódís segir síðan í viðtalinu eitthvað sem kom þýska spyrjandanum á óvart:
„Mamma mín var kennarinn hans.“
Undrandi spyrillinn spyr þá hvort það sé satt að á Íslandi þekkist nánast allir:
„Já sér í lagi þegar kemur að fótbolta. Heimurinn er lítill á Íslandi. Rúrik var á mála hjá sama félagi og ég, ég sá hann mjög oft en við töluðum aldrei saman.“
Viðtalið við Glódísi má lesa hér.