Fimmtudagur 12. september, 2024
4.8 C
Reykjavik

Godo styttir vinnuvikuna um klukkutíma á föstudögum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Godo hefur stigið skrefið og stytt vinnuviku starfsmanna sinna um tæpan klukkutíma á föstudögum. „Við styttum frekar föstudaga rækilega í stað þess að stytta hvern dag um 9 mínútur. Við teljum það mun meiri ávinning fyrir stafsmenn, en styttingin gildir um allt okkar starfsfólk. Það gilda auðvitað sömu reglur fyrir alla óháð stéttarfélagi, annað kemur ekki til greina,“ segir Katrín Magnúsdóttir, rekstrarstjóri Godo.

„Við höfum alltaf verið liðleg hvað varðar tímasetningar og hvaðan unnið er, innan ákveðinna marka auðvitað. Það er hreint út sagt ótrúlegt hvað stimpilklukkumenningin er enn rík hér á landi sem er áhugavert þegar rannsóknir og tilraunir sýna einmitt að sveigjanleiki og styttri vinnutími eykur framleiðni. Það mun væntanlega og vonandi breytast hjá fyrirtækjum í framtíðinni. Sveigjanleiki hefur þann kost að hann fer ósjálfrátt að virka í báðar áttir. Starfsfólk okkar er alltaf tilbúið til að spýta rækilega í lófana þegar á því er þörf. Verkin eru látin tala og fyrir það erum við afskaplega þakklát,“ segir Katrín.

Fyrirtæki hvött til að útrýma stimpilklukkunni

„Leiðtogar og stjórnarmenn þurfa að vera miklu liðlegri við starfsfólki sitt, leggja meiri áherslu á góðan starfsanda og skapa vinnumenningu sem laðar að. Starfsfólk er helsti auður fyrirtæksins og því ætti fyrst og fremst að hlúa að þeim, allt annað fylgir á eftir. Að skapa starfsumhverfi sem bæði heldur í starfsfólk og laðar að nýtt er mikils virði. Innra umhverfi er eitthvað sem íslensk fyrirtæki ættu að leggja meiri áherslu á en almennt erum við langt á eftir í þeim efnum eða með áherslurnar á röngum stöðum.  Lenskan sú að því meira sem þú vinnur og því meira sem þú keyrir þig út, því betur ertu að standa þig. Það eina sem kemur út úr slíkri keyrslu er vanlíðan og kulnun. Við höfum öll heyrt þá umræðu í þjóðfélaginu og getum ekki lokað augunum fyrir þessu vandamáli. Við hvetjum því íslensk fyrirtæki að ganga lengra hvað varðar styttingu vinnuvikunnar, útrýma stimpilklukkunni og hlúa betur að starfsfólki því þetta er einungis stutt skref í rétta átt. Einnig hvetjum við fyrirtæki til að mæla árangurinn á slíkum breytingum. Niðurstöðurnar koma örugglega skemmtilega á óvart. Godo er ekki gamalt fyrirtæki en frá upphafi hefur mikil áhersla verið lögð á ánægju starfsfólks og hátt þjónustustig. Ég er ekki í nokkrum vafa að þetta hefur skilað sér í hröðum vexti fyrirtækisins, mjög lítilli starfsmannaveltu og fjölda ánægðra viðskiptavina. Við höfum aldrei mælt tíma starfsmanna og því var undirbúningur að styttingu vinnuvikunnar  afskaplega lítill. Stærsti undirbúningurinn fólst í því að finna aðila í samstarf með okkur sem var tilbúin til að veita gleðistund frá klukkan 16 en ekki 17. RVK Brewery svaraði kallinu um leið!,“ segir Katrín.

Stuð og samverustund eftir vinnu

„Godo er góður granni og milli fyrirtækjanna hefur skapast skemmtilegur vinskapur. Við munum að sjálfsögðu fylgja þessu fordæmi og bjóða upp á gleðistund á slaginu 16.00 og hvetjum önnur fyrirtæki í nágrenninu að gera slíkt hið sama. Það má nefnilega ekki gleyma því að samverustundir með vinnufélögum utan vinnustaðar eru virkilega dýrmætar,“ segir Sigurður Pétur Snorrason hjá RVK Brewery.

Godo er íslenskt fyrirtæki stofnað árið 2012 sem sérhæfir sig í hugbúnaðar- og sjálfvirknilausnum fyrir fyrirtæki af öllum toga. Alls eru 42 starfsmenn hjá Godo í 8 löndum en viðskiptavinir Godo eru nú um 1.100 talsins í 15 löndum.

- Auglýsing -

Helstu vörur fyrirtækisins er hótelkerfið Property sem þjónustar og eykur sjálfvirkni fyrir meirihluta gististaða og hótela á Íslandi, markaðstorgið Travia sem tengir saman ferðaskrifstofur og gististaði,  snjallsímaforritið Pronto sem sparar tíma við þrif og viðhald og verðstýringahugbúnaðurinn Primo sem hámarkar verð gististaða. Auk þess býður fyrirtækið upp á víðtæka rekstrarþjónustu og ráðgjöf fyrir hótel og gististaði.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -