Nú er nýtt ár gengið í garð og að venju þá setur fólk sér ýmiss konar markmið og oftar en ekki tengjast þau að létta sig á einn eða annan máta. Ein aðferð sem verður vinsælli með hverju árinu er að fasta. Í stuttu máli snýst hún um að borða eki mat en þó er nauðsynlegt að drekka vatn. Flestar föstur standa yfir í einn til þrjá sólarhringa en þær geta þó verið mun lengri. Gunnar Þorsteinsson, oftast kallaður Gunnar í Krossinum, er einn mesti fastari landsins en hann fastar við upphaf hvers árs í þrjár vikur. Rétt er þó að taka fram að fasta getur verið skaðleg fyrir líkama, og mögulega sál, að mati margra vísindamanna. Mannlíf heyrði í Gunnari varðandi hans föstu.
„Fasta er nú ekki flókin, það er bara að hætta að borða,“ sagði Gunnar hlæjandi. „Fasta er náttúrulega að hætta borða fasta fæðu og það má náttúrulega ekki hætt að drekka vatn og vökva en síðan bíður maður eftir góðum áhrifum. Þetta er erfitt fyrstu daganna,“ en að eigin sögn er Gunnar reynslubolti þegar kemur að föstu.
„Ég er að gera þetta núna í 45. skipti þannig að ég orðinn reyndur í þessu en þetta er fyrst og síðast til að finna nýja núllpunkt fyrir lífið. Þetta er til að heyra betur hina andlegu rödd tala til mín og leggja línurnar fyrir árið. Biblían talar um föstu og reyndar hvetur til föstu og í öllum trúarbrögðum er að talað um föstu. Í dýraríkinu er fastað,“ en Gunnar tekur litlar föstur aðra mánuði ársins sem geta verið allt frá þremur dögum upp í tíu daga.
„Ég syndi mikið, ég held áfram að synda þó ég sé að fasta. Það er mín helsta líkamsrækt. Ég er latur og þetta er eina líkamsræktin sem þú getur stundað liggjandi. Þetta bætir mann andlega og líkamlega,“ sagði svo Gunnar að lokum þegar hann var spurður hvort hann stundaði líkamsrækt meðan hann fastaði.