Laugardagur 15. júní, 2024
10.8 C
Reykjavik

Gunnar Wium fékk andlega vakningu eftir áralanga neyslu: „Ég var 50 kíló í fötum!“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Gunnar Wium smíðakennari og hlaðvarpsstjórnandi segist hafa fengið andlega vakningu þegar hann átti síst von á því, eftir áralanga neyslu.

Gunnar, sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar lýsir í þættinum atviki sem varð til þess að allt breyttist í lífi hans þegar hann var gjörsamlega búinn á líkama og sál:

Sölvi er alltaf flottur og frábær spyrjandi.

,,Það sem gerist fyrir mig þremur vikum eftir að ég stöðvaði neysluna mína árið 2016 er eitthvað sem ég get eiginlega ekki útskýrt almennilega. Ég sit í miklum fráhvörfum af öllum þessum efnum og var í raun algjört flak bæði líkamlega og hugarfarslega. Stoðkerfið var í hakki og ég var með sprungin sár um líkamann og fleira. Mér var sagt að ég yrði að fara að stunda kyrjun og hugleiðslu. Ég byrjaði á því og fyrir mér var mantran fyrst og fremst andardrátturinn.

Ég var búinn að stunda þetta í nokkrar vikur þegar ég sit þarna í mikilli þjáningu og byrja að dofna í útlimunum. Svo fer ég að upplifa alla skynjun öðruvísi og allt verður þungt í líkamanum og það er eins og allt sé lamað. Svo fór ég að upplifa fjarlægðina mína við fólkið í rýminu sem óendanlega, en að sama skapi var ég algjörlega eitt með þeim öllum. Svo koma yfir mig öldur af ljósri orku sem skella á mér og eru í takt við andann, sem endar með því að ég er sprengdur upp og dreginn upp á silkiþræði og ég hvarf í alsæluástand. Svo klárast viðburðurinn og ég kem rólega til baka úr þessu og næ hægt og rólega mætti í líkamann aftur.

En þarna varð einhver óútskýranleg heilun og ég gekk út sem algjörlega nýr maður og leið eins og ég væri heill. Út frá þessu byrjaði ég að fyrirgefa sjálfum mér og lífið var bara gjörbreytt.”

Gunnar fór alla leið á botninn í neyslu áður en hann náði að snúa lífi sínu við. Í dag er hann edrú og hefur snúið lífi sínu gjörsamlega við:

- Auglýsing -

,,Ég notaði áfengi til að deyfa mig í mörg ár og það endaði með því að ég þurfti alltaf að borga með miklum vöxtum eftir hvert einasta fylleri. Á endanum kallar það á að þú farir í ný efni og það endaði með því að kókaín kom inn í líf mitt. Kókaínið hirti mig svo gjörsamlega, þó að í raun sé það mjög vont efni í alla staði og áhrifin ekki einu sinni góð. Þetta var yfirleitt mest spennandi þegar ég var að bíða eftir dílernum og kannski fyrstu mínúturnar eftir að ég tók inn efnið.

En þetta efni endaði á að rúa mig gjörsamlega inn að beini. Ég man þegar ég var að byrja fyrstu alvöru edrúmennskuna mína árið 2005, þá vigtaði ég mig og ég var 50 kíló í fötum! Það er lýsandi fyrir það hversu sterkt þetta efni kókaínið er og hvert það getur tekið þig. Tótal egógeðveiki þar sem þú missir sjónar á öllu og hættir að borða og sofa svo mánuðum skiptir.” Segir Gunnar og heldur áfram:

,,Ég misnotaði líka THC í mörg ár, sem jók svo enn á þunglyndið, sem keyrði mig inn í mína fyrstu greiningu sem Bipolar. Það endaði svo með því að ég fór á SSRI lyf í nokkur ár, sem ég upplifði sem einskis nýtt rusl og gerði ekkert gott fyrir mig. Það var ekki fyrr en 2016 að ég hætti alfarið og náði að snúa öllu við.”

- Auglýsing -

Gunnar segir að fíknir fólks í dag séu ekki einskorðaðar við áfengi eða eiturlyf. Stór hluti fólks sé í fíknimynstrum þegar kemur að mat, samfélagsmiðlum, símanotkun og alls kyns samanburði:

,,Ég er að díla við það að þurfa stanslaust að taka samtal við stelpuna mína út af ranghugmyndunum sem hún fær í gegnum TikTok. Maður þarf að vera gríðarlega vakandi á þessum tímum og ég sé bara hvaða áhrif þetta hefur á dóttur mína ef það er ekki stöðugt verið að leiðrétta. Svo erum við fullorðna fólkið líka komin með alls konar ranghugmyndir um það hvernig hlutirnir eiga að vera. Báðir aðilar eiga að vera í fullri vinnu, þó að það séu fjögur börn, heimilið á að vera frábært, svo er farið til Tene og allir með allt það nýjasta og svo eru það tantra-festivöl og seremóníur með hugvíkkandi efni um helgar og svo framvegis. Á meðan eru börnin okkar bara í pössun að sörfa um internetið.

Ég veit að ég er kannski smá dómharður þegar ég segi þetta, en við verðum að vakna og hlúa að börnunum okkar.”

Viðtalið við Gunnar og öll viðtöl og podcöst Sölva Tryggvasonar má nálgast inni á solvitryggva.is

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -