Íslenska fótboltalandsliðið kemur saman til æfinga á næstu dögum; liðið á leiki í undankeppni EM, en mikil umræða hefur verið í kringum landsliðið undanfarið; sér í lagi vegna þess að Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari ákvað að velja ekki Albert Guðmundsson leikmann Genoa.
Hallgrímur Helgason rithöfundur og myndlistarmaður, er ekki sáttur með Arnar Þór, en þó ekki vegna Alberts.
„Bráðum þrjú ár síðan hann tók við og Arnar Þór er enn ekki búinn að finna sitt lið, enn að hringla með menn og hringja í menn (sem hann velur svo ekki). Lars tók sér hálft ár í að finna liðið, alveg nýtt lið (fáir þekktu þá suma leikmennina), og hélt því svo nánast óbreyttu næstu árin.

Ekki nóg með það, heldur velur Arnar Þór nú enn og aftur kynferðisbrotamenn í landslið Íslands eins og ekkert hafi gerst síðustu árin, eins og Vanda Sigurgeirsdóttir sé ekki orðin formaður KSÍ, eins og MeToo hafi aldrei gerst, eins og hugrakkar konur hafi aldrei stigið fram.“

Bætir við:
„Þetta sýnir fullkominn karlahroka, algera samfélagsblindu, sem og alvarlegt skilningsleysi á hlutverki og ábyrgð landsliðsþjálfara. Hvernig á þjóðin að geta haldið með landsliðinu sínu með þessa skugga innanborðs? Og því ættu ungir og efnilegir fótboltamenn sem eru að spila sína fyrstu landsleiki að þurfa að líða fyrir þetta ástand? Afhverju mega þeir ekki fá nýtt upphaf með þjóðina að baki sér? Yfirleitt myndi maður enda sinn status um fótboltalandsliðið með “Áfram Ísland!” En því miður er það ekki hægt núna.“
.