Mánudagur 24. júní, 2024
10.1 C
Reykjavik

Heilsugæslan stefnir að því að taka strax upp tvöfalda skimun

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég hef skilið þetta þannig að verkefnið sé þríþætt; eitt er að halda utan um gögnin, annað að sjá um að boða þá sem eiga að mæta og þriðja framkvæmdin,“ segir Óskar Sesar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, um leghálskrabbameinsskimunina sem flyst yfir til heilsugæslunnar.

Hann segir framkvæmdina verða þá sömu að því leyti að það verða áfram ljósmæður sem sjá um að taka strok en hins vegar sé í kortunum að taka strax upp tvíþætta skimun; þ.e. hefðbundna smásjársskoðun þar sem leitað er að frumubreytingum og mótefnamælingu fyrir HPV-veirunni.

Langflest leghálskrabbamein má rekja til HPV-veirunnar, sem um 80% einstaklinga fá einhvern tímann á lífsleiðinni og smitast við kynmök. Að sögn Óskars er næmi þeirrar skimunar sem nú er stunduð um 60% en mótefnamæling fyrir HPV er talin þó nokkuð nákvæmari, um 85%, og menn telja að komast megi ansi nærri 100% með því að framkvæma báðar rannsóknir. Um tilraunaverkefni verður að ræða en Óskar segist efins um að tilhögunin sé til framtíðar; víða sé stefnt að því að HPV-mælingarnar komi í stað hefðbundinnar skimunar. Tækni og þekkingu hafi fleygt fram og þá muni bólusetningar gegn HPV eiga stóran þátt í því að tilfellum sjúkdómsins fækki. „Þetta er sjúkdómur sem okkur á að takast að útrýma,“ segir Óskar.

Óskar Sesar Reykdalsson forstöðumaður heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu

„Þetta er sjúkdómur sem okkur á að takast að útrýma.“

Hann segir margt óljóst hvað varðar skipulag, t.d. hvort Skimunarmiðstöð verði fundinn staður innan heilsugæslunnar, eins og lagt hefur verið til. Þá hefur ekki verið ákveðið hvort skimunin verður í boði á öllum 19 starfsstöðvum heilsugæslunnar eða hvort hún verður á færri höndum. „Það eru kostir og gallar við báða möguleika. Það er kostur að hafa allt á einum stað og hraða vinnslu. En við höfum einnig verið að hvetja fólk til að mæta á eigin heilsugæslustöð. Svo snýr þetta líka að gæðum; hvað þarftu að taka mörg sýni til að vera í góðri þjálfun til að taka góð sýni? Það er eitt af því sem gæti haft áhrif á það hvernig þetta verður,“ segir Óskar. Hann segir mögulegt að boðið verði upp á þjónustuna ákveðna daga í viku en þetta sé eitthvað sem verði útfært í samráði við starfsfólk.

Hvað segja tölurnar?

Um þriðjungur Íslendinga fær krabbamein á lífsleiðinni en helmingur allra meina greinist eftir 65 ára aldur. Yfir fjórðungur dánarmeina eru af völdum krabbameina.

- Auglýsing -

Á árunum 2014 til 2018 greindust árlega að meðaltali 220 konur með brjóstakrabbamein.

Á sama tíma greindust að meðaltali 184 einstaklingar með krabbamein í ristli og/eða endaþarmi á hverju ári.

Meðalaldur kvenna við greiningu brjóstakrabbameins var 63 ár.

- Auglýsing -

Konum á aldrinum 40 til 69 ára er boðin þátttaka í hópleit að brjóstakrabbameini á tveggja ára fresti en hópleit að leghálskrabbameini stendur til boða konum á aldrinum 23 til 65 ára á þriggja ára fresti.

Dregið hefur úr þátttöku kvenna í skimun fyrir brjóstakrabbameini síðustu ár. Hún var 79% árið 2013 en um 60% árin 2015 til 2018.

Þátttaka í skimun fyrir leghálskrabbameini er um 67%.

Með átaki tókst hins vegar að fjölga þeim sem tóku þátt í skimun árið 2019. Í september það ár höfðu 29% fleiri farið í skimun fyrir brjóstakrabbameini en á sama tímabili 2018 og 19% fleiri farið í skimun fyrir leghálskrabbameini.

Krabbameinsfélagið ákvað m.a. að bjóða tveimur árgöngum upp á ókeypis skimun árið 2019, sem skilaði sér í því að komum 23 ára í leghálsskimun fjölgaði um 92% frá fyrra ári og komum 40 ára í brjóstaskimun fjölgaði um 90%.

Þrátt fyrir margra ára umræðu og undirbúning af hálfu stjórnvalda hefur skimun fyrir krabbameinum í ristli og endaþarmi enn ekki hafist. Talið er að skimunin geti bjargað fjölda mannslífa en meinin valda dauða eins Íslendings í viku hverri.

Konur bíða jafnan í um mánuð eftir framhaldsskoðun í kjölfar óeðlilegra niðurstaða úr brjóstakrabbameinsskoðun. Alþjóðleg viðmið kveða á um fimm daga bið að hámarki.

Löggjöf um skimanir?

Í áliti skimunarráðs segir m.a. mikilvægt að setja löggjöf um skimanir. „Það gefur verkefninu skýrari farveg ásamt því að veita verkefninu nauðsynlegan stöðugleika. Jafnframt tryggir það betur öryggi þátttakenda, gæðaeftirlit og fjármögnun.“

Þess ber að geta að enginn viðmælenda Mannlífs hafði heyrt af því að löggjöf væri í undirbúningi.

„Við ítrekum einnig mikilvægi þess að starfseminni fylgi fjármagn, þekking og mannauður, sérstaklega er mikilvægt að huga að þessu ef skimanir fara til stofnana sem þegar hafa önnur skilgreind verkefni.“

Þá segir einnig:

„Við höfum í vinnu okkar sérstaklega íhugað aðkomu þriggja aðila að skimunum en þeir eru: Krabbameinsskrá, Krabbameinsfélag Íslands og Heilsugæslan. Við teljum mikilvægt að halda í þá þekkingu og reynslu sem hjá þessum aðilum býr. Við teljum rétt að allir hafi þær aðkomu að skimun í íslenskri heilbrigðisþjónustu. Mikilvægt er þó að skerpa betur hlutverk þeirra og ábyrgðarsvið ásamt því að setja skýrari línur varðandi samstarf og upplýsingamiðlun.“

„[…] þá ítrekum við mikilvægi þess að í útfærslu verkefnisins verði ávallt gætt nauðsynlegs samráðs við þá aðila sem að máli koma. Tekist sé á við verkefnið í langtímaskipulagi og það unnið í þrepum. Við ítrekum einnig mikilvægi þess að starfseminni fylgi fjármagn, þekking og mannauður, sérstaklega er mikilvægt að huga að þessu ef skimanir fara til stofnana sem þegar hafa önnur skilgreind verkefni.“

Lestu umfjöllunina í heild í nýjasta Mannlífi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -