Föstudagur 26. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

Að eltast við eltihrelli – I Am A Stalker á Netflix

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Upp á síðkastið hafa þættirnir I Am A Stalker á Netflix átt hug minn allan en það eru heimildarþættir sem fjalla um svokallaða eltihrella. Má jafnvel segja að ég sé kominn með þá á heilann. Svona til að vera í stíl við innihald þeirra.

Hver þáttur fjallar um einn eltihrelli og mál hans. Tekið er viðtal við eltihrellinn sjálfan sem og fórnarlömb hans og aðra sem tengjast málinu á einhvern hátt. Þá er einnig farið vel yfir hvert mál og stundum eru alvöru myndbandsupptökur frá málinu sýndar. Sem sagt, þetta eru afar vandaðir þættir, mikið í þá lagt greinilega og mikil rannsóknarvinna á bakvið hvern þátt.

Það sem mér finnst hins vegar áhugaverðasta við þættina er innsýnin sem maður fær inn í huga eltihrellanna. Ekki misskilja mig, þeir eru gríðarlega óhugnanlegir og stórhættulegir en mikið helvíti er heillandi að skyggnast inn í huga þeirra. Svona utan frá að minnsta kosti.

Í einum þættinum var fjallað um mál manns sem hafði átt ægilega bágt en hann hafði fyrir algjöra slysni keyrt yfir son sinn og lést sonurinn. Fullur af sektarkennd fór hann að misnota eiturlyf og áður en varði var hann farinn að beita konu sína ofbeldi. Hún flúði með tveggja ára son þeirra í annað ríki í Bandaríkjunum og við tók hrottalegur eltihrellatímabil sem endaði á tja, ég ætla ekki að skemma neitt fyrir væntanlegan áhorfanda. Þarna var ég búinn að fatta, að ég hélt, að maðurinn hefði orðið svona illa bilaður við að verða valdur að dauða sonar síns og sárvorkenndi honum. En svo kom annað í ljós, hann hafði eltihrellt aðrar kærustur áður þannig að hann var búinn að vera bilaður ansi lengi.

Í Bandaríkjunum berast yfir þrjár milljónir tilkynninga á ári hverju um eltihrella. Ekki veit ég töluna hér á landi en einhvern veginn efast ég um að ástandið hér sé eitthvað mikið betra, svona miðað við höfðatölu auðvitað. Eltihrellamál hafa reglulega ratað í fjölmiðla í gegnum tíðina en nú er algengara að finna frásagnir af slíku á samfélagsmiðlunum og það sem maður hefur séð er alls ekkert svo ólíkt því sem sést í þessum þáttum. Þetta er saga af þráhyggju, eignarhaldsfíkn og algjöra veruleikafirringu, svo eitthvað sé nefnt. Og það er afar athyglisvert að horfa á. Svona utan frá að minnsta kosti.

Fjölmiðlapistill þessi birtist í nýjasta tölublaði Mannlífs sem fæst ókeypis í Bónus og Hagkaupum á Höfuðborgarsvæðinu og nágrenni. Þá er einnig hægt að lesa blaðið í rafrænni útgáfu hér.

- Auglýsing -

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -