Laugardagur 15. júní, 2024
10.8 C
Reykjavik

Eitruð lítil pilla – Vísitölufjölskylda í vanda

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í lok febrúar fór ég á frumsýningu Borgarleikhússins á rokksöngleiknum Eitruð lítil pilla í leikstjórn Álfrúnar Helgu Örnólfsdóttur, en lögin í sýningunni eru öll eftir kanadísku söngkonuna Alanis Morissette sem skaust upp á stjörnuhimininn með látum á tíunda áratug síðustu aldar. Söngleikurinn er saminn af þeim Alanis Morissette og Diablo Cody og var fyrst frumsýndur á Broadway árið 2019 og sló rækilega í gegn.

Ég var mjög spenntur fyrir sýningunni, en Alanis á sérstakan stað í hjarta mér og ég hlustaði oftar á Jagget Little Pill-plötu hennar en eðilegt gæti talist. Ég á líka gríðarlega margar minningar sem tengjast lögum hennar. Ég missti til dæmis sveindóminn á meðan Jagget Little Pill var á fóninum. Þá lét vinkona mín frá Akureyri og síðar kærasta mín, mig vita að hún væri hrifin af mér með því að senda mér jólakort með texta úr laginu Head Over Feet, en þar segir meðal annars:

„You’ve already won me over
In spite of me
And don’t be alarmed if I fall
Head over feet
And don’t be surprised if I love you
For all that you are
I couldn’t help it
It’s all your fault“

Ekki vantar rómantíkina!

En sem sagt, þarna var ég kominn til að sjá söngleik byggðan á lögum Alanis Morissette. Söguþráðurinn er eins „woke“ og hægt er og gæti það pirrað einhverja en ekki hann mig. Fjallar söngleikurinn um vísitölufjölskyldu þar sem í fyrstu virðist allt í sóma. Kemur svo á daginn að svo er aldeilis ekki, pabbinn, sem leikinn er af Vali Frey Einarssyni, er háður klámi, mamman, sem leikin er af Jóhönnu Vigdísi Arnardóttur, er háð Oxycontin-töflum, dóttirin, sem leikin er af Aldísi Amah Hamilton, á í vandræðum í ástalífinu og sonurinn, sem leikinn er af Sigurði Ingvarssyni, varð vitni að nauðgun en gerði ekkert til að stöðva hana. Sem sagt, allt í hakki.

Í byrjun átti ég nokkuð erfitt með að hrista af mér kjánahrollinn þegar ég heyrði fyrstu lögin sungin á íslensku. Í raun skemmdi það í fyrstu fortíðarþrá fyrir mér, en svo komst ég yfir það. Eftir tvö til þrjú lög var ég búinn að sætta mig við að þau væru á íslensku og gat notið mín að fullu. Söngurinn var einfaldlega frábær, en sú sem stjarnan sem skein hvað bjartast var Jóhanna Vigdís Arnardóttir í hlutverki fyrirmyndarmóðurinnar Mary Jane, en hún sneri aftur á svið eftir talsvert hlé. Atriðið með henni rétt fyrir hlé framkallaði meira að segja tár á hvarmi. Elín Hall var einnig stórgóð í hlutverki sínu sem Bella, en sönghæfileikar hennar fengu aldeilis að njóta sín í sýningunni. Þá var Íris Tanja Flygenring frábær í hlutverki Jo og kröftug söngrödd hennar bókstaflega fyllti salinn þegar hún hóf upp raustina. Aðrir leikarar skiluðu sínu af myndarbrag, eins og Aldís Amah Hamilton í hlutverki Frankie, tvíkynhneigðrar dóttur þeirra Mary Jane og Steve, sem komst vel frá hlutverki sínu og Sigurður Ingvarsson í hlutverki Nicks, bróður Frankie, og greinilegt að hann hefur lært margt af föður sínum, Ingvari E. Sigurðssyni. Danskóreógrafían í söngleiknum var mjög flott, en Saga Sigurðardóttir á heiðurinn af henni. Þýðingin var í höndum þeirra Matthíasar Tryggva Haraldssonar og Ingólfs Eiríkssonar, hún var fín á köflum en alls ekki alltaf. Stundum fannst mér sem textinn væri svolítið þvingaður, en í heildina var þetta ágætt.

- Auglýsing -

Þegar tjaldið féll í lok söngleiksins vildi ég meira og það segir ýmislegt um upplifun mína. Sýningin er stórskemmtileg, hún er „relevant“, svo maður sletti aðeins, tekur á málum sem brenna á samfélaginu, nándarleysi í samböndum, kynhneigð, rasisma, fíknisjúkdómum, nauðgunarmenningunni og fleiru sem vert er að skoða í kjölinn. Lögin eru frábær, söngurinn stórkostlegur, leikurinn góður og sviðsmyndin geggjuð. Ef ég ætti að gefa sýningunni stjörnur myndi ég gefa henni 4 af 5.

Pistill þessi birtist í nýju Sjóarablaði sem hægt er að lesa hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -