Mánudagur 29. apríl, 2024
9.8 C
Reykjavik

Blaðamennska á Íslandi – Leyndarmálin sem ekki má segja frá

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Starf blaðamannsins er í senn skemmtilegt, strembið, spennandi, stressandi og að einhverju leyti lýjandi.

Það sem gerir starfið skemmtilegt er sú staðreynd að engir tveir dagar eru eins, alltaf nýjar fréttir og þú veist ekkert hvernig dagurinn verður. Í starfinu fær maður einnig tækifæri til að tala við hresst og skemmtilegt fólk, læra um ýmsa fróðlega hluti og næra þannig sálina.

Það sem gerir blaðamannastarfið strembið eru þau krefjandi verkefni sem blaðamaðurinn þarf að takast á við, til dæmis að hringja erfið símtöl, hvort sem það eru símtöl við vel pirraða vísindamenn, fórnarlömb ofbeldis eða meinta gerendur í einhverjum erfiðum málum.

Starfið er spennandi því maður fær tækifæri til að stinga á kýlum samfélagsins, koma upp um spillingu og vera aðhaldið sem manni er ætlað að vera. Jú, jú, á litlum miðli á borð við Mannlíf er allt þetta erfiðara, af þeirri einföldu ástæðu að við erum voðalega fá sem skrifum fréttir og því þarf oft að grípa til slúðurmola og léttmetis af samfélagsmiðlunum, en á meðan það er lesið, þá eru það fréttir líka, ekki satt?

Stressandi hluti blaðamennsku snýr meðal annars að viðbrögðum fólks við fréttum, þá aðallega þeirra sem fjallað er um. Það er ástæða fyrir því að sérstakur tæknilás var settur á hurðina inn á ritstjórnarskrifstofur Mannlífs, en það eru ekki allir sáttir við að fjallað sé um þá. Þá er frægt þegar meðlimur Hells Angels ruddist inn á skrifstofu DV og tók Reyni Traustason hálstaki, vegna umfjöllunar um hans mál. Þannig að já, það er þörf á góðum lás og öryggismyndavélum hjá fjölmiðlum.

Það sem er lýjandi við starfið, fyrir utan álagið sem oft er á okkur blaðamönnum þegar mikið gengur á, eru öll leyndarmálin sem við höfum í hausnum en getum ekki sagt frá. Áður er samsæriskenningarsmiðir súpa hveljur og fara að tala um leyndarhjúp og yfirvarp með yfirvaldinu eða hátt settu fólki, þá er það ekki ástæðan fyrir því að við getum ekki sagt frá öllu sem við vitum. Ástæðan er oftast sú að leyndarmálin eru oftar en ekki þess eðlis að þau eru of persónuleg og færa má rök fyrir því að þau komi almenningi ekki við. Framhjáhald, ofbeldismál sem þolandi vill ekki að fjallað sé um, myndbönd sem allir vita að eru til en finnast ekki og fleira í þeim dúr er eitthvað sem blaðamenn þurfa að burðast með, án þess að geta sagt frá, þótt þeir gjarnan vildu. Ástæðan er líka oft smæð landsins, hér þekkja allir alla og því oftar en ekki erfitt að segja frá einhverju sem myndi auðveldlega rata í slúðurdálka í stærri löndum. Annað sem er nokkuð lýjandi, sérstaklega fyrir blaðamenn á litlum miðlum, eru öll málin sem ekki gefst tími til að vinna í, sökum manneklu og tímaleysis, en við gerum auðvitað okkar besta til að ná að vinna í þeim á endanum en stundum rennum við út á tíma.

- Auglýsing -

Starf blaðamanns á Íslandi er sem sagt bæði skemmtilegt og strembið, en auðvitað ekkert á við starf þeirra sem vinna sem blaðamenn í þeim löndum þar sem brjálæðingar og/eða óþokkar ráða ríkjum, eins og í Rússlandi, Ísrael, Kína, Simbabve, Tyrklandi og Erítreu, svo eitthvað sé nefnt. Í þeim samanburði er þetta auðvitað bara væl í mér, en ég stend við þetta væl mitt.

Þennan pistil og fleiri má lesa hér:

- Auglýsing -

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -