Föstudagur 26. apríl, 2024
9.1 C
Reykjavik

Arnar Þór fékk ábendingu um flak Glitfaxa: „Ég tók Side Scan sónar með og kortlagði svæðið alveg“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Miklar vangaveltur eru um nákvæma staðsetningu flaks Glitfaxa sem fórst árið 1951 ásamt öllum innanborðs, 20 manns. Kafari sem Mannlíf ræddi við segist hafa farið niður að því en vill ekki gefa upp nákvæma staðsetningu. Þá telur þyrluflugmaður sig hafa séð flak við Straumsvík árið 1978. Sérfræðingur í flakaköfun sem Mannlíf ræddi við dregur í efa að um flak Glitfaxa hafi verið um að ræða, þó hann útiloki ekkert.

Þyrluflugmaðurinn

Fyrrverandi þyrluflugstjóri hjá Landhelgisgæslunni, Benóný Ásgrímsson segir í samtali við Mannlíf að hann hafi árið 1978 séð flak flugvélar í Straumsvík. „Ég get ekki staðfest að ég hafi séð flak Glitfaxa en ég sá eitthvað sem líktist flugvél, skammt undan Straumsvík. Þetta voru mjög sérstök skilyrði, glampandi sól og algjört logn,“ sagði Benóný og bætti því við að þetta hafi verið í kringum 1978. „Ég lét vita af þessu á sínum tíma, lét loftferðaeftirlitið vita minnir mig.“

Kafarinn

Mannlíf birti frétt á dögunum þar sem sagt var frá kafara nokkrum sem sagðist hafa kafað niður að flaki Glitfaxa-flakinu en vildi ekki gefa nánari upplýsingar en þær að flakið sé á Faxaflóa. Ástæðan fyrir því að hann vildi ekki gefa upp frekari upplýsingar var sú að hann vildi ekki að „einhverjir kjánar færu að hræra í þessu“ en stjúpmóðir hans missti föður sinn og föðurbróður í slysinu.

Lögreglumaðurinn

- Auglýsing -

Þá ræddi Mannlíf í dag við lögreglumanninn og kafarasérfræðinginn Arnar Þór Egilsson, sem sérhæfir sig í að leita að flökum en hann hefur kafað í um 20 ár. Sagðist hann draga í efa að mennirnir sem talað er um hér að ofan, hafi fundið flak Glitfaxa þó hann útiloki það ekki. Segist hann ekki hafa heyrt af flaki í námunda við Straumsvík en að nokkur flök séu vissulega í Faxaflóa, önnur er en flak Glitfaxa. „Ef að hann sá flak þar hlýtur það að hafa verið á miklu grunnsævi. Ef við skoðum það, þá erum við til dæmis með annað flugvélaflak, Northrop-vélina sem er í Skerjafirði en hún er frá því í stríðinu, sem sagt fyrir tíma Glitfaxa. Og það er á 12 til 14 metra dýpi og það er ekki sjens að sjá það nokkurn tímann. En svo er einnig flak við Álftaness af breskri herflugvél af gerðinni Lockheed Ventura, sem fórst í stríðinu líka. Hún er alveg í tætlum. Ég kafaði sjálfur að því flaki og þar er bara ekkert að sjá.“ Arnar Þór segir að miðað við sjónstefnu Glitfaxa sem flugvélin átti að vera í þegar sambandið rofnaði, þá hafi hún farið í sjóinn þar sem er um 30-35 metra dýpi. „Jú, það er mikið þannig séð en miðað við tæknina í dag þá er þetta ekki ómögulegt.“

Vill skoða svæðið betur

Arnar Þór segist hafa fengið ábendingu um flak Glitfaxa fyrir nokkrum árum. „Fyrir nokkrum árum fékk ég ábendingu um það að flak Glitfaxa væri að finna undan ströndum Kúagerðis. Og mér var gefinn ákveðinn punktur og fullyrt við mig að þarna væri vélin. Ég fór út að leita og ég tók Side Scan sónar með mér og kortlagði svæðið alveg. Og ég sá ekki neitt. Bara alls ekki neitt. En nú er ég mjög vanur að leita að svona löguðu en ég myndi ekki segja að mínar mælingar eða mín leit hafi verið 100 prósent, því að ef við tökum þessa sviðsmynd sem átti sér stað undan ströndum Álftaness, að þá er ekkert eftir. Þegar ég notaði side scan sónarinn við leit af því flaki sá ég ekki neitt en ég vissi að þarna var eitthvað því ég hafði kafað þangað niður. Þannig að það sem ég á eftir að gera í raun og veru er að kíkja á þennan stað þar sem fullyrt var við mig að flakið væri og fara með fjarstýrða myndavél þangað niður og athuga hvort að sá staður reynist réttur. Við erum ekkert að leita að vél sem er í heilu lagi, þetta eru bara bútar eða brot. Allt álefni er bara farið í gegnum tíðina. En það geta alltaf verið einhverjir hlutir eftir eins og lendingarbúnaður og svo er það eitthvað sem fer aldrei og það eru mótorarnir.“

- Auglýsing -

Hvað varðar fullyrðingu kafarns um að hann hefði kafað að flakinu segir Arnar Þór að hann verði að heyra frekar um það til þess að trúa því: „Ég leyfi mér að draga þetta í efa. Segðu mér aðeins meira svo ég, sem er kafari sem leitað hefur að flökum og fundið þau, geti fengið að vita þetta. Mér finnst þetta bara ótrúverðugt.“ Þegar blaðamaður segir honum að kafarinn hafi ekki viljað segja hvar flakið væri að finna því stjúpmóðir hans missti föður sinn og frænda í slysinu og vilji ekki að „hrært“ væri í þessu, sagðist Arnar Þór skilja það. „Það er alveg fullkomlega skiljanlegt og hann hefur sínar ástæðu en eins og ég segi, þá vil ég ennþá svolítið draga þetta í efa. Ég hef heyrt svona sögur í gegnum þennan bransa í gegnum árin en þar sem ég hef kafað niður að flökum, þar eru myndir og fleira skilurðu? Ekki segja mér að það sé flak einhversstaðar í sjónum og þú viljir ekki að neinn kafi þangað því þú viljir ekki að neinn hrófli við þessu því þetta sé vot gröf.“ Sagði Arnar einnig að hann skilji þá ættingja sem vilji fá að vita hvar flakið er að finna, svo það fái frið í sálina. „Þá væri þetta bara staður í sjónum þar sem fórust 20 manns og ég veit að þeir kafarar sem ég þekki að minnsta kosti, þeir myndu fullkomlega virða þetta.“

Áður en samtali blaðamannsins við Arnar Þór lauk vildi hann koma því á framfæri að það „gæti vel verið að flakið sé löngu fundið“ en að hann hefði heyrt svo margar svipaðar sögur í gegnum tíðina að hann þurfi sönnun svo hann trúi þessu. „Og ég er ekki sá eini sem vill það, heldur ættingjarnir líka. Ég vil slá á samsæriskenningar, ég vil slá á eitthvað sem er ekki satt,“ sagði Arnar Þór að lokum en hann heldur út hinni frábæru heimasíðu https://dive-explorer.com/ þar sem hann fjallar um skips- og flugvélaflakaköfun við Íslandsstrendur.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -