Miðvikudagur 22. maí, 2024
7.8 C
Reykjavik

Arnar um áfangaheimilin: „Á mánudeginum þá kíki ég inn í herbergið hans og þá var hann látinn“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Við erum bara þarna að sjá um húsnæðið í sjalfboðavinnu. Það er náttúrulega margt sem þarf að gera, það þarf að fara og kaupa allt sem þarf klósettpappír og kaffi og sápu og allt sem er til staðar í því og fara með ruslið á hverjum degi og allt svona tilfallandi,‘‘ sagði Arn­ar Gunn­ar Hjálm­týs­son, for­stöðumaður áfanga­heim­il­is­ins Betra líf, í samtali við Mannlíf í morgun. Mikil umræða skapaðist um áfangaheimilið í kjölfar eldsvoðans sem kom upp í húsnæðinu í síðustu viku og lýstu nágrannar yfir áhyggjum sínum. Arnari sárnar umræðan síðustu daga en sjálfur segist hann, ásamt syni sínum og kærustu hans, sjá um húsnæðið í sjálfboðavinnu.

,,Sonur minn og kærasta hans sjá um þrif líka á sameigninni. Íbúum þarna ber skylda til þess að sjá um að herbergin þeirra séu þokkalega snyrtileg og taka ábyrgð á því,‘‘ segir hann. Í húsinu eru þrjátíu herbergi og hafa allir leigjendur aðgang að sameign. Aðspurður hvað sé í sameign segir hann ótal margt falla þar undir. ,,Hvert herbergi hefur aðgang að allri sameigninni, það er eldhús, gangarnir, reykingaraðstaða, þvottahús og salerni.‘‘

Leiguna segir hann ekki gerast ódýrari á Íslandi.  ,,Það er allur kostnaður við húsið inni í leigunni. Síðan er leigan þarna frá 120 þúsund upp í 140 þúsund en að öllu jafna eru þau(íbúar) með 80 þúsund í húsaleigubætur að lágmarki. Ef þú ert öryrki þá færðu ofan á það heimils uppbót og þá  ertu kominn með 120 þúsund. Þannig að sumir þarna eru í raun og veru í fríu húsnæði og það gerist ekkert ódýrara a Íslandi.‘‘ Arnar segist greiða um 3,7 milljónir af húsinu mánaðarlega, þar af greiði hann 720 þúsund krónur í fasteignagjöld. Sjö hundruð og tuttugu þúsund krónur þykir afar há upphæð en er það vegna þess að húsið er skráð skrifstofuhúsnæði.

,,Af því að þetta er skrifstofuhúsnæði. Þeir vildu ekki breyta þessu, þó ég reyndi að fá þá til þess að breyta því af því  að þetta er heimili hjá fólki, það býr þarna. Borgin vildi ekki breyta því þá eru fasteignagjöldin um 80 þúsund á mánuði og þeir eru ekkert æstir i að lækka skatttekjurnar sínar. Þeir neituðu, þeir sögðu það er aldrei breytt fasteignagjöldum. Ég fékk bara svar frá þeim,‘‘ segir hann og bætir við: ,,Fólkið sem er að borga leiguna þarna eru náttúrulega þeirra skjólstæðingar. Þeir eru i mörgum tilfellum að skaffa 186 þúsund á mánuði. Svo fá þeir náttúrulega sérstakan húsnæðisstuðning líka sem er 40 þúsund. Svo fá þau 40 þúsund frá HMS sem er ríkið þannig þá eru þau alltaf allavega með 80 þúsund. Þetta eru allt saman peningar frá ríki og sveitarfélögum. Við erum að borga niður skóla og leikskóla og allt og svo er Reykjavíkurborg líka að reka gistiskýlið. Gistiskýlið er náttúrulega, eins og margir vita, það er ekkert geðslegt að vera þar. Þú ert með fjóra til sex saman i herbergi og þér er hent út klukkan tíu á morgnanna og þú getur ekki farið að sofa því þá er búið að stela af þér símanum. Þetta segja mér bara menn sem að eru hjá mér sem hafa þurft að vera þar. Hjá mér fá þeir lykil af sér herbergi og enginn annar kemst inn i það.‘‘ Arnar veit til þess að bið eftir félagslegu húsnæði hafi verið allt að níu ár.

,,Einn maður sagði við mig i fyrra sko, eldri maður, sem sagði: ,,Þetta er i fyrsta skipti i þrjú ár sem mér finnst ég eiga heima einhversstaðar, þegar ég hef lykil af herbergi.‘‘ Þetta er raunveruleikinn fyrir þetta fólk. Þessi maður fékk síðan félagsíbúð en hann var búinn að bíða í níu ár eftir henni. Níu ár.‘‘

Áfangaheimili hafa venjulega þá reglu að fólk haldi sér edrú meðan það dvelur þar. Aðspurður hvers vegna Betra líf sé frábrugðið segir Arnar úrræðið kallast Housing First.
,,Ég er með úrræði sem heitir Housing First þarna,‘‘ segir hann og bætir við að hann hafi hitt stofnanda Housing First, Juha Kaakinen, árið 2019 þegar hann heimsótti Ísland og kynnti úrræðið á fundi Vonar hjá SÁÁ. ,,Þremur árum eftir að þeir byrjuðu þetta þá fækkaði útigangsmönnum um sjötíu prósent í Finnlandi. Ég sem sagt tók bara upp á því, að eigin frumkvæði, að bjóða þeim að koma þarna inn með því skilyrði að þau myndu panta í meðferð. Þetta er allt saman fólk þó að það sé veikt,‘‘ segir hann en biðtími fyrir fíkla sem hafa farið ítrekað í meðferð segir hann biðtíma geta verið allt að sjö til átta mánuðir.

- Auglýsing -

Þegar fólk fær inn í meðferð, lætur það þig vita?
,,Eiginlega í öllum tilfellum þá skutla ég þeim upp á Vog. Það er bara þannig. Ekki bara það, ég þekki líka fullt af fólki sem er að vinna hjá SÁÁ og get reynt að ýta á það að það fái flýtimeðferð.‘‘

Þrír ungir menn létust í síðastliðinni viku úr ofneyslu fíkniefna. ,,Í fyrra voru 52 ungir einstaklingar sem dóu á Íslandi út af ofneyslu eiturlyfja. Það er fyrir utan alla þá sem deyja úr alkahólisma langt fyrir aldur fram.‘‘ Ekki er langt síðan að maður lést á áfangaheimilinu sem Arnar rekur en sá var orðinn mjög veikur að hans sögn. ,,Hann deyr líklega á föstudegi og við erum náttúrulega ekki að fara inn i herbergi hjá fólki reglulega, þetta er heimili þeirra ég þarf þá að biðja um leyfi og það eru bara persónuverndarlög varðandi það. Þessi maður var búinn að vera mjög veikur frá því hann kom til okkar, hélt engri fæðu niðri. Hann kom 5 ágúst,‘‘ segir hann og bætir við: ,,Þessi maður var fæddur 1968 og systir hans þakkaði okkur kærlega fyrir það að veita honum húsaskjól síðustu daga ævi hans því að hann hafði ekki í nein hús að vernda. Hann var bara orðinn skinn og bein og hélt engum mat niðri. Hann gat ekki drukkið og gat ekki, ekki drukkið. Það var farið með hann nokkrum sinnum niður á spítala og þeir gátu ekkert gert fyrir hann. Síðan á mánudeginum þá kíki ég inni herbergið hans vegna þess að herbergis félagi hans við hliðin á honum sagði að hann hafi ekkert heyrt í honum eða rekist á hann fara a klósettið eða neitt svona og þá var hann látinn. Og hann er ekki fyrsti sem að deyr hjá okkur því þetta er graf alvarlegur sjúkdómur. ‘‘

Arnar hefur beðið um styrki allt frá því að hann opnaði áfangaheimilið en hefur enn enga styrki fengið.  ,,Í mannréttindasáttmála sameinuðuþjóðanna, sem Ísland er búið að skrifa undir og samþykkja, segir að allir eigi rétt á fæði, klæði, húsnæði, læknisþjónustu og félagsþjónustu. Ég er að reyna að hjálpa sveitarfélögunum því þau geta ekki hjálpað þessu fólki að redda einu af þessum atriðum, sem er húsnæði. Ég er bara ósköp venjulegur maður sem bara ofbauð ástandið.‘‘

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -