Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, hefur ekki svarað ítrekuðum fyrirspurnum Mannlífs um leyfi barna frá skóla á skólatímum en lengd og tíðni slíkra leyfa hefur aukist mikið á undanförnum áratug. Algengasta ástæða leyfanna eru ferðalög barna til útlanda með foreldrum eða forráðamönnum sínum og eru dæmi um að börn hafi farið erlendis í fimm vikur í senn á skólatíma. Þá kemur það reglulega fyrir að börnin sinni ekki námi sínu, sem kennarar setja þeim fyrir, meðan þau eru í leyfi.
Telja sumir kennarar og skólastjórnendur að vinna þurfi markvisst að því koma foreldrum í skilning um að löng óþarfa fjarvera frá skóla geti haft mjög neikvæð áhrif á nám og andlega heilsu barna en engar reglur eru í lögum um grunnskóla um leyfi barna annað en að það sé mat skólastjóra hvers skóla að veita slíkt. Því getur verið mikill munur á leyfisveitingum milli skóla.
Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, sagði í samtali við Mannlíf að best væri að sem minnst rof væri á námi barna og þá sagði rektor Menntaskólans við Hamrahlíð að auka þurfi virðingu foreldra og nemanda fyrir námi.
„Hætt er við því að nemandi sem er fjarverandi vegna tíðra ferðalaga tileinki sér þá skoðun að fjarvera úr skóla sé í lagi,“ skrifaði Steinn Jóhannsson, rektor MH, í pistli um málið.
Í könnun sem Mannlíf gerði um málið vilja 75% lesenda Mannlífs banna margra vikna leyfi barna á skólatíma.