Miðvikudagur 8. maí, 2024
6.8 C
Reykjavik

Baddi hefur verið rúma hálfa öld á sjó: „Verbúðin kemst ekki í hálfkvisti við raunveruleikann“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég byrjaði á sjó sumarið sem ég varð 11 ára, var með Birni Ingólfssyni föður mínum á trillu, Óla SH 14. Við rerum frá Stykkishólmi á handfæri og haukalóð auk þess sem við nytjuðum nokkrar eyjar á Breiðafirðinum. Ég lít alltaf á mig sem Breiðfirðing en ekki Hólmara enda á ég mínar ættir úr eyjunum og svo vestan frá Flateyri,“ segir Björn Björnsson sem verið hefur á sjó meira en hálfa öld. 

Á sjó með popparanum

Eftir nokkur sumur á trillunni með pabba sínum tóku stóru bátarnir við drengnum. „Ég fór á Þórsnesið og elsta skráning sem ég hef fundið á Þórsnesinu er frá maí 1975 Þetta var um það bil 70 – 80 tonna trébátur. Við byrjuðum sumarið á skaki en fórum svo á skel um haustið. Ég færði mig svo yfir á Sifina, sem var gerð út hér í Hólminum. Þar vorum við samskipa, við Ólafur Ragnarsson Poppari sem þá var reyndar ekki kominn með þá miklu nafnbót og enn ekki búinn að semja þjóðsöng þeirra Flateyringa, Hafið og fjöllin.

Kokkurinn var svaðblautur og hafði alltaf með sér eitthvað sem styrkti hjartað

Um ármótin hætti Óli og fór á Flateyri varð þar vélstjóri á Ásgeiri Torfasyni ÍS 96 sem þá var á netum. Um 60 tonna bátur sem Benedikt Vagn Gunnarsson gerði út, ævinlega bara kallaður Benni Vagn. Þegar leið að hausti hringdi Óli til að segja mér að þarna væri gott að vera og hvatti mig mjög til þess að koma. Ég lét slag standa, það var margt sem freistaði ég var farinn að drekka drjúgt og fátt betra en að komast á verbúð og laus undan öllum aga. Eggert Jónsson var með bátinn og við rérum á línu. Þá voru líka gerðir út tveir 200 tonna línubátar frá Flateyri með mjög svipaða línulengd og við. Eggert var alveg ákveðinn í að gefa þeim ekkert eftir. Rétt eins og allir vita er vetrarvertíð á Vestfjörðum ekki fyrir viðkvæma.  Kallinn sótti eins og hægt var og vel það á þessum litla trébát við héngum alveg í aflatölum stóru bátanna. Hins vegar var voru landstímin okkar stundum þannig að við urðum allir að vera upp í brú og viðbúnir hinu versta. Ég man alveg eftir að trésmiðir hafi þurft að bíða okkar á bryggjunni til að laga það sem aflaga hafði farið á meðan við lönduðum og tókum balana um borð. Kokkurinn var svaðblautur og hafði alltaf með sér eitthvað sem styrkti hjartað, þar komst ég fyrst upp á lag með að drekka út á sjó. Ásgeir var mjög blautur bátur þannig að ég og kokkurinn vorum sammála um það breytti ekki öllu þó við aðlöguðum okkur skipinu,“segir Baddi og hlær.

Sighvatur GK 57 heldur til hafs í fallegu sumarveðri.
Ljósmynd: Jón Steinar Sæmundsson.

„Þetta var frábær vertíð, við fiskuluð vel og þénuðum vel, áhöfnin var frábær og Benni Vagn einhver besti útgerðarmaður sem ég hef verið hjá.“

Þegar talinu er vikið að verbúðarlífinu kemur einhver fortíðarljómi yfir sæbarið andlit Badda. „Á meðan ég drakk ennþá voru verbúðir hreinar paradísir, þar var fólk sem alltaf var til í allt. Ég hef verið víða um land og átt löndunarfrí víða og af því að sumt fólk er að efast um sjónvarpsþættina vinsælu um Verbúðina, þá get ég lofað þér því að þættirnir komast ekki í hálfkvisti við raunveruleikann.“

Útgerðarmanni stungið í snjóskafl

Blaðamaður og Baddi rifja upp sögu af því þegar útgerðarmaður á Flateyri kom til að stilla til friðar í stærstu verbúð þorpsins. Garrinn tók á móti honum, tók í hálsmálið og í buxnastrenginn og skutlaði honum út í skafl.

- Auglýsing -

„Fólk sem telur of mikið fyllerí, of mikið af spítti og of mikið af nekt og kynlífi vera í þáttunum hefur aldrei komið í alvöru verbúð. Ég er ekki frá því heldur að verbúðir hafi bjargað iðnaðarmönnum um margt handtakið. Oft voru átök og þá varð sitthvað undan að láta. Þetta var ekki bara verbúðarliðið, heimamenn sóttu mjög í þetta enda mikið af skemmtilegum stelpum og mikið fjör. Af því að þessi þáttaröð er tekin upp í Súganda þá er ég alltaf að bíða eftir öllu fjörinu sem var á Pallinum. Það var alvöru verbúð.“

 

Gamli maðurinn heldur á hafið. Þrettándagleði Badda var að halda út í storminn.
Ljósmynd: Guðmundur Sigurðsson

Á þeim áratugum sem Björn hefur verið til sjós hafa tekjur verið upp og ofan. Sumir útgerðarmenn hafa reynt að klípa allt af sem hægt er að ná af áhöfninni.

- Auglýsing -

„Ég man eftir því þegar byrjað var að landa í gáma til útflutnings, þá var ég á Patreksfirði. Útgerðin hafnaði að gera upp við áhöfnina á verðinu sem fékkst fyrir fiskinn. Borguðu okkur bara hlut af landsambandsverði sem var aldrei hátt. Ég hékk svo sem ekkert yfir þessu fór bara annað, það virtust allir gera upp á söluverði nema Patreksfirðingarnir, það var sérstakt.“

Engin leið að hætta

Frá því fyrir aldamót hefur Baddi verið á beitningavélabátum sem þykir ekki vera nema fyrir harðgerðustu menn. Sumir kalla þessa báta sem róa í öllum veðrum hreinar þrælakistur.  Hann segir þó að menn sé heldur farnir að slaka á. Í meira en hálfa öld hefur Baddi verið á dekkinu við flestan þann veiðiskap sem gert er út á hér við land.

Þegar hann er spurður hvort ekki fari að koma að lokum dregur hann við sig svarið.

„Ég veit ekki, lengi hef ég sagt að nú fari ég að hætta en einhvern veginn heldur maður alltaf áfram. Ég kann vel við mig á línunni og hér á Sighvati er gott að vera. Það er einhvern veginn alltaf gaman að koma um borð og hitta strákana. Það er alltaf líflegt í borðsalnum og í stakkageymslunni. Það er vinskapur með allri áhöfninni.

Mér hefur aldrei þótt leiðinlegt á sjónum en þetta er að verða helvíti erfitt sér í lagi í miklum brælum.“

53 ár á sjó

En hvað tekur við hjá manni sem hefur allt sitt líf verið á sjó og kann ekkert annað. Meira að segja hættur fyrir hart nær 20 árum að stunda bari og hvergi er eftir verbúð?

„Ég er stundum spurður hvort ég fái mér ekki trillu þegar ég hætti að vera sjómaður, ég veit ekki hvað verður, ég sé hafið ekki sem neina rómantík. Það eru engar hillingar út við ystu sjónarönd. Þú veist hvað skáldið sagði: Ég hefði átt að sigla, ég hefði átt að fljúga, ég hefði átt að skoða mig um.  Kannski mun ég bara njóta þess sem Örn Arnarson fór á mis við. Kannski mun ég bara ferðast þegar ég hætti til sjós. Lesa góðar bækur og ferðast um heiminn,“ sagði Björn sem hélt út í storminn á Þrettándanum, sæbörð hetja hafsins töluvert á sjötugsaldri að leggja upp í 53 árið sitt til sjós.  

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -