„Pabbi, var einhverju rauðu kastað á þig í gær. Af hverju var það?“ Svona byrjaði dagurinn. Ég sat með kaffibollann og 12 ára dóttir mín kallaði til mín,“ skrifaði Bjarni Benediktsson, utanríkisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, í Facebook-færslu í dag. Í færslunni tjáir Bjarni sig um mótmælin sem fóru fram í Veröld í gær en þar köstuðu mótmælendur rauðu glimmeri yfir Bjarna. Þá segir hann mikilvægt að umræðan þurfi að fara fram á bæði lýðræðislegan og málefnalegan hátt.
„Ég geri allt sem ég get til að heimilið geti verið griðastaður fyrir fjölskylduna. Undan þessu hef ég aldrei kvartað og bið fólk um að virða við mig að ég nefni þetta hér án þess að það sé teiknað upp sem einhver sjálfsvorkunn,“ skrifar Bjarni sem segist ekki hafa orðið fyrir neinum skaða í gær.
„Og ég hallast að því svona almennt séð, að þegar fólk fremur skemmdarverk, sem þessi mótmæli ótvírætt voru, ráðstefnan var slegin af, að best sé að gera því ekki hærra undir höfði en efni standa til. Forðast ætti það sem gæti verkað sem hvatning fyrir viðkomandi til að halda áfram eða ganga lengra.“
Þá bætir Bjarni við að nokkrir þeirra sem voru á mótmælunum í gær hafi hann einnig séð við ráðherrabústðinn þar sem ríkisstjórnarfundir fara fram.
„Þar fær maður að heyra að maður sé barnamorðingi á leið til vinnu. Málfrelsið er mikilvægt og það að koma saman til að ræða tiltekin mál eru grundvallarréttindi. Hins vegar er ég á móti skemmdarverkum og tel að samfélaginu farnist best ef við öll sýnum leikreglum samfélagsins virðingu.“