Mánudagur 16. september, 2024
4.3 C
Reykjavik

Brian var handtekinn á aðfangadagskvöld að ósekju: „Þau þurftu að vita það af því hann er svartur“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lögreglan í Reykjavík er sögð hafa tekið mann fastann á aðfangadagskvöld sem var á leið heim til sín eftir vinnu. Ástæðan var sú að hann hafði ekki skilríki á sér en hann er frá Kenía en hefur búið á Íslandi í fjöldi ára.

Þórunn Helgadóttir skrifaði Facebook-færslu í kvöld sem vakið hefur mikla reiði en þar segir hún frá raunum stjúpsonar síns. Þórunn er gift manni frá Kenía og á með honum stjúpsoninn Brian, sem er 28 ára og 15 ára soninn Daníel sem þau ættleiddu frá Kenía. Hún flutti til Kenía árið 2006 og giftist föður Brian ári síðar. Árið 2014 flutti fjölskyldan svo til Íslands en Daníel er með ríkisborgararétt en Brian og faðir hans með dvalarleyfi.

Í færslunni segir Þórunn að jólin hjá fjölskyldunni hafi ekki farið eins og ætlast var en á aðfangadagskvöld hvarf Brian á leið frá vinnu sinni í Vesturbænum.

„Gleðileg jól öll sömul! Jólin hjá okkur fóru ekki eins og planað var í þetta sinn. Hvernig myndi ykkur líða ef að klukkan 6 á aðfangadagskvöld þá væri einn fjölskyldumeðlimurinn horfinn? Það kom fyrir okkur,“ segir Þórunn í upphafi færslunnar og heldur áfram að lýsa því sem kom fyrir Brian.

„Á aðfangadag þá var Brian að koma úr vinnu í vesturbænum og ætlaði að ganga upp á Hlemm til að ná síðasta strætó heim. Þá kom lögreglubíll upp að honum og þau spurðu hann um skilríki. Hann hafði óvart gleymt veskinu heima og var ekki með neitt á sér. Þau sögðu við hann að það væri ólöglegt að ganga um skilríkja laus og þau gætu handtekið hann fyrir það. Svo yfirheyrðu þau hann á götunni um það hver hann væri. Hann sagði til nafns og kennitölu en þau sögðu að hann væri að ljúga. Hann bauðst þá til að koma daginn eftir á stöðina með skilríkinn til að sanna hver hann væri en þau sögðu að hann myndi þá reyna að flýja.“

Segir Þórunn að þegar þarna var komið við sögu hafi lögreglan gabbað Brian upp í lögreglubílinn með loforði um að hann fengi skutl heim til að sækja skilríkin.

- Auglýsing -

„Þá spurði hann hvort þau gætu keyrt hann upp í Breiðholt svo þau gætu skoðað skilríkin hans. Þau sögðust ætla að gera það en keyrðu svo bara beint á lögreglustöðina á Hlemmi í staðinn. Sögðu að fyrst hann hefði sest sjálfviljugur upp í bílinn þá væri hann handtekinn.“

Þegar á Hlemm var komið segir Þórunn að stjúpsonur hennar hafi verið yfirheyrður og sakaður um lygar. Þá hafi honum verið neitað um vatn og að fara á klósettið, auk þess sem síminn hafi verið tekinn af honum.

„Þar var hann færður í móttöku fanga og í yfirheyrslu. Allt sem hann sagði sögðu þau vera lygi. Sögðu svo að hann yrði að samþykkja það að þau færu inn heima hjá honum til að skoða sig um og leita að eiturlyfjum. Ef hann myndi ekki samþykkja það þá yrði hann að gista í fangageymslu yfir nóttina. Hannn sagði að hann gæti ekki samþykkt að þeir færu inn í íbúðina. Fjölskyldan væri heima að halda upp á aðfangadagskvöld. Þau yrðu að bíða fyrir utan meðan hann sækti vegabréfið. Þau tóku af honum símann og hann fékk ekki að hringja heim. Var sagt að hann gæti bara hringt í lögfræðing. Hvaða lögfræðing er hægt að hringja í á aðfangadagskvöld? Hann fékk ekki vatn að drekka og fékk ekki að fara á klósettið. Það var öskrað á hann og hann var spurður af hverju hann væri svona aggressívur þegar hann var að reyna að svara og útskýra sitt mál. Að lokum var hann færður í fangaklefa.“

- Auglýsing -

Þegar þarna var komið við sögu segir Þórunn að rannsóknarlögreglumaður hafi komið að málinu og í raun ekki fundist þetta þess virði og sagði lögreglumennina að skutla Brian heim að sækja skilríkin.

„Svo kom loksins rannsóknarlögreglumaður í málið sem sagði við félagana að þetta væri nú kannski óþarfi og að hann nennti ekki að standa í þessu. Það væri aðfangadagskvöld og hann langaði að fara heim og halda jólin. Gaf fyrirmæli um að Brian yrði keyrður heim og skilríkin skoðuð þar. Í bílnum hélt löggan áfram að reyna að fá samþykki fyrir því að fara inn í íbúðina.“

Þórunn segir að á heimilinu hafi fjölskyldan verið síður en svo í jólastuði, enda hafði ekkert náðst í Brian allt kvöldið.

„En inni í íbúðinni vorum við fjölskyldan í engu jólastuði, ringluð, stressuð og kvíðinn því ekki náðist í Brian. Rétt fyrir klukkan 22 um kvöldið kom löggann loksins með hann. Við vorum mjög fegin að sjá hann en brá að sjá lögguna. Þau biðu fyrir utan dyrnar en þegar ég kom fram á gang og spurði hvað væri að gerast þá kom smá fát á þau. Þau sögðust þurfa að vita hver hann væri.“

Þórunn segist hafa fattað ástæðuna af hverju lögreglan hafi handtekið Brian, það væri af því að hann væri svartur á hörund.

„Á þeirri stundu skildi ég ekki hvers vegna þau þurftu að vita það. Fattaði svo að þau þurftu að vita það af því hann er svartur. Svo flettu þau í vegabréfinu að leita að innkomu stimpli frá þessu ári. Ég sagði að stimpillinn væri nú reyndar frá 2014. Brian sagði mamma við mig og þá bara lokaði löggan vegbréfinu og lét sig hverfa þegjandi.“

Að lokum segir Þórunn að þetta sé ekki í fyrsta skipti sem fjölskyldan hefur orðið fyrir svipuðu hjá lögreglunni.

„Við erum nú búin að lenda í ýmsu með lögguna. Daníel 15 ára er reglulega stoppaður og það hefur verið leitað á honum. Hann upplifiði það á hátíðinni túnin heima í Mosó að vera tæklaður í jörðina, fá hné í bakið og handjárnaður fyrir framan fullt af fólki. Ástæðan var að hann var að hlaupa á klósettið en löggan hélt að hann væri að flýja þá af því að hann hefði framið líkamsárás. Við höfum ekki verið að blása þetta allt saman upp, en þetta aðfangadagskvöld gekk svo rosalega langt að það er erfitt að kyngja þessu.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -