Lögreglu barst tilkynning um afar æstan aðila inn a N1 í gærkvöldi. Fólk var hrætt við manninn sem hafði látið illa í nokkra stund. Lögregla ræddi við viðkomandi og bað hann um að yfirgefa vettvang, sem hann gerði. Síðar um kvöldið var hústökufólki vísað út úr húsi á Hverfisgötu. Á Miklubraut dansaði aðili með heyrnartól og kom sér og öðrum þannig í mikla hættu. Þegar lögregla kom á vettvang var dansarinn á bak og burt.
Í Breiðholti gómaði lögregla mann sem hafði brotist inn. Viðkomandi hafði brotið glugga og komist þannig inn. Við skýrslutöku sagðist maðurinn ekki muna eftir atvikinu. Þá sinnti lögregla einnig umferðareftirliti og segir í dagbók lögreglu að töluvert hafi verið um akstur undir áhrifum áfengis og vímuefna.