Karlmaður á fertugsaldri fannst látinn í klefa sínum á Litla-Hrauni í gærmorgun. Nokkrum dögum áður hafði hann verið handtekinn á Vernd. Ekki er talið að andlátið hafi borið að með saknæmum hætti.
Sjá einnig: Sérsveitin réðst til atlögu á Vernd: „Það er ýmislegt í gangi“
Afstaða, félag fanga, sendi frá sér yfirlýsingu þar sem stjórnvöld eru – í ljósi andlátsins – gagnrýnd fyrir að taka ekki nægilega vel á geðheilbrigðismálum fólks er sætir frelsissviptingu. Fangi, 31 árs, sem vistaður var á Vernd, var handtekinn eftir ásökun um glæp á dögunum en reglan er sú að ef fangi á reynslulausn er sakaður um glæp, þarf ekki að sanna á hann glæpinn, heldur er hann handtekinn strax og færður aftur í fangelsi. Þetta gagnrýnir Afstaða.
Afstaða hvetur til að bætt verði úr fyrirkomulagi varðandi þá er hafa sinn rétt á reynslulausn:
„Afstaða hvetur til þess að fyrirkomulagið í kringum tilvik sem þessi verði skoðað í grunninn og úrbætur kynntar sem fyrst. Ekki gengur að fólk á reynslulausn njóti takmarkaðri réttinda en aðrir sem um frjálst höfuð strjúka.“ Einnig að Afstaða ætli sér að taka málið beint upp við dómsmálaráðherra; segir jafnframt fleiri sveitarfélög verða að koma að borðinu með Reykjavíkurborg og styðja við jaðarsetta hópa.
Mannlíf heyrði í Guðmundi Inga Þóroddssyni, formanni Afstöðu um andlátið. „Það er þetta sem við erum að kvarta yfir því þarna er sönnunarbyrðin meiri, ef þú ert í reynslulausnarferli en hann var vistaður á Vernd. Það er svo ofboðslega erfitt að vera kippt til baka, að menn þurfa náttúrulega að vera undir sérstöku eftirliti, að minnsta kosti í einhvern tíma.“