Héraðsdómur Vesturlands dæmdi fyrr í mánuðinum karlmann í 30 daga skilorðsbundið fangelsi vegna banaslyss á Snæfellsnesvegi þann 17.júlí. Auk þess var maðurinn sviptur ökuréttindum í hálft ár. Maðurinn var ákærður fyrir að aka bifreið „án nægilegs tillits og varúðar” sem varð til þess að hann ók yfir á rangan vegarhelming. Maðurinn var einnig talinn hafa verið ófær um að stjórna ökutækinu vegna þreytu.
Bifreið sem ekið var í suðurátt skall framan á bifreið ákærða en slóvenskur ríkisborgari lést samstundis. Auk þess slösuðust tveir aðrir slóvenskir ríkisborgarar og tveir bandarískir ríkisborgarar sem voru í bifreið ákærða. Maðurinn kvaðst ekki muna eftir árekstrinum og taldi eiginkona hans líklegt að hann hefði sofnað undir stýri. Manninum var gert að greiða 1,5 milljónir króna í miskabætur, málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun skipaðs réttargæslumanns allra brotaþola í málinu.