Laugardagur 15. júní, 2024
10.8 C
Reykjavik

Ein algengasta birtingarmynd kynþáttafordóma á Íslandi: „Gefur til kynna einhvers konar útilokun“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -
Ein algengasta birtingarmynd kynþáttafordóma á Íslandi er fyrirbærið „öráreiti“ sem lýsir sér meðal annars þannig að fólk spyrji sakleysislegra og vel meintra spurninga á borð við „hvaðan ertu?“ eða bendi á að viðkomandi tali góða íslensku. Þetta eru athugasemdir og spurningar sem einar og sér skipta kannski engu máli en vegna þess að þær eru síendurteknar geta þær valdið skaða og skapað fjarlægð. Sóley Tómasdóttir, jafnréttis- og fjölbreytileikafræðingur, og Chanel Björk Sturludóttir, fjölmiðlakona, útskýra þetta fyrirbæri og gefa góð ráð í útvarpsþættinum Morgunvaktin á Rás 1.

 

Fólk telur að eina birtingamynd kynþáttafordóma sé þegar einhver beitir manneskju af öðrum kynþætti ofbeldi, en sú er ekki bara raunin. „Á Íslandi er eitt helsta form kynþáttafordóma ómeðvituð hlutdrægni sem byggð er á staðalímyndum og birtist í öráreiti. Við upplifum ekki að fólk sem tilheyri jaðarhópum sé hluti af okkur,“ segir jafnréttisfræðingurinn Sóley Tómasdóttir.

Nei, ég meina hvaðan ertu upprunalega?

„Í rauninni er þetta öráreiti skilgreining á mannlegum samskiptum í lífi fólks sem gefur til kynna einhvers konar útilokun og þar með ýkir upplifunina að fólk tilheyri jaðarhópi, minnihlutahópi, og eigi ekki heima með einhverjum hætti,“ segir Sóley.

Eitt besta dæmið er spurningin: „Hvaðan ertu?“ sem fólk notar gjarnan til þess að tengjast öðrum og samsama sig með þeim. „En ef svört eða brún manneskja, með hreim eða talar ekki nógu góða íslensku fær þessa spurningu, þá dugir ekki að segja: Kópavogi. Heldur kemur viðbótarspurningin: Nei, ég meina hvaðan ertu upprunalega?“ Sóley segir að þá snúist spurningin ekki lengur um að tengjast heldur fá útskýringu á því af hverju viðkomandi sé frávik.

„Er ég þá ekki nógu góð svört manneskja?“ 

Chanel Björk telur að slík áreitni tengist einnig skorti á sýnileika fólks af erlendum uppruna í íslensku samfélagi.

„Ástæðan fyrir því að einstaklingar eins og ég eru spurð að þessu margoft, er vegna þess að það er svo sterk ímynd á Íslandi um hvernig Íslendingar líta út,“ segir hún. Með því að spyrja hvaðan viðkomandi kemur, er verið að ýta undir öðrun og aðgreiningu sem Chanel Björk segir að stafi af því að fólk geti engan veginn ímyndað sér að viðkomandi geti verið Íslendingur, eða í það minnsta ekki fullgildur. „Vegna þess hvernig hún lítur út eða er ekki hvít á hörund.“

- Auglýsing -

Hún segir að oft séu slíkar athugasemdir settar fram í gríni eða hrósi sem að baki búa undirliggjandi fordómar eða staðalímyndir. Hún tekur sem dæmi að oft sé hún talin vera góð í íþróttum vegna þess að hún sé svört. Þrátt fyrir að systir hennar beri af í íþróttum og sé í landsliðinu í handbolta þá hefur Chanel Björk ekki erft þau gen. „Er ég þá ekki nógu góð svört manneskja af því að ég er ekki jafn góð í íþróttum?“ spyr hún. „Væntanlega hefur þetta ekkert með kynþátt að gera.“ Annað dæmi er að fólk hrósi einstaklingum af erlendum uppruna fyrir góða íslenskukunnáttu. Oft hefur þetta fólk alist upp á Íslandi og þekkir ekkert annað en að tala tungumálið og vera Íslendingur. „Þá er það að heyra: Þú talar svo góða íslensku, mjög gott dæmi um öráreiti því þarna er fólk að gera sér upp einhverja hugmynd um þessa manneskju,“ segir Chanel Björk.

Stíga inn í aðstæður

Hvað er þá til ráða fyrir fólk sem áttar sig á vandamálinu og vill gera rétt? Chanel Björk ráðleggur fólki í forréttindastöðu að stíga inn í aðstæður ef það verður vart við að einhver sé beittur öráreiti eða heyrir óviðeigandi athugasemdir. „Vegna þess að það getur verið mjög hjálpsamlegt fyrir einstakling sem tilheyrir jaðarhópi og verður sífellt fyrir þessum spurningum og athugasemdum. Það getur alveg verið erfitt að finna kraftinn til að segja eitthvað,“ segir hún og bendir á að þá geti verið gott ef einhver annar grípi boltann og jafnvel spyrji viðkomandi hvernig þeim líði, hvort þetta hafi verið í lagi og hvort hægt sé að aðstoða eða segja eitthvað. „Það getur alveg skipt sköpum.“

 

- Auglýsing -

Rætt var við Chanel Björk Sturludóttur og Sóleyju Tómasdóttur í Morgunvaktinni á Rás 1. Anna María Björnsdóttir í vefritstjórn og Sigríður Halldórsdóttir, dagskrárgerðamaður tóku saman. Viðtalið má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér. 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -