Þriðjudagur 21. maí, 2024
3.8 C
Reykjavik

Einar Ágúst opnar sig: „Þurfti að skoða hvort ég væri sáttur áður en ég myndi kveðja“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Einar Ágúst Víðisson segist þurfa að hjálpa öðrum, lifa í trú, vera heiðarlegur og lifa í naumhyggju til þess að vera í góðu standi. Einar Ágúst sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar, segist hafa upplifað vanlíðan frá barnæsku sem hann hafi á löngum köflum flúið með mikilli neyslu:

„Ég varð fimmtugur í fyrra og var greindur með alvarleg veikindi í fyrravetur. Fimmþættan hjartavanda. Þá þurfti ég að fara að skoða hvort ég væri sáttur við þann stað sem ég væri á áður en ég myndi kveðja. Af því að ég er mjög trúaður maður. Ég þurfti að fara yfir sambönd sem ég hef klúðrað, hvernig ég hef komið fram við fólk og hvernig vegferð mín hefur verið almennt. Ég finn það alltaf betur og betur að ég verð að lifa mjög heiðarlegum naumhyggjulífsstíl, af því að annars verð ég bara uppfullur af sjálfum mér og allt fer í vitleysu. Ég verð alltaf að leita í þetta æðra, aftur og aftur til þess að halda mér á réttum stað. Ég verð að stunda andlegan lífsstíl og vera heiðarlegur. Ef ég er ekki heiðarlegur þá byrja ég bara að drekka og dópa aftur af því að þá fer ég inn í gömlu vanlíðanina. Og mitt þunglyndi er eins og svartasta Mordor. Ég reyndi í mörg ár að funkera með því að deyfa mig af því að það var eina leiðin til að losna undan þessarri vanlíðan. En það virkar bara ekki og endar alltaf hræðilega.“

Einar segist muna eftir mikilli vanlíðan hjá sér allt frá því að hann var lítið barn og telur að hann hafi á löngum köflum verið að reyna að flýja þá vanlíðan með neyslu og rugli.

„Alveg frá því að ég man eftir mér hef ég verið að glíma við vanlíðan. Ég var besti skemmtikrafturinn, en á sama tíma að finna fyrir miklum kvíða og þunglyndi. Í raun er mín fyrsta minning kvíða- og áhyggjutilfinning og líf mitt hefur mjög mikið farið í að reyna að koma mér frá þessum tilfinningum. Bæði með heilbrigðum leiðum eins og félagsskap, fólki, íhugun og fleiru. En líka með slæmum leiðum og ég held að ég hafi byrjað að drekka 13 ára gamall af því að ég var að reyna að koma mér burt frá vondum tilfinningum,“ segir Einar, sem segir að hann hafi á tímabili verið kominn á verulega dimman stað sem hafi nánast endað með sig í gröfinni:

„Ég var algjörlega búinn að segja mig úr lögum og reglum samfélagsins. Ég var farinn að taka 10 grömm af kókaíni á dag þegar þetta var sem verst og svo róandi lyf á móti. Ég var handtekinn fyrir innflutning og var kominn á kaf í undirheimana. Ég hef beitt aðra ofbeldi og verið beittur miklu ofbeldi sjálfur. Staðirnir sem þú ferð á eru algjör skelfing, vanlíðan, myrkur og kvöl. Það fer rosaleg orka í alla þessa neyslu og þetta er algjörlega friðlaust ástand og í raun hreinn og klár þrældómur. Það tekur langan tíma að taka til eftir alla þessa óreiðu og það er stundum erfitt að sjá sig sem góða manneskju eftir alla hlutina sem hafa gengið á og allt sem maður hefur gert í gegnum tíðina. Ég hef farið svo langt og farið ofan í svo mikið myrkur. Ég hef gert og séð hluti sem flestir þekkja bara úr bíómyndum. Ég hef verið á dimmustu stöðunum og þá á maður stundum erfitt með að telja sér trú um að maður sé góður gaur, en jú, ég vil trúa því að ég sé góður gaur.“

Einar stundar nú ráðgjafanám, sem undirbýr hann undir að geta aðstoðað aðra, ekki síst fólk sem glímir við fíknivanda. Hann segir það gefa sér mikinn tilgang:

- Auglýsing -

„Þess vegna er ég í þessu ráðgjafanámi núna, af því að það er ekkert sem gefur mér meira en a hjálpa öðrum. Þegar maður getur aðstoðað aðra beinlínis út af þjáningunni sem maður hefur sjálfur upplifað þá gerist eitthvað stórkostlegt. Mér líður betur með skammarlega fortíð mína þegar ég næ að hjálpa öðrum. Eina leiðin til að ég þekki sjálfan mig er að fórna tíma mínum og orku í að þjónusta aðra og verða að gagni. Ef ég get hjálpað einhverjum sem er að gefast upp á lífinu eða er fastur í tómi, þá er ég boðinn og búinn að vera til staðar. Það er geggjað að heyra lögin sín í útvarpinu og koma fram á sviði fyrir framan fólk, en það er ekkert sem að toppar það að sitja á móti öðrum einstaklingi sem réttir manni sál sína og biður mann um að hjálpa sér. Það er besta dóp í heimi.“

Í viðtalinu ræða Einar og Sölvi um stærstu sigrana, myrkustu tímabilin, tengslin við glæpastarfsemi, endurkomu Skítamórals og þakklæti Einars fyrir að vera enn á lífi.

Hægt er að nálgast viðtalið við Einar og öll viðtöl og podköst Sölva Tryggvasonar inni á solvitryggva.is

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -