Eiríkur var hætt kominn í köfun í Silfru: „Þá sá ég að þetta er eins svart og svart verður“

top augl

Eiríkur Ingi Jóhannsson var á meðal þeirra sem komu að hörmulegu slysi í Skötufirði í Ísafjarðardjúpi þann 16. janúar 2021 þar sem bifreið með fjölskyldu frá Flateyri hafði oltið og lent úti í sjó. Eiríkur Ingi vakti þjóðarathygli þegar hann komst einn af þegar togarinn Hallgrímur SI fórst. Hann brást skjótt við og synti að bifreiðinni. Honum tókst að ná konu og barni úr bílnum.

Forsetaframbjóðandinn Eiríkur Ingi segir sögu sína í Sjóaranum í seinni hluta frásagnar sinnar.

Eiríkur Ingi er vanur kafari en eitt sinn þegar hann kafaði í Silfru með vini sínum, lenti hann í lífsháska.

„Það var köfun númer 27,“ sagði Eiríkur Ingi í upphafi frásagnar hans um lífsháska sem hann lenti í við köfun á Þingvöllum. „Þá var ég og félagi minn á Þingvöllum og tókum Silfru. Og svo sáum við að það var hægt að koma aftur að landi, undir stað sem heitir Silfurhóll. Það var sprunga þar og við ákváðum að kíkja inn í þessa sprungu. Og við gerðum það og fórum alltaf lengra og lengra inn.“ Eiríkur var aðeins með lítið ljós með sér, sem átti það til að svíkja hann, þannig að hann ákvað að hafa kveikt á því á meðan hann væri á kafi, ekki fikta í tökkunum. „Svo förum við alltaf lengra og lengra inn í hellinn og þá var bara smá píra af birtu þarna og við bara með þetta ræfilslega ljós.“

Eiríkur Ingi sér svo lítið og þröngt op í hellinum sem fer lengra inn og ákveður að kíkja þangað. Gaf hann félaga sínum merki um að hann ætlaði að kíkja í stuttu stund og að vinurinn ætti að bíða á meðan. „Og ég tróð mér í gegnum þetta gat. Og þar var hellir, svona gamaldags herbergi að stærð. Kannski fjórir metrar á breidd og tveir og hálfur eða þrír á hæð eða eitthvað. Og ég er kominn þarna inn og fer í endann á honum. Og sé þá opið hverfa í drullu. Það gruggaðist allt upp. Þá hugsaði ég með mér, „Hvað geri ég nú?“.“

Forsetaframbjóðandinn sá svo annað minna op í hellinum og ákvað að sjá hvort hann sæi ljós þaðan, sem reyndist ekki vera. „Þá sá ég að þetta er eins svart og svart verður.“ Ákvað Eiríkur þá að betra væri að reyna frekar að finna aftur opið sem hann kom inn um. Byrjaði hann á því að leita með höndunum að opinu enda sá hann lítið annað en grugg. „En ég er ekkert að finna þetta. Og þá fer pumpan af stað og adrenalínið þannig að maður var orðinn hræddur. Þá hugsaði ég með mér „Heyrðu, ég ætla að bakka núna og róa mig“. Þegar maður er í kafi, þá er að reyna á svo mörg skynfæri hjá þér að maður er fljótur að missa áttir.“

Segist Eiríkur hafa beðið til Guðs um að komast út aftur og lofaði að gera þetta ekki aftur. Þegar hann var búinn að róa sig ákveður hann að leita í annað sinn að opinu. Þá hafði félagi hans tekið eftir bjarmanum frá ljósi Eiríks í fyrri leitinni og beðið hinum megin eftir að sjá ljósið aftur. „Svo næst verð ég var við að allt í einu birtist þessi hendi fyrir framan mig og ég gríp í hana. Þá var hann hinum megin í gjótunni að teygja sig eins langt og hann getur inn. Þannig að ég gríp í hann og ég er ekki að grínast, að þegar ég greip utan um höndina á honum, kom svona fjúff yfir mig,“ sagði Eiríkur og sýndi með handbragði hvernig sælutilfinning þeyttist yfir hann. „Þetta er í lagi, þetta bjargast“.

Sjá má viðtalið í heild sinni hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni