Mikil umræða hefur verið undanfarna mánuði í íslensku samfélagi um skaðaminnkandi lyfjameðferðir en þær hafa verið umdeildar og lítið notaðar á Íslandi. Elsa Kristín Sigurðardóttir hjúkrunarfræðingur skrifaði pistil um málið í gær.
„Skaðinn sem fíknivandi veldur er sjaldnast bara líkamlegur. Ef svo væri myndu mínir skjólstæðingar og þeirra fjölskyldur líklega ná bata mun fyrr. Fíknisjúkdómurinn tekur yfir líf fólks og öll samskipti þess. Þessi sjúkdómur umturnar öllum fjölskyldum og skilur eftir sig heldjúp sár þar sem erfitt er að finna vonina. Oftast þurfa margir þættir að koma saman þegar einstaklingur veikist af fíknisjúkdómi og að sama skapi er bataferlið flókið. Það krefst þess að margir þættir virki saman og á réttum tíma,“ skrifaði hún í pistlinum sem birtist á Vísi.
„Leiðin sem Árni Tómas læknir hefur boðið upp á fyrir þá sem að hafa marg- og fullreynt allar aðrar leiðir hefur veitt fólki með fjölþættan og alvarlegan vímuefnavanda frelsi til að ná andanum og byrja að vinna í sínum bata. Oft eru fyrstu og stærstu skrefin í þeim bata félagsleg og það að ná stjórn á aðstæðum sínum. Þetta eru ekki nákvæmlega sömu lyf og flestar aðrar stofnanir bjóða upp á en þetta eru allt keimlík efni. Stóri munurinn er að meðferðin sem Árni veitir bíður skjólstæðingnum upp á að stýra sinni meðferð að einhverju leyti sjálfum, velja lyf sem henta þeim best og taka á þeim tíma sem gagnast best,“ en Árni Tómas Ragnarsson má ekki lengur skrifa út lyf fyrir sjúklinga eftir að landlæknir svipti hann læknaleyfi hans að hluta í desember á seinasta ári.
„Mín von er sú að hlustað verði á þá sem þekkja til – einstaklingana sem hafa reynslu af meðferðinni og þverfaglegu vettvangsstarfsmennina sem sjá árangurinn, frelsið og lífsgæðabætinguna hjá fólki sem glímir við fíknivanda,“ skrifaði Elsa að lokum.