Um tuttugu Rússar söfnuðust saman við minnismerkið Von í Fossvogskirkjugarði og minntust ættingja sem féllu í seinni heimstyrjöldinni. Í dag er Sigurdagurinn mikli í Rússlandi þar sem fólk fer í minningarmessu til minningar um fallna ættingja úr stríðinu.
Nokkrar konur mættu og stóðu skammt frá með mótmælaspjöld gegn innrás Rússa í Úkraínu. Veittust nokkrir Rússar að mótmælendunum með orðum.
Timur Timofey Zolotuskiy, prestur rétttrúnaðarkirkjunnar á Íslandi fór með bænir og söng með viðstöddum. Lögreglan var áberandi á svæðinu en boðað hafði verið til mótmæla í kirkjugarðinum í skyndi og því búist við nokkrum fjölda. Aðeins fjórar konur sáu sér fært að mæta með svo stuttum fyrirvara en þær stóðu þögular á bílastæðinu með mótmælaskilti í hönd. Er fólk tók að týnast úr minningarmessunni létu sum þeirra í ljós skoðun sína á mótmælendunum. „Sjá þessa fjóra aumingja! Við erum massi en sjá ykkur!“ sagði ein rússnesk kona sem gekk framhjá þeim. Svöruðu konurnar ekki en lyftu þess í stað skiltunum hærra.
Vaninn er að sendiherra Rússlands á Íslandi mæti á þessa samkomu ásamt prestinum en að sögn lögreglunnar mætti hann eða starfsmenn sendiráðsins um klukkan 10 í morgun og stoppuðu stutt við. Hafði presturinn óskað eftir því að halda þessu aðskildu þetta árið.
Í samtali við blaðamann Mannlífs sagði ein af þeim sem mótmæltu, rússnesk kona sem búið hefur á Íslandi síðustu 15 árin að „að halda upp á þennan dag hátíðlegan í Rússlandi í dag, við þessar ástæður, er eins og að hrækja framan í fortíð, nútíð og framtíð landanna tveggja. Fortíð, af því að stríðið í Úkraínu svifti hetjur seinni heimsstyrjladar, Rússa og Úkraínumenn sem börðust hlið við hlið, þeirra heiður með því að eyðileggja allt sem þeir áorkuðu. Nútíð af því að hver dagur fyrir venjulegt fólk bæði í Úkraínu og Rússlandi fer meira og meira að líkjast martröð. Framtíð, af því að sársauki og hatur mun fylgja næstu kynslóðum bræðraþjóðanna beggja í marga áratugi.“