Föstudagur 13. september, 2024
2.8 C
Reykjavik

Föst í ofbeldissambandi: „Klukkutíma síðar rankaði ég við mér á gólfinu sem var þakið blóði“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ég var ung þegar ég kynntist honum. Reynsla mín af ástarsamböndum var lítil sem engin, en fátt þráði ég heitar en að vera elskuð, eitthvað sem ég upplifði ekki í æsku. Við kynntumst á bar í miðbæ Reykjavíkur á bjartri sumarnóttu. Augu okkar mættust og þá var ekki aftur snúið. Hann var talsvert ölvaður, en ég kippti mér lítið upp við það enda var drykkja stór partur af íslensku skemmtanalífi. Við skiptumst á númerum og ákváðum að hittast næsta dag á kaffihúsi. Uppáklæddur í gallabuxum og skyrtu þótti mér hann enn myndarlegri en kvöldið áður. Eftir fyrsta stefnumótið vorum við óaðskiljanleg. Ég var yfir mig ástfangin og taldi hann vera það líka. Þegar ég lít til baka sé ég þó að þessi maður var ekki fær um að finna neina ást, í sál hans var eintómt hatur. Fyrst um sinn var hann hinn fullkomni maki, færði mér kaffi í rúmið alla morgna og blóm á hverjum sunnudegi. Tveimur mánuðum eftir fyrstu kynni okkar var ég flutt inn í litlu kjallaraíbúðina hans, foreldrum mínum til mikillar ánægju. Þau höfðu oft talað um að nú væri kominn tími til þess að ég flytti að heiman og sæi um mig sjálf. Þau höfðu miklar mætur á nýja sambýlismanni mínum sem lagði sig allan fram við að ganga í augun á þeim. Stuttu eftir flutningana komst ég að því að ég var ófrísk. Þrátt fyrir stutt samband höfðum við talað með stjörnubjörtum augum um fjölskylduna sem við vildum eignast saman. Börnin, hundinn og húsið.

Ég beið spennt með jákvætt þungunarprófið í höndunum eftir manninum mínum sem var á leið heim úr vinnu. Himinlifandi sýndi ég honum niðurstöðuna, það var þá sem hann sló mig fyrst. Mér var svo brugðið að ég meðtók lítið af öskrunum í honum. Hann vildi vita hvernig ég gat látið þetta gerast. Hann rauk út og ég lá eftir á baðherbergisgólfinu, ískaldar flísarnar voru eina merkið um að ekki væri um vondan draum að ræða. Maðurinn sem ég dýrkaði og dáði hafði gengið í skrokk á mér. Ég var fljót að fyrirgefa honum verknaðinn þegar hann kom til baka með rósir og nammipoka, lofaði öllu fögru og afsakaði sig með því að mikið álag væri á honum í vinnunni. Hann varð þó aldrei aftur sami maðurinn og ég kynntist. Mánuðirnir liðu og ófætt barnið okkar stækkaði. Stundum var hann spenntur að verða faðir, en oft var hann reiður og kenndi mér um þessi örlög. Hann drakk sig fullan marga daga í viku, þá varð hann ofbeldisfullur og virtist ganga lengra með hverju skiptinu. Undir lok meðgöngunnar varð hann mér næstum að bana, sparkaði í mig og lamdi ítrekað. Ég öskraði og grét, en það hafði ekkert að segja. Klukkutíma síðar rankaði ég við mér á gólfinu sem var þakið blóði. Andlit mitt var óþekkjanlegt í speglinum, bólgið og marið. Ég læddist fram þar sem maðurinn minn svaf værum svefni með bjórdósirnar allt í kringum sig. Ófætt barnið okkar sparkaði af krafti og ég andaði léttar. Ef ég færi á sjúkrahús yrði hann æfur, enginn mátti vita af ofbeldinu. Ég skreið því upp í rúm, grét og lofaði litla barninu mínu að koma okkur í burtu frá þessum manni.

Daginn eftir lék hann sama leikrit og vanalega. Blóm og morgunmatur í rúmið ásamt örvæntingarfullum loforðum og afsökunarbeiðnum. Mér brá þegar hann sagðist ætla í meðferð. Aldrei hafði mér dottið til hugar að maðurinn myndi nokkurn tímann hætta að drekka. Kannski var það áfengið sem gerði hann að þessu skrímsli? Ég gat ekki gefist upp ef hann yrði aftur að manninum sem hann var í upphafi sambandsins, manninum sem ég elskaði svo heitt. Viku síðar var hann kominn inn á Vog og sama dag fór ég af stað í fæðingu og átti dóttur okkar. Allt virtist ganga á besta veg. Við töluðum daglega saman í síma og hann dembdi yfir mig ástarorðum og loforðum. Eftir mánuð í meðferð kom maðurinn minn heim. Í fyrstu sýndi hann dóttur sinni mikinn áhuga, en með hverjum deginum dvínaði áhuginn. Loks fór hann aftur að drekka og lýsti andúð sinni á mér og dóttur okkar. Það leið ekki að löngu þar til að hann gekk í skrokk á mér aftur. Örvæntingin greip mig, ég vissi að ég gæti ekki boðið dóttur minni upp á þetta. Ekki hafði ég þó minnstu hugmynd um hvert ég gæti farið. Ég átti í engin önnur hús að venda og átti ekki krónu. Maðurinn minn skammtaði mér vasapening, honum þótti ég of eyðslusöm og sagði að ekki væri hægt að treysta mér fyrir peningum. Þegar ég var í þann mund að sætta mig við hræðileg örlög mín fékk ég skilaboð á Facebook og hjartað í mér sökk. Sendandinn var ung kona, hún virtist illa farin á myndum. Hún tjáði mér að hún hefði átt í kynferðislegu sambandi við manninn minn á Vogi, nýlega hefði hún greinst með kynsjúkdóm og bæri skylda til þess að láta bólfélaga sína vita. Maðurinn minn hafði alla tíð verið lítið á samfélagsmiðlum og konan fann enga leið til þess að ná í hann. Ég starði stjörf á tölvuskjáinn og las skilaboðin aftur og aftur. Ég spurði konuna hvernig hún vissi af mér og hún tjáði mér að maðurinn minn hefði talað mikið um mig á Vogi, sýnt samsjúklingum myndir af mér og dóttur okkar á milli þess sem hann læddist inn í herbergi með hinum ýmsu konum. Ég gat ekki lengur kennt áfenginu um kvikindisskapinn.

Það var þennan dag sem ég pakkaði nauðsynjum niður í tösku fyrir mig og dóttur mína og hélt beina leið í Kvennaathvarfið. Stuttu síðar greindist ég með tvo kynsjúkdóma. Ég byggði mér hægt og rólega upp nýtt líf og dóttir mín hefur ekki séð né heyrt frá föður sínum síðan. Nú tíu árum síðar birtist hann enn reglulega í lífi mínu með skilaboðum á samfélagsmiðlum, þrátt fyrir nálgunarbann. Hann mun þó aldrei fá tækifæri til að meiða mig aftur.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -