Miðvikudagur 17. apríl, 2024
5.1 C
Reykjavik

Lífsreynslusaga Mannlífs: Litla dóttir mín fékk heilahimnubólgu og var hætt að þekkja mig

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eftir að foreldrar mínir skildu ákvað mamma að flytja með okkur systur út á land. Í kaupstaðnum bjó einnig æskuvinkona hennar sem átti tvær dætur. Þá eldri átti að gera að vinkonu minni og yngri að vinkonu systur minnar.

Ég skynjaði þó fljótt að eitthvað illt leyndist í þeirri systur sem mér var ætluð og við urðum aldrei vinkonur. Mörgum árum seinna lágu leiðir okkar saman og ég áttaði mig á að hún hafði ekkert breyst.

Mamma og Guðrún vinkona hennar höfðu ekki verið í miklu sambandi síðustu árin, eðlilega kannski, báðar að stofna fjölskyldu og bjuggu hvor í sínu bæjarfélagi. Það breyttist eitthvað smávegis eftir að við fluttum í kaupstaðinn, heimabæ mannsins hennar Guðrúnar, en þær urðu samt ekki jafngóðar vinkonur og áður.

Mamma var með góða menntun og fékk því fína vinnu. Mér og systur minni gekk ágætlega að aðlagast á nýja staðnum og við eignuðumst fljótlega góðar vinkonur.

Óttaðist allar gamlar konur

Eldri dóttir Guðrúnar, Stína, var ári eldri en ég og frá því ég hitti hana fyrst líkaði mér illa við hana. Hún sagði mér hræðilegar sögur um eldri konu sem bjó á staðnum og rændi börnum og gerði þeim eitthvað hræðilegt. Óttinn við þessa konu eyðilagði fyrir mér fyrsta sumarið. Ég var að verða sjö ára og hafði verið blessunarlega laus við að það væri logið að mér og trúði því sem hún sagði.

- Auglýsing -

Til öryggis forðaðist ég allar gamlar konur og ég man eftir að mamma gat orðið mjög pirruð, hún hafði kannski sent mig út í búð eftir eggjum sem ég síðan braut á flótta mínum undan sárasaklausum gömlum konum … Fyndið eftir á en ég gleymi samt aldrei ótta mínum og hversu sár og reið ég varð þegar ég uppgötvaði að hún var bara að ljúga að mér. Þegar ég byrjaði í skólanum og kynntist öðrum krökkum sem höfðu lent í henni kom hið sanna í ljós. Ég man eftir að hafa séð Stínu brosa illgirnislega þegar henni tókst að hræða mig en skildi aldrei hvernig hægt var að hafa gaman af því að gera aðra krakka hrædda.

Gerði æsku systur sinnar að martröð

Hún reyndi ekki bara að blekkja mig og fleiri krakka með ljótum sögum, heldur var yngri systir hennar, Anna, hentugt fórnarlamb, viðkvæm og trúgjörn stelpa. Ég held að ég ýki ekkert þótt ég segi að henni hafi tekist að gera æsku hennar að algjörri martröð. Anna varð algjör væluskjóða og klagaði allt og alla sem gerði hana að óvinsælum krakka. Hún reyndi að segja frá ljótum lygum systurinnar en Stína var svo lúmsk að aumingja Önnu var aldrei trúað. Hún var bara skömmuð fyrir að klaga. Stína var alltaf sakleysið uppmálað, hún stóð sig vel í skólanum og var í uppáhaldi hjá kennaranum. Enginn fullorðinn sá í gegnum hana.

- Auglýsing -

Ég man að mamma og Guðrún reyndu einnig að fá systur mína og Önnu til að verða vinkonur því þær voru nálægt hvor annarri í aldri eins og við Stína, en það tókst ekki heldur, sennilega af því að Anna fór í taugarnar á systur minni, og flestum öðrum.

Við neyddumst til að umgangast systurnar minnst fjórum sinnum á ári, eða í afmælunum okkar. Mér fannst reyndar mikið tilhlökkunarefni að fara í afmælin hjá Önnu og Stínu, ekki vegna hallærislegu leikjanna, heldur voru kökurnar sem Guðrún bakaði ofboðslega góðar, þær bestu sem ég fékk. Mamma hafði pylsupartí í afmælum okkar systra sem var líka gaman en ég hefði frekar viljað tertur.

Undarleg þessi tryggð barna, aldrei sagði ég mömmu sannleikann þótt hún segði oft við mig að hún vildi að ég væri eins og Stína, sem væri alltaf svo góð við Önnu systur sína, annað en ég við yngri systur mína. Vissulega rifumst við systur en stóðum samt alltaf saman og erum afar nánar. Í raun hef ég aldrei sagt mömmu frá illgirni Stínu í garð systur sinnar og held að foreldrar systranna hafi heldur ekki vitað neitt.

Ég man vel eftir hvað allir fullorðnir elskuðu þessa fallegu stúlku með heiðríkjusvipinn. Ef einhver hefði reynt að klaga hana hefði viðkomandi verið talinn öfundsjúkur lygari. Stína laug Önnu fulla af alls kyns bulli og gerði hana meðal annars mjög myrkfælna.

Einu sinni tóku foreldrar Önnu og Stínu systur mína á eintal og spurðu hana af hverju hún vildi aldrei leika við Önnu. Systir mín sagði hreinskilnislega: „Hún er svo leiðinleg, alltaf að klaga.“

„Ég man vel eftir hvað allir fullorðnir elskuðu þessa fallegu stúlku með heiðríkjusvipinn. Ef einhver hefði reynt að klaga hana hefði viðkomandi verið talinn öfundsjúkur lygari.“

Á síðustu stundu

Þegar við systur vorum á unglingsaldri fluttum við aftur til Reykjavíkur. Mér varð einhvern veginn aldrei hugsað neitt sérstaklega til þeirra systra, hreinlega gleymdi að þær væru til. Mamma giftist aftur frábærum manni og lífið breyttist heilmikið.

Ég var ung þegar ég kynntist manninum mínum og án þess að við ætluðum okkur það varð ég ólétt, á síðasta ári í menntaskóla. Maðurinn minn er nokkrum árum eldri og var kominn í Háskólann.

Dóttir okkar var tæplega þriggja ára þegar hún veiktist skyndilega. Vinkona mömmu hafði misst yngsta barn sitt úr heilahimnubólgu og mamma hafði varað mig við, kennt mér að þekkja einkennin. Hún og stjúpi minn voru á ferðalagi úti á landi og engir farsímar á þessum tíma. Kærasti minn var erlendis og mér fannst liggja meira á því að fá læknishjálp fyrir barnið okkar en að reyna að ná í hann, systir mín var búsett á landsbyggðinni með kærastanum svo ég var alein í þessu og gat ekki treyst á neinn nema sjálfa mig.

Mér fannst dóttir mín vera hnakkastíf áður en ég gaf henni hitalækkandi stíl sem hjúkrunarfræðingur ráðlagði mér í gegnum síma, nei, ég þyrfti ekki að koma. Það var einmitt lýsing mömmu á heilahimnubólgu svo ég ákvað að mæta samt.

Við stílinn hresstist hún mikið og hljóp um allt þegar ég var mætt upp á spítala með hana. Það átti að snúa okkur við en ég hreinlega neitaði að fara nema læknir skoðaði hana, allt vegna orða mömmu.

Með semingi var kallað á barnalækni og það var gæfa okkar að hitta lækni sem trúði áhyggjufullum mæðrum, eins og hann orðaði það sjálfur. Ég viðraði ótta minn um að þetta gæri verið heilahimnubólga. Læknirinn fann tvö pínulítil, nánast ósýnileg útbrot á líkama hennar og lét leggja hana inn vegna þeirra. Tekin var blóðprufa og send í rannsókn.

Dóttir mín varð fárveik skömmu seinna, með heilahimnubólgu. Ég var send fram þegar hún var hætt að þekkja mig og ráðlagt að fara heim. Læknirinn sagðist halda að hún myndi lifa af, ekki hefði þó mátt miklu muna. Hefði ég hlýtt og farið heim, hefði hún örugglega dáið. Ég var í algjöru losti þegar ég fór fram á gang.

„Þegar ég fór að jafna mig sá ég að hún horfði á mig með hálfgerðum viðbjóði. Hún virtist algjörlega ósnortin af örvæntingu minni, reyndi ekki á nokkurn hátt að hugga mig eða hughreysta …“  

Endurfundir

Fyrsta manneskjan sem ég sá frammi var Stína, gamla ekki-vinkona mín. Hún heilsaði mér, sagðist vera hjúkrunarnemi og starfa tímabundið á þessari deild. Ég reyndi að segja henni frá veikindum dóttur minnar en brotnaði niður. Deildarstjórinn kom aðvífandi og sagði Stínu að fara með mig inn í býtibúr þar sem við settumst niður. Ég hágrét og var í algjöru áfalli. Þegar ég fór að jafna mig sá ég að hún horfði á mig með hálfgerðum viðbjóði. Hún virtist algjörlega ósnortin af örvæntingu minni, reyndi ekkert til að hugga mig eða hughreysta, hvorki með því að klappa mér á öxlina né segja eitthvað hughreystandi. Hún minnti mig á vélmenni og þótt dóttir mín væri mér efst í huga hugsaði ég samt með hryllingi til væntanlegra sjúklinga hennar. Ég píndi mig til að hætta að gráta, kvaddi og dreif mig heim, þakkaði henni samt kærlega fyrir hjálpina en hún skildi ekki kaldhæðnina. Það var ekki beint hvað hún gerði eða gerði ekki, heldur fékk ég afar slæma tilfinningu fyrir henni og ég þyki mjög góður mannþekkjari.

Dóttir mín lifði af og ég þakka það fyrst og fremst ákveðni minni, frábærum barnalækni og viðvörunum mömmu.

Það eru ekkert voðalega mörg ár síðan ég rakst á mynd af Önnu á Facebook og sendi henni vinarbeiðni sem hún samþykkti strax. Ég prófaði skömmu seinna að leita að Stínu fyrir forvitnissakir. Hún var með lokaða síðu.

Mér til ánægju virðist Anna hafa skapað sér gott líf. Hún á gæðalegan mann og þrjú börn og það er ekkert sem minnir á væluskjóðuna sem hún var. Ég vildi óska þess að ég hefði haft þá reynslu og þroska sem ég bý yfir í dag og getað hjálpað henni gegn Stínu. Þær systur eru ekki vinir á Facebook sem gæti táknað að Anna hafi væntanlega öðlast kjark sjálf til að losa sig við systur sína.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -