Föstudagur 19. apríl, 2024
0.1 C
Reykjavik

Frásögn barþjóns af kynferðislegri áreitni á þorrablóti: „Ómerkilegt atvik sem kannski má læra af“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -
„Saga af kynferðislegri áreitni á barnum: ómerkilegt atvik sem kannski má læra af.

Þorrablótið var alveg frábært! Ég vil bara byrja á því að taka fram að ég deili þessu alls ekki til þess að kasta nokkurri rýrð á þennan geggjaða viðburð. Það er bara þannig að þegar margir koma saman eru yfirleitt einhverjir sem haga sér eins og fávitar. Þjóðhátíð í Eyjum hefur t.d. mikið fengið að kenna á þessu í gegnum tíðina, en er engu að síður alveg frábær hátíð sem ég styð heilshugar.“ Svo hljóðar færsla sem kona nokkur utan af landi skrifaði á Facebook nýverið. Vill hún ekki koma fram undir nafni en gaf leyfi á birtingu færslunnar.

Í færslunni segir hún frá kynferðislegu áreitni sem hún varð fyrir um síðustu helgi en þá vann hún sem barþjónn á þorrablóti á landsbyggðinni. Tekur hún fram í færslunni að hún sé ekki að reyna að „kasta rýrð á karlkynið“ með skrifunum, heldur vilji hún með frásögninni vekja fólk, þá sérstaklega karlmenn til umhugsunar um að þessi hegðun á sér stað í kringum þá, þó þeir haldi kannski að svo sé ekki. Veltir hún fyrir sér ástæðunni fyrir þessari afleitu hegðun mannsins og kemst í raun að niðurstöðu en hún er ekki sú að hann hafi verið að „grínast“ eða reyna við sig.

„Svo vil ég líka taka fram að ég er ekki að reyna að kasta rýrð á karlkynið með þessum skrifum heldur. Ég skil alveg að margir karlmenn hafi áhyggjur af því að lenda í að vera sakaðir um eitthvað misjafnt í samskiptum sínum við konur og ég er heldur ekki þeim megin að mér finnist að þeir sem hafa brotið af sér kynferðislega gagnvart annarri manneskju eigi bara ekki að eiga afturkvæmt í mannlegt samfélag. Öll erum við breysk, klúðrum einhverju í samskiptum okkar við fólk og þeir sem sjá að sér og reyna að bæta sig eiga að fá það tekið til greina að mínu mati, allt í samræmi við aðstæður hverju sinni.

Mig langar hins vegar að deila þessu til þess að vekja vitund um það hjá fólki, já og sérstaklega karlmönnum sem þekkja mig og halda að þetta sé ekki að gerast í kringum þá, því konurnar vita þetta jú flestar nú þegar.“

Og þá hófst frásögnin af þorrablótinu.

„Þegar ég var að vinna á barnum á þorrablótinu kom til mín maður og tók að spyrja mig nærgöngulla og með öllu óviðeigandi kynferðislegra spurninga. Það sem hann sagði finnst mér ekki birtingarhæft, svo ég fer ekki nánar út í það. Ég þóttist ekki skilja hvað hann væri að spyrja um og bað hann um að útskýra nánar. Þegar maður er 42 ára er maður búinn að viða að sér ýmsum aðferðum til að díla við svonalagað, og þessi aðferð virkar yfirleitt mjög vel. Hann varð auðvitað bara mjög pirraður á mér og sneri sér að næstu konu og byrjaði að gera það sama við hana.
Var þessi gaur ekki bara að reyna við mig? Neibb. Hann sýndi mér engan áhuga, þannig séð, og gerði ekkert sem gæti opnað á einhverskonar eðlileg samskipti okkar á milli, kynferðisleg eða annarskonar. Það að karlmenn reyni við mig truflar mig ekki neitt. Ég er á því að karlmenn eigi að reyna við konur ef þeir hafa áhuga á því og við aðstæður þar sem það á við, þannig verður jú nýtt fólk meðal annars til, en þetta var ekki það.
Var hann þá ekki bara svona mikill klaufi í samskiptum? Neibb. Tiltölulega vel máli farinn og að því er virtist frekar sjálfsöruggur gaur.
Var þetta daður? Nei, alls ekki. Daður er mikið fínlegri list en þetta, meint allt öðruvísi og er skemmtilegt fyrir báða aðila. Ef þú ert að daðra við einhvern sem ekki tekur undir, þá er það ekki lengur daður.

Var hann þá ekki bara að grínast? Æi…það var þá allavega rosalega lélegt grín, og hvorki hann né ég hlógum…Þó grunar mig að ef hann ætti að svara þessum skrifum mínum, þá myndi línan „geturðu ekki tekið gríni?“ líklega koma upp. En jú, ég nefnilega get alveg tekið gríni.

 

Hvað var hann þá að gera? Hann var að reyna að slá mig út af laginu. Hann var að reyna að ná einhverskonar völdum yfir mér, þó að það væri bara í smá stund og á svona ómerkilegan hátt. Hann var að reyna að láta mér líða illa. Um það snýst málið.
Það tókst nú ekki hjá honum. Mér leið bara ágætlega og fannst hann bara asnalegur. Ég skemmti mér konunglega það sem eftir var næturinnar og þetta hefur sama sem engin áhrif á mig, en það þýðir ekki að það sé bara í góðu lagi að haga sér svona. Fólk er afskaplega misviðkvæmt fyrir svona og ef þetta hefði verið einhver önnur kona gæti þetta hafa farið mjög illa í hana.
Ástæðan fyrir því að ég deili þessu er að ég er að vonast vekja fólk aðeins til umhugsunar. Ég held líka að það sé mikilvægt að fólk viti að þó að kona sé gift tveggja barna móðir í ábyrgðarstöðu, þá getur hún samt lent í svonalögðu, þó að ég sé vissulega ekki jafn berskjölduð og ég var þegar ég var yngri, óreyndari og vann t.d. þjónustustörf. Það skal þó tekið fram að ég var þarna vissulega í hlutverki barþjóns.
Kynferðislegt ofbeldi og kynferðisleg áreitni snýst oft alls ekki um kynlíf og lélega stjórn fólks á kynhvöt sinni, heldur miklu frekar það að ná völdum yfir annarri manneskju. Þetta var algjörlega lýsandi dæmi um það, og samt nógu léttvægt til þess að flest fólk ætti að geta lesið um það án þess að fríka út, en vonandi hefur nú engum fundist þetta of óþægileg lesning.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -