Fimmtudagur 18. apríl, 2024
4.1 C
Reykjavik

Georg vill eyða fátækt með kænsku og kærleika: „Verst var að hitta mömmu í röðinni, að sjá aðra kynslóð í fátækt“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég fæ alltaf sting í hjartað þegar ég sé tætta móður með barn í eftirdragi sem er fátæklega klætt, þannig man ég líka eftir mér. Það hjálpar ekki strákalák að vera innan um ofbeldið sem fylgir alkóhólisma, þessi partý og ofbeldið sem því fylgir, andlegt, kynferðislegt og líkamlegt. Ég gat haldið fortíðinni niðri þangað til að ég var 45 ára og síðan kom þetta allt upp á yfirborðið“ segir Georg sem veiktist fyrir sjö árum. „Ég er með jafnbrautarlest inn í hausnum, kvíðaröskun, geðhvarfasýki og með þessu er ég að kljást við alkóhólisma, sem er algengur fylgifiskur með minni greiningu.“

Georg segir sögu sína á Facebook-síðunni: Við erum hér líka, huldufólkssögur úr nútímanum, en það eru hjónin Alda Lóa Leifsdóttir og Gunnar Smári Egilsson sem skrifa þar samtímasögur öryrkja á Íslandi.

Georg fær 265 þúsund krónur í örorkubætur, af þeirri upphæð borgar hann 89 þúsund í leigu á mánuði, rúmar 5 þúsund í rafmagn, 8 þúsund fyrir síma og net og um 19 þúsund krónur fyrir lyf. Georg kaupir allt í Rauðakrossbúðunum nema nærföt og sokka. Hann notar ekki bíl og heldur matarkostnaði niðri og borðar oftast eina heita máltíð hjá Samhjálp á dag. Það er lítið afgangs fyrir tannlækni eða annarri þjónustu sem fólk þarf á að halda til þess að halda virðingu sinni.

Dreginn með lögregluvaldi úr strætó

Hann hefur barist fyrir því að fá frítt í strætó, en sá kostnaður er 15% af ráðstöfunartekjum hans eftir föst útgjöld. „Ég var lengst af í sambandi við við Heiðu Björg Hilmisdóttur þegar hún var í stjórn Strætós. Við ræddum þetta fram og aftur, en niðurstaðan var sú að það væri svo flókið að öryrkjar fengu frítt í strætó,“ segir hann en þrisvar hefur hann verið tekinn með lögregluvaldi úr strætó eftir að hafa neitað að borga.

„Lögreglan kom og ég var dreginn út en hvað gat hún gert við 50 ára gamlan karl sem lagðist á gólfið í strætó, hver gerir svoleiðis á Íslandi? Löggan var hálf ráðalaus þegar ég sagði þeim að ég væri þreyttur og svangur, sem var staðreyndin.“

- Auglýsing -

Verst að hitta mömmu í röðinni

Georg vann lengst af sem sendibílstjóri á eigin bíl með fasta viðskiptavini eins og Mæðrastyrksnefnd og Fiskbúð Hafliða, eftir að hann var rekinn þaðan, hrakaði heilsu hans verulega. Kvíðinn jókst og drykkja og vanlíðan tók yfir og hann átti erfitt með að koma sér að verki. Eftir að hafa ráðið sig í öskuna og verið þar með mannaforráð, en misst þá vinnu líka vegna alkóhólismans fór Georg á sveitina eins og hann kallar það. Á fundi í Efstaleiti var honum bent á staði til að leita sér aðstoðar: Mæðrastyrksnefnd, Samhjálp og Kirkjan. „Mér leið eins og það væri að líða yfir mig, ég missti allan mátt eins og ég væri sokkinn ofan í hyldýpi.“

„Ég þekkti Mæðrastyrksnefnd frá þeim tíma sem ég var að keyra út. Samtökin voru minn viðskiptavinur og ég þekkti vel til starfseminnar. Þarna kemur flóttafólk, öryrkjar, gamalt fólk, alkóhólistar með geðsjúkdóma eins og ég. Fólkið utan samfélagsins og af mismunandi ástæðum sem getur ekki fótað sig innan þess. Það er rík hefð fyrir því að festast í röðinni hjá Mærðrastyrksnefnd og það versta er að það venst. Langflestir sem fara inn á þetta koma ekki aftur út. Verst var að hitta mömmu í röðinni, að sjá aðra kynslóð í fátækt. Það var eins og að vera í Englandi, þar sem fátæktin erfist frá kynslóð til næstu kynslóðar.“

- Auglýsing -

Georg var fárveikur af alkóhólisma, kvíða og þunglyndi og náði sér aldrei upp í eðlilega líðan. Eftir þrjú ár ár stakk ráðgjafinn upp á því við Georg að hann færi á örorku. „Ég var svo hissa, af hverju var ég ekki settur strax á örorku? En ég fékk mjög góðan félagsráðgjafa sem kenndi mér að semja og forgangsraða. Hann kenndi mér að borga hita og rafmagn og síðan að semja við Modus, en ég var komin í skuld við Félagsbústaði sem er í mjög góðu samstarfi við Modus. Ég fékk meira að segja borgað aftur í tímann sem var glópalán en ég hafði vit á því að sækja um það og í kjölfarið gat ég borgað skuldina við Reykjavíkurborg og gefið börnum mínum aur, ég fór í Bónus og keypti allt sem mig langaði fyrir 19 þúsund krónur. En svo var veislan búin og ég átti eftir að borga skatta af þessu.“

Gjörningur á Hlemmi vakti mikla athygli

Georg skráði sig í Myndlistarskóla Reykjavíkur í miðjum veikindum og kláraði skólann. Gjörningur sem hann hélt inn á Mathöllinni á Hlemmi þar sem hann bað um orðið og hélt ræðu um fátækt á Íslandi er enn hans þekktasta verk. Gjörningurinn var tekinn upp og fór á netið og er með tæp 58.000 áhorf. Þarna stóð hann í fyrrverandi strætóskýli sem hafði verið umbreytt í matsölustað fyrir hina betur settu og honum og öðrum sem hafa beðið eftir strætó í tugi ára hefur verið úthýst.

Ætlar að eyða fátækt

Georg er með plan, hann ætlar að breyta heiminum og eyða fátækt með kænsku og kærleika.

„Ég er að vona að ég verði edrú alltaf það sem eftir er. Ég hef fundið takt í líf mitt sem er taktur kærustunnar minnar og hún er frá austur Evrópu og kann að lifa spart. Ég er hrikalega skotinn í henni. Ég var lengi skotinn í henni úr fjarlægð en hún tók ekki eftir mér fyrr en ég klippti mig. Ég hef gefið listagyðjunni líf mitt og ætla að halda áfram að gera list sem hefur pólitískan tilgang. Ég er í dauðafæri að búa til fallegt líf, en ég má ekki drekka.“

Sögu Georgs má lesa í heild sinni á Facebook-síðu: Við erum hér líka.

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -