Mánudagur 20. maí, 2024
7.8 C
Reykjavik

Grétar segir íbúa Laugardals svikna: „Vanvirðing borgaryfirvalda við hverfið“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eins og Mannlíf fjallaði um í gær hefur Reykjavíkurborg breytt áætlun sinni um uppbyggingu skólastarfs í Laugardalnum sem samþykkt var árið 2022 eftir ítarlegt samráð fyrir íbúa og skólastjórnendur hverfisins. Upprunalega samþykktin snérist um að skólastarf í Laugarnesskóla, Laugalækjarskóla og Langholtsskóla myndi að mestu leyti haldast óbreytt en byggt yrði við skólanna til að mæta auknum þörfum og fjölda nemenda.

Í fyrradag var samþykkt á fundi skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar að hætta við þá áætlun og byggja frekar nýjan safnskóla í Laugardalnum og yrðu því skólarnir þrír aðeins ætlaðir fyrir nemendur í 1. – 7. bekk en var þetta ákveðið án samráðs við íbúa og skólastjórnendur og kom í ljós að skólastjórnendur vissu ekki að málið væri yfirhöfuð í endurskoðun.

Grétar Már Axelsson, fulltrúi foreldrafélag í íbúaráði Laugardals, segir borgina svíkja íbúa Laugardals í pistli sem hann birti á Vísi í dag.

Reykjavíkurborg hyggst ganga á bak eigin loforða um að framtíðaruppbygging skólastarfs í Laugardal verði á grundvelli farsælu skólanna okkar og óbreyttum hverfisbrag. Þegar borgaryfirvöld ákváðu á haustmánuðum 2022 að ganga í takt með íbúum hverfisins fögnuðu fulltrúar meirihlutans eftir „þverpólitískt samráð við hagaðila, stjórnendur, starfsmenn, foreldra og börn“. Í kjölfarið hafa borgaryfirvöld dregið íbúa hverfisins á asnaeyrum í tæp tvö ár á meðan þeir biðu eftir framgangi mála. Ítrekuðum óskum um upplýsingar varðandi stöðu og þróun mála var mætt með ærandi þögn,“ og skrifar Grétar að þessi u-beygja borgarinnar sé ísköld gusa og þvert á allt samráð sem staðið hefur verið fyrir.

„Borgin hefur vanhirt að viðhalda húsnæði skólanna um áratuga skeið. Stefna sem er algjörlega gjaldþrota. Börnin okkar og starfsmenn skólanna þurfa að sækja nám og vinnu í heilsuspillandi húsnæði. Svör um endurbætur og viðgerðir eru þokukennd og óáþreifanleg. Það er hægt að gera svo margfalt betur,“ heldur Grétar áfram.

Breyttar forsendur eru aðalástæða fyrir stefnubreytingu borgarinnar en gefur Grétar lítið fyrir þá afsökun og segir að það sé æpandi skortur á heildstæðri áætlun.

„Það er morgunljóst að borgaryfirvöld ætluðu aldrei að framkvæma neitt af því sem ákveðið hafði verið, ekkert hefur verið gert til að undirbúa framkvæmdir. Borgaryfirvöld eru grímulaust að snúa baki við óskum íbúanna og henda öllu samráði út í veður og vind. Svikin eru stór og vonbrigðin eru mikil. Samtal borgarinnar við íbúa Laugardals er brotið, vantraustið verðskuldað og vanvirðing borgaryfirvalda við hverfið áþreifanleg,“ skrifar Grétar að lokum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -