Föstudagur 26. apríl, 2024
5.1 C
Reykjavik

Guðrún Katrín og Sæmundur komu að syni sínum látnum: „Ég hef aldrei séð neinn svona veikan“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hjónin Guðrún Katrín Sandholt og Sæmundur Steindór Magnússon upplifðu verstu martröð flestra foreldra þegar sonur þeirra, Magnús Andri, lést í febrúar síðastliðnum aðeins 19 ára gamall. Hann glímdi við fíknisjúkdóm og þráði að ná bata en meðferðarúrræði eru fá og biðlistar langir. Foreldrar Magnúsar gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til þess að fá aðstoð fyrir son sinn. Þau vilja nú vekja athygli á vanþekkingu stjórnvalda á fíknisjúkdómnum og skelfilegum afleiðingum ópíóíðafíknar.

„Magnús var frá byrjun stórgáfaður, flottur, hress – mjög hress – og skemmtilegur strákur. Afskaplega blíður og góður, en fékk því miður þennan fíknisjúkdóm,“ segir Guðrún.

Samband Magnúsar og foreldra hans var sterkt, hann stóð sig vel í námi og sinnti mörgum áhugamálum. Lífið virtist leika við hann þar til fíkniefnin tóku yfir.

„Í kringum 14 til 15 ára aldurinn fórum við að taka eftir því að eitthvað var í gangi, en það varð aldrei neitt alvarlegt fyrr en síðustu tvö ár lífs hans. Þetta þróaðist út í þessa ópíóíða. Þetta byrjaði með fikti, eins og hjá mjög mörgum unglingum, bara að prófa eitthvað. Plan hans var líklega ekki þetta. Hann var bara að prófa.“

Magnús Andri var bráðgáfaður og vinmargur.

Magnús byrjaði í kannabisneyslu, en líkt og margir aðrir taldi hann efnið ekki vera skaðlegt. Sjúkdómurinn þróaðist hratt, Magnús leiddist út í neyslu ópíóíða. Mánuði áður en hann lést var hann kominn með viljann til þess að takast á við vandamálið, en hjálpina var erfitt að fá.

„Maður sá breytingar á honum. Hann var mjög opinskár við mig um hvaða neysla væri í gangi. Ég var sú sem hringdi á meðferðarstofnanir, pantaði fyrir hann á Vogi og var stanslaust með honum í þessu. Það var fyrst núna í janúar sem hann vildi virkilega fara í meðferð og þá langvarandi meðferð. Tíu dagar inni á Vogi, að koma úr ópíóíðafíkn, eru ekki neitt. Maður sá hvað þetta var orðið mikið svartnætti,“ segir Guðrún.

- Auglýsing -
Systkinin Magnús Andri, María Margrét og Jón Davíð.

Hjónin sáu miklar breytingar á syni sínum síðustu tvo mánuðina sem hann lifði en úrræði fyrir þá sem glíma við ópíóíðafíkn voru ekki til staðar.

„Síðustu þrír mánuðirnir í hans lífi voru honum auðvitað töluvert erfiðir, en hins vegar var hann kominn á þann stað að hann vildi leita sér lækningar.“

Grátbað um að fá að vera lengur inni á fíknigeðdeild

- Auglýsing -

„Hann var inni á fíknigeðdeild og óskaði þess að vera lengur. Hann grátbað um að fá að vera lengur.“

„hann gat ekki bara farið heim og gert þetta sjálfur“

Magnús var inni á fíknigeðdeild Landspítalans í um tvær vikur. Upphaflega átti að útskrifa hann á föstudegi, en ákveðið var að leyfa honum að vera til mánudags. Magnús lést rúmri viku síðar.

„Hann var ekki nógu geðveikur til þess að vera þarna inni. Ég hef aldrei séð neinn svona veikan, í svitakófi, ískalt, grátandi, í fráhvörfum.“

Guðrún hafði samband við hjúkrunarfræðing á geðdeild sem sagði henni að Magnús yrði inniliggjandi eins lengi og þörf væri. „Það kom okkur rosalega á óvart þegar honum var hent út. Hann var í fjóra eða fimm daga, hann var svo einn dag á Vogi og svo í rúma viku inni á fíknigeðdeild.“

Feðgarnir Sæmundur og Magnús.

Magnús hafði farið fjórum sinnum inn á Vog og í meðferð á Vík. Það dugði þó ekki til í baráttunni við ópíóíða, Magnús þurfti langtímameðferð, en þar eru biðlistarnir langir. Hann réð ekki við ástandið.

„Það var ekkert og er ekkert fyrir þessa ungu krakka sem eru í þessu. Þau geta farið á Hlaðgerðarkot, við reyndum að koma honum þar inn. Neyslan var orðin þannig að hann gat ekki bara farið heim og gert þetta sjálfur.“

Hjónin gagnrýna úrræðaleysi stjórnvalda og segja fíknisjúkdóminn ekki vera í sama flokki og aðra sjúkdóma.

„Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin skilgreinir þetta sem fíknisjúkdóm. Sem íslenskt samfélag höfum við aðra sjúkdóma eins og sykursýki tvö, sem er áunninn sjúkdómur. Einstaklingurinn hefur gert eða ekki gert einhverja hluti sem hafa orðið til þess að hann er veikur. Hann fær alla sína ævi stöðuga, langvarandi meðferð.“

Raunin er ekki sú hjá þeim sem þjást af fíknisjúkdómi eins og skýrt er í sögu Magnúsar.

„Þó að það hafi ekki tekist að lækna hann í fyrsta skiptið, þá er ekki þar með sagt að hann sé vonlaus.“

Guðrún barðist lengi fyrir réttindum sonar síns og hefur aldrei skammast sín fyrir veikindi hans. Hún segir réttindi hennar hafa verið takmörkuð eftir að hann varð 18 ára og litla hjálp að fá.

„Ég hef alltaf verið mjög opin með það að ég á barn með fíknisjúkdóm og hef aldrei skammast mín fyrir það, en hann skammaðist sín. Hann vildi ekki að ömmur sínar og afar vissu að hann væri svona veikur. Fíknisjúkdómur er eins og hver annar sjúkdómur nema það er bara erfitt að fá hjálp. Ég skráði mig í fíkni- og ráðgjafarskólann til þess að ég gæti lært hvernig ég gæti hjálpað barninu mínu.“

 

Fordómar enn ríkjandi

„Það eru auðvitað fordómar í samfélaginu. Það væru ekki svona mörg ungmenni að fara úr þessum sjúkdómi án þess að það veki neina eftirtekt eða viðbrögð hjá landlæknisembættinu ef að það væru ekki fordómar gagnvart þessum sjúkdómi. Heilbrigðisráðherra talar um þá sem eru með fíknisjúkdóm sem fólk á misjöfnum stað. Það sýnir hvaða augum hann lítur þennan málaflokk.“

Hjónin vilja segja sögu sonar síns til að aðrir þurfi ekki að ganga í gegnum sömu sorg. Þrátt fyrir að ekki sé hægt að breyta örlögum Magnúsar getur vitundarvakning hjálpað öðrum fjölskyldum.

„Magnús kemur frá afskaplega venjulegu heimili. Engin áföll sem hann lenti í eða ollu því að hann leiddist út í fíkniefni. Hann var bara með þennan sjúkdóm. Það er hræðilegt að vera foreldri og geta ekki gert neitt. Þú getur ímyndað þér það versta og margfaldað það með þúsund, þá ertu kannski einhvers staðar nálægt því sem okkur líður. Við fáum ekki breytt því sem gerðist.

Guðrún og Magnús Andri.

Það eru svo margir búnir að fara núna svo ungir. Dagurinn sem við fundum son okkar, er sá versti sem nokkurt foreldri gengur í gegnum. Í hvert skipti sem við heyrum af barni deyja á þennan hátt upplifum við það með foreldrunum,“ segir Guðrún, en eftir að hún opnaði sig um sögu Magnúsar hefur hún heyrt af mörgum ungmennum sem hafa hlotið sömu örlög.

Komu að syni sínum látnum

Magnús flutti að heiman seint á síðasta ári. Þegar Guðrún hafði ekki heyrt í syni sínum í heilan dag bað hún Sæmund um að koma með henni til þess að athuga með Magnús. Hún segist hafa fundið á sér að ekki væri allt í lagi, enda hefði hún aldrei áður beðið manninn sinn um að fylgja sér til Magnúsar. Tilfinningin reyndist rétt, þar fundu þau son sinn látinn.

„Við töluðum saman oft á dag. Hann lét mig alltaf vita þegar hann var að fara að sofa, nema svo heyrði ég ekkert í honum á sunnudeginum. Ég fann hann þarna og hringdi strax í Neyðarlínuna.“

Guðrún er þakklát lögreglunni fyrir þá nærgætni sem hún sýndi við þessar hörmulegu aðstæður. „Lögreglan og sjúkraliðar komu. Ég hef oft síðan hugsað til lögreglunnar í Kópavoginum. Þetta eru bara ungir strákar, þeir voru stórkostlegir. Lögreglan kom inn í aðstæður sem eru þær verstu í lífi einstaklings. Ég ætla að þakka lögreglunni í Kópavogi fyrir að hafa verið þarna þegar þetta gerðist. Ég hef hugsað til þeirra svo oft. Þetta starfsfólk er stórkostlegt,“ segir Guðrún. Hjónin segja tilfelli sonar þeirra sé langt frá því einsdæmi og eiga erfitt með að ímynda sér álagið sem fylgir því að koma inn í slíkar aðstæður.

Bræðurnir á yngri árum.

Þörf á breytingum

Sæmundur og Guðrún vilja breytingar innan heilbrigðiskerfisins. „Við þekkjum það hvernig þetta kerfi virkar alls ekki. Ég sendi tölvupóst á landlækni og óskaði eftir því að fá fund og útskýra fyrir honum að það væri ópíóíðafaraldur – það virðist ekki vera vitneskja um það innan landlæknisembættisins. Ég ítrekaði tölvupóstinn viku seinna og fékk ekki svar. Ég hringdi, en fékk ekkert svar. Aðstoðarmaður hjá landlækni sendi tölvupóst á okkur tveimur vikum eftir upphaflega fundarbeiðni og sagði að Alma væri í orlofi og að hann mundi ræða fundarbeiðnina við hana þegar hún kæmi úr fríi. Í kjölfarið sendi ég póst á þrjá ráðherra og óskaði eftir fundi. Bæði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra svöruðu strax og gáfu sér tíma til að hitta okkur og kanna okkar hlið á þessum málum,“ segir Sæmundur.

Hjónin fóru á fund forsætisráðherra. Mynd: Kazuma Takigawa/ Mannlíf

Hann bendir á að þegar um er að ræða slys í samgöngum séu þau rannsökuð í þaula.

„Það er rannsóknarnefnd samgönguslysa, hvert bílslys og öll slys eru rannsökuð, en þetta vekur enga eftirtekt. Flestir í dag þekkja einhvern sem þekkir einhvern sem hefur fallið úr þessu.“

Afeitrun er gerð á tveimur stöðum, fíknigeðdeild Landspítalans og á sjúkrahúsinu Vogi. Biðlistar á Vog hafa árum saman verið langir.

„Það er eitt sjúkrahús hérna – Vogur. Það er ekkert af rúmum fyrir allt þetta veika fólk sem er hérna, þessa ungu krakka. Hvað þá fyrir foreldra sem standa í því að eiga börn sem eru svona veik. Við hvern eigum við að tala?“

Efnin orðin sterkari

Hjónin segja mikinn mun vera á því að hætta í neyslu lyfja og annarra fíkniefna. Fráhvörfin séu lengri og endurhæfing flóknari. Þau sáu á Magnúsi að meðferðarúrræði virkuðu mun betur áður en hann hóf neyslu ópíóíða.

„Þetta er faraldur sem er rétt að byrja“

„Þegar hann fór fyrst í meðferð þá var hann í grasneyslu. Það var allt annað. Þetta er margra mánaða ferli. Hann var gjörsamlega búinn andlega. Þetta eru krakkar sem eru að prófa þessar töflur, taka of margar og það verður ekki aftur snúið. Svo er búið að blanda þetta og pressa, þú veist ekkert hvað þú ert að taka inn. Það er fjöldi ungs fólks að deyja, sonur okkar var ekki sá eini. Þetta er faraldur sem er rétt að byrja og Ísland er ekki búið undir þetta. Þessi lyf grípa fólk svo sterkt.“

Magnús með fjölskyldu sinni.

Sæmundur segir þær meðferðir sem í boði eru hér á landi vera hugsaðar út frá áfengisneyslu. Það séu ekki til úrræði fyrir þá sem eru háðir sterkum verkjalyfjum.

„Þessir ópíóíðar og fíkniefni eru sett í undir sama hatt. Kerfið í dag snýr að afeitrun af áfengi. Þetta er eins og að bera saman gulrót og lambakjöt, sem er hvort tveggja matur, en það vita allir að þetta er ekki sami matur. Það er ekki hægt að setja þetta, sem er komið núna, undir sama hatt.“

 

„fólk deyr við að bíða“

Guðrún birti færslu um andlát Magnúsar á Facebook. Hún hefur fengið fjölda skilaboða frá öðrum sem misst hafa ástvini úr ópíóíðaneyslu. Færslan vakti mikla athygli og var henni dreift víða um samfélagsmiðla. Hún segir skort á eftirfylgni fyrir þennan hóp.

„Við viljum sjá að það sé eitthvað gert í þessu. Þetta leggur líf gríðarlega margra fjölskyldna í rúst. Það þarf eftirfylgni og utanumhald þegar svona ungir einstaklingar eru að fara í meðferð. Það virkar ekki það sama og þegar um er að ræða afeitrun af áfengi. Þeir sem vilja komast aftur út í samfélagið verða að eiga einhverja von og það þurfa að vera úrræði sem hjálpa þeim.

Magnús Andri.

Elsku drengurinn okkar, hann Magnús, óskaði eftir meðferðarúrræði, það var ekki til staðar. Það þarf að vera lækning í boði. Fólk þarf bara að komast í meðferð og á ekki að þurfa að bíða, fólk deyr við að bíða. Tíu daga afeitrun af ópíóíðum er ekkert.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -