Fimmtudagur 2. maí, 2024
6.4 C
Reykjavik

Hallgrímur fullur af þakklæti og spennu: „Þetta er einhvers konar óreglubundin rútína“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hallgrímur Árnason er einn mest spennandi listamaður þjóðarinnar en hann heldur sína fyrstu myndlistarsýningu á Íslandi í dag en ber sýningin nafnið Opnar Skjöldur. Stendur sýningin yfir til 30. september. Hallgrímur hefur skapað list sína undanfarin ár í Vín í Austurríki við gott orðspor. Hallgrímur, sem ólst upp í Breiðholti, hefur unnið ýmis störf í gegnum árin eins og leikskólaleiðbeinandi, þjónn og flugfreyja en starfar í dag sem myndlistamaður.

„Sýningin fer fram í Listval Gallery,“ sagði Hallgrímur við Mannlíf um hvernig þessi sýning kom til „Í raun voru fyrstu kynni mín og Listvals nútímaleg samfélags- og instagram-kynni sem ég man nú ekki alveg hvernig til komu svona alveg í byrjun. Upphafið á okkar samstarfi var svo þátttaka mín í jólasamsýningu þeirra í Hörpu síðastliðinn vetur og upp úr því fór samtalið fljótt að leiðast út í pælingar um einkasýningu á þeirra vegum. Þetta er bara búið að vera yndislegt samstarf og ég er þeim Listvalskonum afskaplega þakklátur fyrir tækifærið, samstarfið, trúna, skilninginn og bara stemninguna almennt. Þetta hefur verið frábært og ég get ekki beðið eftir að opna sýninguna fyrir almenningi.“

„Ég reyni nú eftir bestu getu að stilla væntingunum í hóf, en það er óneitanlega erfitt þegar eftirvæntingunni tekst einhvern veginn alltaf að taka völdin,“ sagði listamaðurinn um væntingar sínar gagnvart sýningunni. “Verandi mín fyrsta sýning á Íslandi, þá eru þetta þó svolítið ótroðnar slóðir sem ég er að feta og hef ég í rauninni ekki hugmynd um hvers ég nákvæmlega á að vænta. Enn sem komið er er tilhlökkunin ráðandi tilfinningin, en það kæmi mér lítið á óvart ef kvíðinn tæki svo upp á því að frekjast svolítið þegar nær dregur opnun. Almennt er ég þó bara gríðarlega spenntur að fá loksins að sýna fólki hér heima hvað ég er að aðhafast á striganum þarna úti í Vín. Ég vona svo náttúrulega að þetta reynist verða sýning sem heilli og dragi fólk að og að þetta verði í raun einhvers konar upphaf að aukinni listrænni viðveru minni á Íslandi.“

 

Viðrar vel til loftslagsbreytinga eftir Hallgrím Árnason

 

En eins og margir listamenn þá lifir Hallgrímur ekki hinum týpíska 9 til 5 lífstíl þegar kemur að vinnuferlinu. „Þetta er einhvers konar óreglubundin rútína þar sem flakkað er á milli þess að mála, efast, mála, hugsa, sofa, mála, fyllast mikilmennskubrjálæði, mála meira, fyllast svo eftirsjá og ofsakvíða, sofa illa, mála aftur meira, sofa aðeins betur og lenda svo að lokum á þeirri málamiðlun að þetta sé, jú, bara býsna gott allt saman. Svo er þetta bara endurtekið í sífellu þar til verkin lenda á sýningunni.“

- Auglýsing -

„Ég reyni eftir fremsta megni að fylgjast vel með, sem er í dag orðið tiltölulega auðvelt með aðstoð Instagram og er það alveg ótrúlega skemmtilegt því hér eru frábærir hlutir í gangi. Það listafólk sem mér dettur fyrst í hug eru Georg Óskar, Kristín Morthens og Halldór Ragnarsson,“ sagði Hallgrímur um hvort hann gæti fylgst með íslensku listasenunni þó svo hann búi í Austurríki. „Fór svo á æðislega yfirlitssýningu Snorra Ásmundssonar í Listasafni Reykjanesbæjar ásamt því að hafa heillast upp úr skónum af sýningu Dýrfinnu Benitu í Hafnarhúsinu. Svo má ég líka til með að nefna Vínarbræður mína, þá Berg Nordal og Jakob Veigar, en Bergur hélt nýverið stóra einkasýningu í Berlín á meðan Jakob opnar sýningu í Listasafni Árnesinga í byrjun september.“

Þó að Hallgrímur sé að halda sýningu á Íslandi þá sér hann ekki fram á að flytja heim til Íslands, að minnsta kosti ekki á næstunni. „Aldrei að segja aldrei, því hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér, en í augnablikinu stefnir frekar í að önnur lönd verði næst á listanum yfir áfangastaði. Hvort það verði svo t.d. einhvers staðar í Skandinavíu, á Englandi eða í Þýskalandi verður bara að fá að koma í ljós. Það er svo mikið til af spennandi borgum, sjáðu til.“

Notkun gervigreindar í listum hefur verið mikið í umræðunni undanfarið ár og eru margir alfarið á móti að blanda listum og gervigreind saman.

- Auglýsing -

„Ég verð nú að viðurkenna að ég hef lítið fylgst með þeirri umræðu,“ sagði Hallgrímur um málið. „Málverkið hefur undanfarin ár átt hug minn svo gott sem allan og sem betur fer tel ég enn langt í, ef yfir höfuð mögulegt, að gervigreind komi til með að skila af sér einhverju sem virkaði sannfærandi sem slíkt. Málverk þarf maður að upplifa í persónu, því maður þarf að geta skoðað það af nánd, upplifað strúktúrinn og áferðina, löngunina til að snerta og stundum jafnvel á einhvern furðulegan hátt að smakka það, velt fyrir sér efnisnotkun, hugsunarhætti og upplifun þess sem stendur því að baki. Sem og náttúrulega þá furðulegu blöndu mannlegra þátta, svosem breyskleika, hæfileika, ástríðu og eiginleikans að geta unnið úr og með eigin vankanta, sem á einhvern hátt er, að mínu mati, uppskriftin að þeirri orku sem gerir góða myndlist að snilld. Hvort þetta sé á valdi gervigreindar veit ég ekki. Ég veit hinsvegar að ég vona ekki.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -