Heiðar Jónsson, oftast kallaður Heiðar Snyrtir, er í „algjöru tjáningarbanni“ gagnvart viðbrögðum við nýjasta leikriti Tyrfings Tyrfingssonar, sem fjallar um Heiðar.
Mikill styr hefur staðið um nýjasta leikrit Tyrfings Tyrfingssonar, Lúna, sem nú er í sýningu í Borgarleikhúsinu. Leikritið, sem upprunalega átti að heita Kvöldstund með Heiðari snyrti, fjallar um hjón sem fá óvænta heimsókn eitt kvöldið er Heiðar snyrtir knýr dyra. Drífa Snædal, talskona Stígamóta skrifaði pistil á Vísi þar sem hún talaði um það að gera leikrit þar sem persóna Heiðars er í stóru hlutverki, ýfi upp gömul sár brotaþola Heiðars, en hann var tvívegis dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn ungum mönnum, árið 1996.
Nokkrir aðilar sem séð hafa leikritið, hafa tekið upp hanskann fyrir leikhúsið en Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, leikkona segist hafa orðið „djúpt snortin“ er hún sá æfingu á leikritinu. Þá sagði hún verkið „hreinskilið, sem fjallar um fegurðina og ástina sem er það allra verðmætasta og hvað það er sárt að lifa í þessu óblíða landi þar sem óttaslegin dómharkan ríkir, aftengdur, utangátta og einn.“
Leikskáldið sjálft svaraði gagnrýninni í Lestinni á Rás 1. „Það er samt mikilvægt að muna að fólk má gagnrýna mann og hafa á manni sterkar og neikvæðar skoðanir,“ segir Tyrfingur. „Ég tek mér leyfi til að skálda og nota umdeilda persónu og þá get ég ekki farið að vorkenna mér yfir því þegar fólki mislíkar.“ Þá sagði hann að það hefði verið óheiðarlegt að breyta leikritinu vegna gagnrýni.
Mannlíf sendi línu á Heiðar sjálfan og spurði hann út í viðbrögðin við leikritinu en fékk stutt og laggott svar: „Alveg í tjáningarbanni og líkar það vel. Takk samt!“