Lögregla var kölluð til á veitingastað í miðbæ Reykjavíkur í gærkvöldi þar sem tveir aðilar sváfu ölvunarsvefni. Þau voru vakin og þeim vísað á brott. Skömmu síðar barst lögreglu tilkynning um mann sem var illa klæddur í miðbænum. Mikill kuldi var úti og fékk hann húsaskjól í fangageymslu lögreglu.
Einn maður var handtekinn í kjölfar líkamsárásar í sama hverfi og annar var handtekinn í Vesturbænum eftir að hafa reynt að sparka upp hurð. Íbúi í Garðabæ hafði samband við lögreglu og sagðist hafa heyrt byssuhvelli í hverfinu. Síðar kom í ljós að um flugelda var að ræða. Þá sinnti lögregla umferðareftirliti og stöðvaði nokkra ökumenn sem reyndust vera undir áhrifum vímuefna.