Föstudagur 12. apríl, 2024
2.8 C
Reykjavik

Hrafnhildur skilar þyngdarskömminni: „Þetta er bæði sorglegt og skaðlegt“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í merkilegum pistli skrifar Hrafnhildur Sigmarsdóttir um upplifun sína á þyngdarskömm sem konur verða fyrir í samfélaginu.

Í pistlinum segir Hrafnhildur frá því þegar hún var stödd í búningsklefa fyrir stuttu með vinkonu sinni. Þegar Hrafnhildur stendur þar nakin fyrir framan vinkonu sína segir vinkonan við hana hvað hún líti vel út og hló Hrafnhildur vandræðalega í framhaldinu.

„Ég sá út undan mér að nokkrar konur veittu samtali okkar eftirtekt. „Já, takk,“ sagði ég og hélt áfram að klæða mig. „Hvað ertu þung?“ heyrðist síðan spurt. Ég fraus með brækurnar um mig miðja. Á örskotsstundu fór taugakerfið á yfirsnúning. Ég varð skyndilega eins vör um mig og antílópa innan um tígrisdýr. Hættuástand hafði skapast. Ég fann kaldan hroll fara eftir hryggnum og hvernig öndunin varð grynnri. Mig svimaði smá og óraunveruleikatilfinning tók yfir. Ég fann hvernig augun leituðu strax að útgönguleið,“ skrifaði Hrafnhildur í pistlinum sem birtist á Heimildinni en að hennar sögn varð andrúmsloftið í klefanum fullt af kvíða og mátti heyra saumnál detta.

„Það sem gerðist í kjölfarið var að þrálát þörf mín til að skilja umhverfi mitt tók yfir. Ég svaraði fremur hátt „Ég er 90 kíló.“ Uglurnar tóku andköf yfir því að ég svaraði í vitna viðurvist. „Ha! Ertu 90 kíló! Þú lítur ekki út fyrir að vera 90 kíló,“ sagði hún í tón sem gaf til kynna að ég ætti að vera þakklát fyrir að líta ekki út fyrir að eiga kílóin mín. 

„Nú! Hvernig líta 90 kíló út?“ spurði ég. Hún yppti öxlunum og varð ögn meðvitaðri um sjálfa sig í aðstæðunum. „Hvað ert þú þung?“ spurði ég. Hún svaraði lágt „Ehhh, svona 68, held ég,“ og horfði í kringum sig til að athuga hvort uglurnar hefðu nokkuð heyrt skömmina. „Þú lítur ekki út fyrir að vera 68 kíló,“ sagði ég með tón. „Hvað meinarðu?“ sagði hún hissa. „Nú! Hvernig líta 68 kíló út?“ sagði ég þá, yppti öxlum og hló. Á leiðinni heim úr líkamsræktarstöðinni fór ég að velta því fyrir mér af hverju sé svona mikil skömm yfir þyngdartölu kvenna.“

Í framhaldinu fór Hrafnhildur að segja konum í óspurðum fréttum hversu þung hún væri og spyrja þær um þeirra þyngdartölu. Hún komst fljótt að því að slíkt var ekki líklegt til vinsælda hjá konum. Hins vegar deildu karlkyns vinir hennar ekki þessum áhyggjum og svöruðu um leið.

Hún ræðir einnig þátt líkamsræktarstöðva sem hafa að hennar mati ýtt undir óöryggi kvenna í gegnum áratugina. „Það er mér minnisstæð kona sem án efa var með sjúkdóminn „fitubjúg“ sem lítið var talað um á þeim tíma. Hún mætti ítrekað á átaksnámskeiðin og var sú sem var sterk, stór, í hörkuformi og tók mest á. Hún var ótrúlega flott. Hún léttist ekki neitt og fékk viðmót kennara samkvæmt því. „Æi“ sagði ein þessara ungfrúa Íslandsmeyja með yfirlætisfullum tón og höfuð konunnar hallaði undir í skömm. Henni var ekki hælt fyrir dugnað sinn, hörku eða þol,“ en Hrafnhildur segir að í dag sé miklu meira vitað um hluti sem spila inn í þyngdartölu kvenna, meðal annars hormónar, streita og erfðir.

„Að kona geti ekki svarað spurningu um eitthvað eins hlutlaust og þyngd sína án þess að upplifa að það endurspegli virði hennar er til marks um að áhersluþættir samfélags okkar eru á skjön við heilbrigða skynsemi. Þetta er bæði sorglegt og skaðlegt. Hispursleysi mitt gagnvart eigin þyngdartölu hefur hins vegar gert það að verkum að ég hef átt skemmtilegri samtöl við fólk undanfarið. Kunningjakona hallaði sér upp að mér um daginn og sagði sig vera þremur kílóum frá mér. „Reyndu að ná mér,“ sagði ég þá og svo hlógum við djöfullega. Skammarleysið var algjört og það var frelsandi,“ skrifar hún að lokum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -