Tæplega 37 milljónir runnu til RÚV vegna símakosningar Söngvakeppninnar. Kostnaður Ríkisútvarpsins ku vera 125 milljónir við keppnina og skilar því símakosningin ein og sér um þriðjungi, segir í frétt á Vísi.is. Þá bætast við tekjur stofnunarinnar vegna auglýsingasölu og miðasölu á; undanúrslitakeppnina, dómararennslið og úrslitakvöldið.
Heildarfjöldi atkvæðanna var 200.811 og kostaði hvert greitt atkvæði 184 krónur. Er það talsvert minna en í keppninni í fyrra en þá voru greidd 251.471.
Hver áhorfandi gat kosið 40 sinnum. 20 sinnum í gegnum símtal eða með sms, og 20 sinnum var hægt að kjósa með smáforritinu RÚV-stjörnur.
Hera bar nauman sigur úr bítum með 100.835 atkvæðum á meðan Bashar Murad fékk 97.495 atkvæði.