Miðvikudagur 22. maí, 2024
5.8 C
Reykjavik

Jörundur Ragnarsson féll ofan í hyldjúpa jökulsprungu: „Ég ætla ekki að deyja svona“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Árið 2010 féll Jörundur Ragnarson, leikari, ofan í jökulsprungu þegar hann var staddur á rjúpnaveiðum með félaga sínum, Hilmi Snæ, í Mývatnssveit í miklum snjó: „Þetta var í ljósskiptunum, og ég hafði eitthvað misskilið leiðbeiningarnar,“ útskýrir Jörundur og greinir frá því að þeir voru staddir á svæði á Leggjabrjóti sem hann átti ekki að vera að ganga á. 

En Jörundur opnar sig um þessa háskalegu lífsreynslu í þætti Sigurlaugar M. Jónasdóttur, Segðu mér.  

„Ég var sem sé að labba í miklum snjó og lappirnar eru að detta niður í svona smá holur inn á milli og maður er að hífa sig upp á hnénu. Svo gerist þetta í eitt skipti og ég er að hífa mig upp, á hinni löppinni, og þá hrynur allt undan mér. Þá var ég bara að labba ofan á svona fleka“. 

Fallið var um það bil 8-9 metrar. Jörundur lýsir því að fallið hafi ekki verið frjálst heldur hafi hann verið utan í steinvegg allan tímann, sem tók af honum mesta fallið. 

Aðspurður hvort að hann hafi meitt sig í fallinu. „Jah, bara ég fékk kúlu og braut á mér nögl og fötin rifnuðu öll en nei brotnaði ekki neitt. Heldur lenti ég bara á löppunum, skilurðu“. Jörundur lýsir því að hann hafi lent á grjóthnullungi sem hafi dottið niður í sprunguna og var um það bil meter og hálfur að breidd. Hnullungurinn hafði skorðast af í sprungunni sem annars var 30 metrar að dýpt.

Lán í óláni 

Jörundur lýsir því hvernig hann hafi teygt sig í símann til að kveikja ljós og kanna aðstæður eftir að hann lenti. „Þegar ég skoðaði í kringum mig þá sá ég bara hyldýpi fyrir neðan mig – Ég sá ekki til botns, beggja megin við steininn sem ég lenti á“.

- Auglýsing -

„Það er rosa mikið adrenalín-rúss,“ útskýrir hann hugsunarferlið í aðstæðunum en segist viðkenna að hann hefði sjálfur ímyndað sér að hann yrði í meira panikki. En að hann hafi litið upp og séð gatið þar sem hann datt í gegnum. „Já, ok ég er kominn í vandræði“. 

Án símasambands og með ekkert annað meðferðis en 2 – 3 rjúpur  í töskunni og einn Svala leitar Jörundur allra leiða til að komast upp.

Ekki var gerlegt að klifra upp sprunguna en hann lýsir því í viðtalinu hvernig hann nær að þvinga sér upp á milli sprunguveggjanna. Jörundur kemst þó ekki alla leið upp en þó nógu langt til að ná símasambandi. Jörundur hringir í Hilmi Snæ félaga sinn og lýsir fyrir honum aðstæðum og biður hann um að hringja í Björgunarsveitina.

- Auglýsing -

Hilmir Snær fer því næst að leita að Jörundi, sem að eftir á að hyggja hafi það ekki mjög gáfulegt í ljósi aðstæðna.

Leitin

Jörundur lýsir biðinni niðri í sprungunni. Hvernig hann hafi svo heyrt í rödd vinar síns, sem var hafði verið í um það bil kílómeters fjarlægð frá honum þegar hann hafði náð sambandi við hann. 

Eftir hálftíma bið gat Jörundur heyrt köllin frá vini sínum og farið að kalla á hann til baka. Léttir færðist yfir Jörund á meðan rödd vinar hans hækkaði og hækkaði. En svo fjarlægðist hljóðið aftur. Jörundur reynir enn að brölta upp og hringja aftur í Hilmi Snæ – sem hafði ekki heyrt í honum köllin. Þá var símtæki Hilmis orðið batteríislaust. 

Vonleysið

Jörundur reynir að ná sambandi við Neyðarlínuna en sambandið er lélegt og í miðjum hamaganginum berst Jörundi símtal frá barnsmóður sinni og þáverandi konu. Með blikkandi mynd af henni og nýfæddu barni þeirra gat hann ekki hugsað sér að svara henni í þessum aðstæðum. Hann klippir ósjálfrátt  að sér höndinni með þeim afleiðingum að hann glutrar símanum og horfir á eftir honum ofan í hyldýpið. Á því augnabliki grípur hann hræðsla og vonleysi.

„Ef að Himmi finnur mig ekki, þá finnur björgunarsveitin mig ekki. Ég er hérna með tvær rjúpur og Svala. Ég lifi kannski hérna í tvo daga og svo finna þeir bara beinagrind í vor“ 

Eftir tvo tíma er Jörundur lurkum laminn, þreyttur og vonlaus og liggur í hnipri á steinhnullungnum „Ég ætla ekki að deyja svona ég ætla frekar að deyja við að reyna að komast upp,“ segir Jörundur og ákveður að hrista í sig kraft. Hann ákveður að reyna að fara aðra leið sem er áhættusamir þar sem ef hann skyldi missa fótana að þá myndi fallið verða ofan í hyldýpið. 

Jörundur nær að bjarga sér upp úr holunni. Í gleðikasti öskrar hann upp yfir sig. Hann sér Hilmi Snæ úrvinda en hlaupandi í um það bil 200 metrum frá sér. Björgunarsveitin er þá einnig mætt. Í kjölfarið eru gerðar mælingar á sprungunni sem hafðar eru eftir í viðtalinu.

Margoft hefur verið reynt að fá Jörund í viðtal og ræða lífsreynsluna en hann viðurkennir að atvikið hafi markað hann mikið og sð svo erfitt hafi verið fyrir hann að opna sig án þess að bresta í grát. „Ég vildi ekkert vera að mjólka það í fjölmiðlum,“ útskýrir Jörundur og fannst það einhver óþarfa athyglissýki.

Fékk áfallahjálp

Í langan tíma á eftir fylgdu Jörundi martraðir. „Í þeim var ég að detta og vita ekki hvenær ég myndi lenda,“ og lýsir hann draumunum eins hann vissi aldrei hvenær hann myndi lenda.

Í áfallahjálpinni fékk Jörundur að vita að ef einstaklingur kæmist sjálfur úr þeim eða gæti bjargað sér sjálfur að þá teljist áfallið minna, í samanburði ef til dæmis Jörundi hefði verið bjargað af Björgunarsveitinni og upplifað algjört bjargarleysi – og upp á aðra kominn. „Maður sigrast á þessu með að bjarga sér sjálfur. Ég var heppinn með það“.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -