Föstudagur 11. október, 2024
-0.1 C
Reykjavik

Karlinn sem gerði kraftaverkin – Nýr hlaðvarpsþáttur Jóns Sigurðar væntanlegur í kvöld

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Er til fólk sem getur veitt blindum sýn, læknað fólk af krabbameini og ljáð lömuðu fólki mátt í öllum líkamanum? Í Andalúsíu á Spáni trúa margir að svo sé og þess til sannindamerkis benda þeir á sögu heilags manns sem Custodio hét. Hann féll reyndar frá árið 1961 en langar biðraðir við gamlan bænastað hans, sem er lítill hellir, sanna að fólk telur hann enn vera að störfum því fólk sækir þann stað enn í dag til að fá bót meina sinna. 

Af kraftaverkamanninum fara ýmsar sögur, ekki aðeins manna á milli heldur hefur rithöfundurinn Micheal Jacobs sagt frá honum í frægustu bók sinni, The Factory of Light, eða Ljósfabrikkan. Þar segir, til dæmis, frá því þegar foreldrar fóru með lamaðan dreng sinn og ætluðu að taka hús á Custodio en rákust á hann á förnum vegi. Án frekari viðkynningar bað hann drenginn að koma niður af asnanum en foreldrar sögðu meinbugi á því og ætluðu að fara að útlysta fyrir honum sjúkrasögu stráks. Custodio hlustaði hinsvegar ekki á slíkt tal og skipaði drengnum að koma niður af farstkjótanum. Loks lét drengurinn það eftir honum og, öllum til mikillar undrunar, stóð hann styrkum fótum loks þegar hann hafði jörð undir fótum og labbaði alheilbrigður til næsta bæjar.

Jón Sigurður Eyjólfsson, sem býr á þessu svæði, segir í hlaðvarpsþætti sínum Rúntað á Rucio, að á flestum heimilum á svæðinu finnist myndir af Heilögum Custodio, álíka þeim sem fólk hefur af dýrðlingum sínum. Stundum eru þær á sérstöku altari. Til eru svo og fleiri kraftaverkamenn af þessu tagi sem enn eru sagðir veita líkn þrátt fyrir að hafa horfið yfir móðuna miklu. Jón Sigurður hefur látið reyna á lækningarmáttinn í hellinum en án árangurs. Þó gerðist þar nokkuð sem gefur til kynna að sá gamli gæti enn verið að störfum en sagt verður frá því í þættinum.

Ekki kann Jón Sigurður sambærilegar sögur frá Íslandi nema þá helst af Guðrúnu Sigurðardóttur miðils sem sagði frá störfum sínum í bókinni Birtan að handan, sem kom út árið 1986. Notaði hún miðilshæfileika sína til að koma fjölda fólks til aðstoðar, en margir leituðu á náðir hennar á löngum ferli, og tók hún aldrei eyrir fyrir. Einnig skráði hún sögur Ragnheiðar Brynjólfsdóttur, biskupsdóttur sem eignaðist barn í meinum á sautjándu öld, sem sagði miðlinum raunir sínar sem svo eru skráðar í bókinni. Custodio tók ekki heldur laun fyrir sín störf og enn síður barnabarn hans sem breytt hefur heimili kraftaverkamannsins í safn. Þangað fór Jón Sigurður og fékk bágt fyrir þegar hann dró upp pyngju sína að heimsókn lokinni. „Við viljum ekkert svona hér,“ sagði afabarnið.

Sextándi hlaðvarpsþáttur Jóns Sigurðar; Rúntað á Rucio birtist á vef Mannlífs í kvöld og má bóka það að þátturinn verður bráðskemmtilegur að vanda. 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -