Fimmtudagur 12. desember, 2024
4.8 C
Reykjavik

Kjartan gerir upp reiðhjól og gefur flóttafólki frá Úkraínu: „Ég fann til með þeim“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Kjartan Pálsson er 78 ára fyrrverandi prentari sem býr í Danmörku. Þegar stríðið í Úkraínu byrjaði ákvað hann að gera upp gömul reiðhjól og gefa flóttafólki frá Úkraínu sem flúið hafa til Danmerkur.

Margt hefur á daga Kjartans Pálssonar drifið í gegnum árin en segir frá því helsta í viðtali við Mannlíf. Kjartan býr nú í Danmörku en aðdragandinn að því að hann fór þangað er langur.

„Aðdragandi af því að ég fór til Danmerkur aðeins 28 ára gamall til þess að sérmennta mig í að prenta límmiða,“ segir Kjartan og heldur áfram: „Ég var búinn að prófa margt á Íslandi. Ég vann í fiskvinnslu í Hampiðjunni. Vann líka við að setja upp sjónvarpsloftnet þegar fyrstu sjónvörpin komu en það voru Normandy tæki. Þá reisti ég einnig lóran loftnetið að Gufuskálum. Þar að auki aðstoðaði ég við að stofna Björgunarsveitina Fiskaklettur í Hafnarfirði með frændum mínum og góðum vinum. Svo fór ég að vinna hjá frænda mínum, Páli Bjarnasyni sem rak prentsmiðju Jóns Helgasonar að Bergstaðastræti með Jóni og Kobba. Með námi var ég harkari hjá Steindóri meðal annars.“

Ástin kviknar

Þegar Kjartan var um tvítugt kynntist hann Björgu Karlsdóttur.

„Ég kynnist Björgu Karlsdóttir þegar ég va um 20 ára gamall. Faðir hennar „Gamli“ eins og hann var alltaf kallaður rak límmiðaprentsmiðju í kjallaranum í Melgerði þar sem þau bjuggu.“

- Auglýsing -

Þau Björg eignast svo dæturnar Guðnýju og Báru og Kjartan lærði prentið og fór að vinna í Grágás í Keflavík.

„Svo kemur að því að Gamla vantar mann í að prenta. Svo ég söðla um og fer að vinna hjá honum. Fæ ég gríðarlegan áhuga á að læra allt um límmiða,“ segir Kjartan og heldur áfram. „Gamli hafði verið á prentvélasýningu og keypti hann svaka stóra prentvél til að prenta límmiða, en mér fannst hún svaka flott og stór. Kom hún í stórum trékassa. Þetta var sama ár og Fischer og Spassky háðu einvígi í Laugardalshöll. Sá sem seldi Gamla vélina, var danskur umbosaðili fyrir þessar japönsku vélar. Fóru þeir saman og sáu einvígið. Urðum við strax miklir mátar og vorum það alla tíð, fram á síðasta dag. Er hann nú látinn. Hann hét Hannibal Örbæ. Hann setti síðan okkur inn í hvernig vélin virkaði og var það svaka spennandi. Eftir nokkurn tíma finnst mér vanta að vita meira. Er þá ákveðið að fá mann frá Danmörku sem rak prentsmiðju með samskonar vélar.“

Sá danski kenndi þeim svo á vélina. „Hann kom, Steen að nafni, og fór í að kenna okkur á vélina. Það var mikil reynsla að fá hann. Ég spurð hvort ég mætti koma til hans og læra meira hjá honum í Danmörku. Hann sagði „Ok hvenær sem er“. Systir mín Jóhanna bjó þá í Danmörku, ekki langt frá Prentsmiðjunni.“

- Auglýsing -

Prentbakterían kviknar

Segist Kjartan hafa fengið algjöra bakteríu fyrir þessu nýja fagi.

„Ég var alveg bitinn af þessu og ákveðinn í að læra allt um límmiða, enda var þetta ekki talið fag hér á Íslandi. Ákvað í skyndi að fara til Jóhönnu (systur Kjartans) í sumarfrí, tók hún vel í að hýsa okkur í tvær vikur. Þegar við komum út, ég Björg og stelpurnar, var sirka 30 stiga hiti. Ég fer strax daginn eftir að við komum að heimsækja Steen í prentsmiðjuna sem heitir Etiketto. Kemur þá í ljós að þeir eru þrír eigendur Steen, Martin og Stig. Er ég svo þar alla daga fyrripart og prenta og læri og læri. Hitinn var mikill en það var í lagi því þá mátti drekka bjór í vinnunni og voru þeir ekki að spara það, nýtt fyrir þyrstan Íslendinginn, ekki kvartaði ég.“

Þegar fjölskyldan kom aftur heim sagði Kjartan konu sinni að hann vildi fara út í ár til að læra meira.

„Þegar við erum komin heim til Íslands, eftir sirka tvær vikur segi ég við Björgu að ég vilji fara út í eitt ár og læra meira ef þeir taka mig í vinnu. Hún samþykkir það og ég hringi í Steen sem segir mér að koma og að ég fái vinnu. Þá er það ákveðið og farið í að leigja út íbúðina og ákveðið að ég fari fyrst og finni stað að búa á. Í Kaupmannahöfn reddaði Jóhanna okkur íbúð í sömu blokk og hún bjó í.“

Fann ráð til að læra dönsku fljótt

Kjartan segist ekki hafa talað stakt orð í dönsku en að hann hafi fundið ráð við því.

„Allt gengur eins og í lygasögu og ég í skýjunum. Fer ég svo að vinna daginn eftir að ég kem. Ekki kunni ég að tal eitt einasta orð í dönsku, enda skrópaði ég í tímum því ég ætlaði ekki að læra eitthvað hrognamál með kartöflu í hálsinum. Það kom nú ekki að sök því ég fann gott ráð við því. Á leiðinni úr vinnunni er pöbbinn Vennernes hjem, sem ég sótti á hverjum degi og fékk mér Elefant og einn vindil, gaf umgang annað slagið og spjallaði við þá sem eru kallaðir stam gestir sem ég var nú reyndar orðin líka. Þar lærði ég fljótt að bjarga mér á dönskunni, orðinn verkstjóri eftir sirka þrjá mánuði.“

Árin urðu svo fleiri en þetta eina ár sem planað var.

„Það urðu fleiri en eitt ár. Ég var í miklum samskiptum við Gamla með nýjungar og hvernig ætti að leysa mörg vandamál. Reddaði notuðum og nýjum vélum handa þeim enda vissi ég  hvað hentaði á Íslandi. Dafnaði fyrirtækið vel hér í Danmörku og var flutt í glæsilegt nýtt húsnæði sem þeir byggðu allt á einu plani og gert fyrir þessa starfsemi. Var ég hjá þeim í um það bil fimm ár.“

Segir Kjartan að hann hafi ráðið fjóra Íslendinga til vinnu hjá fyrirtækinu.

„Það var gott og gaman að vinna með strákunum. Gaman að geta þess að ég réði fjóra Íslendinga í vinnu, þá Gutta, Skúla, Gísla og Eyfa. Gutti eignaðist son með Hönnu og er ég guðfaðir hans en hann var skírður Kjartan. Ég var líka heppinn að ég fékk frí þegar ég var beðinn um að vinna á sýningum, bæði fyrir Örbæk og stundum líka fyrir Nilpeter sem er danskt fyrirtæki sem framleiðir vélar fyrir límmiðabransan en það eru toppvélar. Sýningarnar voru ýmist í Dusseldorf, Mílano, Lujong Paris, Börmingham England. Fór líka og stillti upp og kenndi á vélarnar fyrir þá báða. Var ég orðinn vinsæll og talinn fær í flestann sjó endar mitt brennandi áhugamál og hobbý, það komst ekkert annað að sem kom sér vel síðar.“

Svikinn af meðeiganda

Seinna hóf Kjartan samvinnu við feðga og til að byrja með gekk vel en svo fór að reyna á vinskapinn.

„Síðan fór ég í samvinnu við feðga sem höfðu keypt japanska vél af Örbæk en réði ekki við að prenta á henni. Var ég fenginn til að kenna þeim á hana. Vann ég á kvöldin og kenndi þeim og voru þeir svo ánægðir að þeir buðu mér að gerast meðeigandi í fyrirtækinu. Pabbinn, KB Nilsen, Óli, og ég, áttum jafnan hlut hver. Og varð það úr. Fékk fyrirtækið nafnið Interket. Gekk allt mjög vel og var unnið mikið. Síðan keyptum við Bonnikett sem einnig var miðafyrirtæki. Við keyptum líka Kránpeper sem framleiðir arkið fyrir frímerkja prentun. Fluttum í stórt húsnæði í Ballerup. Allt virtist ganga súper vel. En Adam var ekki lengi í paradís. Óli fór að vera falskur og óheiðalegur en hann sá um fjármálin en ég um framleiðsluna og pabbinn var sölumaður. Þegar ég fór að tala um að hann tæki meira í laun og til eigin nota en við pabbinn og að við fengjum ekkert fram yfir fastakaupið, þá sagðist hann vera með meiri ábyrgð og væri framkvæmdastjóri. Honum var ekki haggað, vildi ekki að allt ætti að vera jafnt eins og talað var um. Þakkaði ég fyrir og lét borga mér út minn hlut og fór. Óli fór á hausinn með Interket. Kom seinna og sá eftir að hafa svikið okkur.“

Eftir að hann hætti hjá Interket hóf hann að starfa fyrir Örbæk.

„Eftir að vera hættur hjá Interket. Fór ég að vinna hjá Örbæk sem sölumaður og prufu prentari, og kenna á vélarnar þegar þær voru seldar. Fór ég með honum til Japans og heimsótti verksmiðjurnar. Það var súper góð reynsluferð. Vann ég hjá honun sirka eitt ár. Komu þá að málum við mig og Örbæk fyrrverandi atvinnurekendur Etiketto, Stin og Martin og vildu fá mig til að fara til Englands, nánar til tekið til Oprinlig Washington fyrir utan Njúkasel. Verkefnið fólst í því að setja í gang og koma á laggirnar prentsmiðju til að prenta límmiða. Nafnið á prentsmiðjunni var Labeling Dynamic. Var það síðan ákveðið og áætlað sirka fjögurra ára verkefni. Fluttum við þangað með yngstu dóttur okkar, Huldu Kristínu sem hafði fæðst í Danmörku og var átta ára þá. Hinar, Bára og Guðný voru komnar með danska kærasta og farnar að búa með þeim í Danmörku.“

Sló í gegn í Englandi

Verkefnið í Englandi gekk framar vonum að sögn Kjartans.

„Var ég búinn að koma prentsmiðjunni í fullan gang á einu ári. Fengum viðurkenningu við opnun fyrir flottan frágang, bæði að utan og að innan. Settum upp vélar, réðum mannskap og kenndum á allar vélar og var ég kominn með góðan mann sem gat tekið við af mér. Allt voru þetta enskir starfsmenn, gott lið. Taldi ég að mínu verkefni væri lokið og voru þeir hæstánægðir og féllust á að svo væri.“

Var þá ákveðið að snúa aftur heim til Íslands en þar gekk á ýmsu.

„Vorum við þá ákveðinn í að fara til Íslands. Gamli hafði haft áhuga á að fá mig í vinnu sem verkstjóra enda hafði hann fylgst með því hvað ég var að gera erlendis. Hann hafði keypt stóra sex lita vél af Örbæk, sem við vorum með á sýningu og mælti ég með henni enda stórkostleg nýjung fyrir íslenskan markað. Voru prentaðar rúllurnar sem notaðar voru fyrir Lottóið þegar það byrjaði á Íslandi. Var ég með í því og var það mjög spennandi að leysa það með þeim aðilum. Ég tók vel á framleiðslunni enda með þekkingu sem vantaði og jók afköst og hagræddi. Þeir Gamli og Addi, sem var orðin framkvæmdastjóri, keyptu húsnæði því það var farið að vera þröngt. Addi og Ari bróðir hans voru meðeigendur, og fannst mér og Björgu, sem vann líka við frágang á vél sem ég fékk þá til að kaupa, að við fengjum hlut í fyrirtækinu en það fékk ekki góðan hljómgrunn. Fannst mér það leiðinlegt. En ég var ekki af baki dottin. Hafði unnið á kvöldin eftir vinnu í Vörumerkingu, á renniverkstæði vinar míns, Árna Brynjólfssonar og syni hans Sigþóra, við að hækka upp jeppa, mest Toyota, um það bil 100 stykki. Var þetta skattlausa árið, og náði ég í dágóðan pening. Tók ég þá ákvörðun um að starta minni eigin prentsmiðju sem fékk nafnið Miðaprentun og láta lönd og leið hvað öðrum fannst. Ég vildi ekki nota mína reynslu í aðra sem kunnu ekki að meta hana. Fór til Englands og keypti notaða góða Nilpeter fjögurra lita vél sem ég þekki og hafði unnið mikið á, en hún passaði vel fyrir íslensk upplög. Leigði ég húsnæði í Einholti hjá Grími í Pólum, súper karakter.“

Svikinn í annað skiptið

Og áfram hélt Kjartan frumkvöðlastarfi sínu á landinu.

„Gekk vel og stækkaði mjög hratt. Kom Þorgeir í Odda að málum við mig, og varð úr að Oddi kom inn sem hluthafi. Frábær samvinna með Þorgeiri öll árin. Stóð allt eins og stafur á bók. Við opnuðum fyrirtæki á Akureyri undir heitinu Límmiðar Norðurlands, í samstarfi við Leif Eiriksson. Leifur kaupir síðan það og rekur sjálfur. Síðan þegar allt óð í peningum og bankarnir lánuðu og lánuðu, kom Addi í vörumerkingu til okkar Þorgeirs og vildu kaupa Miðaprentun. Settum við upp verð og var það samþykkt.“

En Kjartan segist hafa verið svikinn af Adda.

„Ég var svo vitlaus að treysta Adda átti að vita betur. Ég lánaði honum 20 millur í eitt ár og taldi að það mundi vera í lagi. Fékk eftir mikla vinnu við að rukka hannm 13 millur en aldrei meira. Tapaði rest, plús vexti. En á sama tíma voru byggð tvö einbýlishús, eitt handa honum með þrjá tvöfalda bílskúra fyrir alla amerísku kaggana sem hann hafði jú greinilega efni á. Og hitt húsið var handa syni hans. En ekki hægt að gera upp skuldir. Fer ekki ítarlega í þetta hér.“

Áföllin hrönnuðust upp

Kjartan skildi á þessum tímapunkti við Björgu og giftist Lilju nokkurri.

„Á þessum tímapunkti var ég búinn að skilja við Björgu. Og giftur aftur Lilju. Var farið á flug og skoðaður heimurinn en við keyptum húsbíl og ferðuðumst mikið. Síðan skildu við. Startaði ég aftur með Þorgeiri Miðaprent, sem var stytting á miðaprentun. Var það ekki vel séð, en ég var búinn að fá skammir hjá gömlu viðskiptavinum, að þjónustan væri ekki góð hjá Vörum. Það ýtti undir að byrja aftur. Góðir aðilar í Danmörku seldu okkur Nilpeter vél, sex lita. Gekk allt vel og voru gömlu kúnnarnir fljótur til baka. Vorum við með topp mannskap se, hafði unnið hjá okkur áður eða hluti af þeim. Þorgeir hætti og Hafberg kom inn í staðinn, en hann er topp maður í alla staði og frábært að vinna með. Allt gekk vel og dafnaði vel.“ 

Kjartan kynntist svo nýrri konu og hugðist flytja með henni til Danmerkur. En örlögin höfðu annað í huga.

„Ég var búinn að kynnast frábærri konu og var planið að flytja til Danmerkur og var ég búinn að kaupa sumarbústað, 80 kílómetra frá Kaupmannahöfn. En ekki fór það vel þar sem elskan veiktist og lést áður en við náðum að flytja. Missti ég Stubb, hundinn minn og líka aldavin, hann Ásgeir. Tek ákvörðun og flyt alfarið til Danmerkur. Börnin mín og barnabörn bjuggu öll þar. Ég flutti í sumarbústaðinn og var þar nokkurn tíma. Seldi bústaðinn svo og flutti í stórt hjólhýsi og fékk að vera á lóð hjá góðum Íslendingi, honum Binna, sem ég hafði kynnst og erum við alltaf að bralla eitthvað saman.“

Þriðju svikin

Og svo brast Covid á.

„Ég fór að vinna hjá Hótel Lolland sem er niðri við Maribo og rekið af Íslendingi. Var ég þar í um fjóra mánuði við að framreiða morgunmat, taka á móti fólki og allt sem til féll. Unnið var í sirka 10 til 14 tíma alla daga en þetta var á þeim tíma sem covid brestur á. Fara Danir þá að ferðast innanlands. Við tókum á móti um það bil 3000 gestum á þessu tímabili. Herbergin voru átta með baði og sex án en tvær íbúðir voru líka í boði. Þetta var töff en skemmtilegt, mest Danir sem komu en líka blandað erlent lið. Ekki fannst eigandanum ástæða til að greiða mér eftir gott og dyggilegt starf. En ég eltist við það í rúmt eitt ár og fékk þó ekki allt. Skrítið, kannski er þetta eitthvað í íslenskum genum.“

Gefur flóttafólki frá Úkraínu uppgerð hjól

Eftir þetta flutti hinn aldraði prentari í nýja íbúð og gerði sér lítið verkstæði.

Verkstæðið.
Ljómynd: Aðsend

„Ég flutti síðan í nýja íbúð sem ég var búinn að bíða lengi eftir en hún var á jarðhæð með smá garði og útigeymslu. Þar gerði ég lítið verkstæði. Ég tók að mér verk hingað og þangað, eins og að leggja parket, laga þak, fella tré, og með Binna í bílabrasi. Síðan byrjar stríðið í Úkraínu, og fólk byrjaði að flýja hingað í stórum stíl, allslaust og skelfingu lostið, mennirnir í stríði. Ég fann til með þeim og hugsaði um það hvað ég gæti gert til að hjálpa þessu fólki. Ekki er mikið úr að moða hjá mér í peningum. Eins og gamall björgunarsveitarmaður, fer ég í gang með að finna gömul hjól sem fólk er hætt að nota. Hér er mikið hjólaland og í dag er mikið um að fólk sé komið á rafmagnshjól. Gamla hjólið skilið eftir hjá þeim sem selja til dæmis. Frí bæk er ein keðjan. Þangað fer ég og fæ að taka þau hjól, sum léleg og þá tek ég það sem er nothæft og hendi rest. Ég fæ líka hjól frá umsjónarmönnum í blokkum sem kallaðir eru visivertar en þeir hringja þegar þeir hafa tekið til hjól sem eru búin að vera lengi ónotuð, fólk flutt og skilur hjólin eftir.“

Móttakan þar sem Úkraínumenn geta sótt hjólin.
Ljósmynd: Aðsend

„Er ég nú búinn að gefa um 175 hjól og er enn að. Ennfremur koma margir með til mín ýmislegt, eins og til dæmis ryksugur sem virka ekki lengur en ég hreinsa og skipti um poka, laga barka og þá er kominn ryksuga sem virkar. Fólk kemur líka með föt, leirtau og margt annað, ótrúlegt hvað fólk er hjálpsamt. Fólkið er afar þakklátt. Ég get haft þrjú hjól aftan á bílnum hverju sinni, en þetta gengur hægt en gengur vel. Ég bý í Taastrup og staðurinn sem fólkið hefur til að koma og velja sér það sem er komið er í Glostrup, er ekki svo langt frá. Það koma margir með eitt og annað en ég er sá eini sem kem með hjól, útbúinn með standara, glitljósum, bjöllu og skoðunarklár hjól.“

 

 

 

          

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -